25.04.1924
Neðri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1160)

59. mál, friðun rjúpna

Frsm. meiri hl. (Björn Líndal):

Jeg gat þess við 2. umr., að meiri hl. landbn., sem þá kom með brtt.á þskj. 263 við frv. eins og það kom frá hv. Ed., mundi koma með frekari brtt. við þessa umr. Eru þær á þskj. 419, sem var útbýtt hjer í gær.

Eins og hv. þm. hafa sjeð, er aðalbreytingin í því fólgin, að stjórninni er veitt heimild til að friða rjúpuna alt árið, ef ástæða er til þess.

Í öðru lagi er nýmæli, sem fer í þá átt, að unt sje að ná sjer niðri á þeim mönnum, sem selja og kaupa rjúpur á friðunartíma. Það er dálítið vafabundið, hvernig orða ætti greinina og hver þörf væri fyrir hana, þegar rjúpan er ekki friðuð alt árið, heldur aðeins hluta þess. Því þegar rjúpurnar eru skotnar árlega, getur verið afsakanlegt, þótt menn kaupi rjúpur, sem skotnar hafa verið á friðunartíma, því þeim þyrfti ekki að vera kunnugt um, að svo væri. Þess vegna er ætlast til þess, að þeim mönnum sje aðeins refsað, sem það sannast á, að versli með rjúpur, sem þeir vita, að eru veiddar á friðunartíma. Því annars gæti maður átt á hættu, að saklausir liðu hegningu.

Annars eru brtt. svo skýrar og glöggar að jeg sje ekki ástæðu til að fara um þær fleiri orðum, en vona, að hv. þdm. geti fallist á þær.