12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

59. mál, friðun rjúpna

Jón Sigurðsson:

Þegar mál þetta kom til hv. deildar, þá var um það að ræða, hvort lengdur skyldi friðunartími rjúpunnar. Nú hefir háttv. nefnd lagt til, að feld skyldu verða niður ákvæði laganna frá 1921 og nokkuð af lögunum frá 1913. Viðvíkjandi þessu vildi jeg leyfa mjer að segja nokkur orð.

Háttv., frsm. meiri hl. (BL) nefndi ýmsar ástæður fyrir þessum till. nefndarinnar. Hún vill fella niður friðunina 7. hvert ár, en lengja þeim mun meir friðunartímann. Þetta getur nú litið vel út, og jeg fyrir mitt leyti álít ekki, að það muni miklu, þó að friðunartíminn sje lengdur til 15. október. En jeg held, að hv. nefnd misreikni sig algerlega, þegar hún ályktar, að það, að stytta árlegan drápstíma, geti orðið til þess að koma í veg fyrir alt of mikið rjúpnadráp. Að minsta kosti sýndi reynslan það áður en ákvæðunum um þetta var breytt 1921, að rjúpurnar voru bæði drepnar fyrir og eftir friðunartímann. Svo myndi enn verða raunin á. Enda er tiltölulega hægt að fara í kringum þau ákvæði; menn skjóta rjúpurnar áður en friðunartíminn er útrunninn eða eftir að hann er byrjaður og telja sig hafa skotið þær á drápstímanum. Þetta er því miklum misskilningi blandið hjá hv. nefnd.

Eitt gaf mjer enn tilefni til að standa upp. Háttv. þm. Ak. (BL) sagði í ræðu sinni, að ekki myndi mikið muna um það, þótt rjúpurnar væru friðaðar 7. hvert ár, því veðráttan hafi meira að segja í þessu efni. Jeg skal fúslega játa, að vetrarhörkurnar hafa oft drepið mikið af rjúpum, — en hvernig fer þegar bæði veðráttan og mennirnir leggjast á eitt? Og veðráttan getur jafnt eyðilagt rjúpurnar í desembermánuði sem í janúar. Það er ekki lengra síðan en í desember í vetur, að áfreða gerði norðanlands, svo að þær fáu rjúpur, sem til voru, flögruðu ofan að bæjum, og hefði mátt strádrepa þær niður. Jeg held þess vegna, að hv. nefnd hafi ekki íhugað þetta nægilega, því annars hygg jeg, að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu, að óráðlegt væri að breyta þessum ákvæðum frá því, sem þau eru nú. Að minsta kosti mun jeg greiða atkvæði með því, að friðunarlögin standi eins og þau eru.

Þá held jeg, að það sje ekki á neinum rökum bygt, að óheppilegt sje, að 1 ár falli úr, vegna þess að rjúpurnar berist þá svo óreglulega til erlendra neytenda. Er mjer ekki kunnugt um, að um slíka fasta kaupendur sje að ræða, að það geri til nje frá.

Jeg hefi þá gert nokkra grein fyrir skoðun minni í þessu máli. Jeg hefði helst kosið, að frv. hefði fengið að ganga fram eins og það var, er það kom frá hv. Ed., en þó gæti jeg ef til vill fallist á miðlunartillögu hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Mjer er það mest í mun, að ákvæði laganna frá 1921 og 1913 haldist óbreytt, enda geri jeg ráð fyrir, að litlar líkur sjeu fyrir því, að brtt. nái að ganga í gegnum hv. Ed.