12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (1152)

59. mál, friðun rjúpna

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg tel engan vafa á því, að hv. meiri hluti nefndarinnar hafi komist að rjettri niðurstöðu í máli þessu, því að jeg tel, að sú leið, að friða rjúpuna 7. hvert ár, sje bæði óheppileg og síst til þess fallin að ná tilgangi sínum. Verði aftur á móti þörf friðunarráðstafana eftir fellivetur, þá er auðvitað altaf hægt að koma þeim við. En það hentar ekki að ákveða þann friðunartíma löngu fyrirfram, heldur verður það að gerast þegar náttúran sjálf í hvert skifti gefur tilefni til þess. Og þegar svo stendur á, að veiðitímabili er lokið, en rjúpan engu minni en venjulega, þá segir það sig sjálft, að engin þörf er á að fara þá að friða hana. Aftur getur það vel komið fyrir, að eftir mikinn fellivetur þurfi fleiri ára friðun, og er þá því síður ástæða til að tiltaka 1 friðunarár af 5 eða 7. Menn verða að gera sjer það ljóst, að hjer hefir löggjafanum mishepnast að ná þeim tilgangi, sem hann hefir óskað.

Jeg hygg, að rjett sje að fara eftir till. meiri hl. nefndarinnar, ef ekki á að lenda í óendanlegum deilum og lagabreytingum um þetta mál.