12.04.1924
Neðri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

59. mál, friðun rjúpna

Ingólfur Bjarnarson:

Af því að hv. þm. Borgf. (PO) beindi því hálfgert til mín að bera vitni í máli þessu, þá vil jeg segja nokkur orð. Rjettmæti frv. virðist byggjast á því, hvort rjúpunum hefir fjölgað svo mikið undanfarið, að heppilegt sje nú að leyfa aftur að drepa þær. Hafa komið fram mismunandi skoðanir um þetta, og sýnist helst koma í ljós, að rjúpunum hafi fjölgað mismunandi mikið í hinum einstöku landshlutum. Þó virðist auðsætt á því, sem fram hefir komið, að rjúpunum hefir fjölgað mikið víða um land. Og jeg verð að taka það upp aftur, sem jeg sagði við 1. umr., að um vesturhluta Þingeyjarsýslu, og eins í Eyjafjarðarsýslu, var álitið síðastliðið haust, að rjúpan væri orðin mjög útbreidd og fjöldi hennar með langmesta móti, eftir því sem verið hefir um síðastliðin 10 ár. Sama virðist ekki eiga sjer stað um land alt, og furðar mig á, að ekki sje líkt á komið um þetta atriði. Og nú hefir verið mildur vetur, að minsta kosti fyrir rjúpur, og býst jeg því fyllilega við, að næsta haust verði, þar sem jeg þekki til, geysilega mikið af rjúpum. Jeg hefi fengið þetta staðfest í samtali, sem jeg átti við mann úr mínu hjeraði í gær. Jeg drap á þetta mál við hann, og var hann mjer sammála og sagði, að nú væri sjáanlegur fjöldi af rjúpum.

Jeg vil minnast á þær brtt., sem fram hafa komið, og þó ekki með mörgum orðum. Vil aðeins lýsa því yfir, að jeg felli mig mjög vel við brtt. hv. meiri hl. um að stytta veiðitímann árlega, en fella niður alfriðunarárin. Og jeg vil taka undir það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði, að það getur verið óheppilegt að ákveða viss friðunarár, og muni betra að grípa til slíks þegar rjúpumar falla í harðindum. Því jeg hygg, að þær hverfi meira vegna ills árferðis en skota. Og þegar veiðitíminn er styttur svo mikið, sem frv. gerir ráð fyrir, hjálpar það mikið til um viðhald rjúpunnar, en hitt ákvæðið er rjettara að hafa óákveðið og að ekki sje gripið til þess, nema þegar ástæða er til. Jeg get líka sem gamall veiðimaður getið þess, að jeg tel óheppilegt, hve snemma var byrjað að veiða rjúpumar á haustin. Þær voru ekki þroskaðar orðnar og urðu oft óheppileg og skemd verslunarvara á þeim tíma. En hinsvegar hætt við, að þær sjeu drepnar unnvörpum í janúar, þegar hart er og þær neyðast til að leita sjer bjargar heima við bæi. Jeg mun því sem sagt greiða þessari brtt. atkvæði mitt, en falli hún, mun jeg aðhyllast brtt. á þskj. 178.