25.03.1924
Neðri deild: 32. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Því miður get jeg ekki sagt hið sama um þennan kafla fjárlaganna sem hinn fyrri, að jeg sje í illu ánægður með aðgerðir hv. fjvn. Mjer finst hún í sumum tilfellum eigi hafa sýnt fyllilega sanngirni. Jeg átel ekki, þó að hún hafi sýnt hörku talsverða, þar sem hið sama gengur yfir alla. En mjer finst vanta talsvert á, að svo sje á öllum stöðum. Vil jeg nefna þess nokkur dæmi og byrja á skrifstofukostnaði biskups. Jeg skal ekki vefengja, að nauðsynlegt hafi verið að færa hann nokkuð niður, en get þó ómögulega annað sjeð en háttv. nefnd hafi gengið þar of langt, miðað við aðrar till. hennar. Embætti þessu fylgja, sem kunnugt er, mjög miklar skriftir, og enda altaf viðurkent, að biskupi væri nauðsynleg talsverð aðstoð við embættisfærslu sína. Má benda til þess, að á meðan mjög fáum embættismönnum var annars veittur nokkur skrifstofukostnaður, átti slíkt sjer jafnan stað að því er biskup snerti. Svo langt sem jeg man, hafa verið veittar 1000 kr. í þessu skyni, og virðist mjer því sennilegast, eftir öðru, sem sambærilegt má teljast, að nú verði að veita að minsta kosti 1500 kr.

Þá vil jeg minnast nokkuð á 51. tölulið á þskj. 163. Því miður hefi jeg ekki getað náð þeim skjölum, sem snerta þetta mál, og get því ekki talað um það að svo stöddu nema mjög lauslega. Þessi liður snertir aukakennarann við háskólann, dr. Alexander Jóhannesson. Vill nefndin fella niður laun hans. Þessi fjárveiting hefir með rjettu verið talin byggjast beint á samningi, fyrst við þingið, en síðan við stjórnina, eftir að fjárveitingin var tekin reglulega upp í fjárlagafrv. stjórnarinnar. Hygg jeg því, að háttv. fjvn. hafi ekki rannsakað þetta mál nógu vel. Er og vert að geta þess, að upptök þessarar fjárveitingar átti fjvn. þessarar hv. deildar á sínum tíma, en ekki þáverandi stjórn. Jeg veit, að ef líkt stæði á með samkomulag manna á milli, þá væri það talið beint brigðmælgi að fara þá leið, sem hv. fjvn. leggur nú til, að farin verði. Þegar þessi fjárveiting var fyrst upp tekin, stóð svo á, að maður sá, er hjer um ræðir, átti kost á mjög sæmilegu starfi, sem hann var látinn sleppa, til þess að taka við þessu embætti. Jeg skal taka það fram, að jeg var einmitt ráðherra þegar þingið tók þessa ákvörðun, og því nokkuð viðriðinn málið. Dr. Alexander hefir haft rjett til að byggja á því að halda stöðunni áfram.

Jeg hefi nú í þessu augnabliki fengið skjöl þau, sem málið snerta, en vil þó ekki tefja hv. deild á því að lesa nokkuð upp úr þeim, en vildi mælast til, að hv. fjvn. sæi sjer fært að athuga þau fyrir 3. umr. Jeg veit ekki, hvort til nokkurs væri að fara fram á, að hv. nefnd ljeti bíða atkvgr. um þennan lið til 3. umr. Hún ræður því vitanlega, en jeg væri henni þakklátur, ef hún gæti orðið við þeim tilmælum.

Jeg þarf lítið að tala um 53. lið á sama þskj. Hv. fjvn. hefir verið svo góð að geyma hann til 3. umr. Vona jeg, að þetta atriði verði þá orðið skýrara.

Í sambandi við 55. lið vildi jeg athuga það, sem hv. frsm. (ÞórJ) sagði, að hv. fjvn. ætlaðist ekki til þess, að styrkur til stúdenta, sem nám stunda erlendis, væri bundinn við 1200 kr. til hvers, heldur bæri að skifta þessum 12 þús. kr. milli þeirra, líklega á þann hátt, að deilt verði með tölu stúdentanna í upphæðina og hver fái sinn skerf. Ef þetta er meining hv. nefndar, mun stjórnin að sjálfsögðu fara eftir því. Annars verð jeg að segja, að á þeim tíma, sem jeg áður hafði afskifti af þessu máli, var jeg oft í talsverðum vandræðum. Tilætlunin var sú, að þeir íslenskir stúdentar, sem nám stunduðu erlendis, fengju svipaðan styrk og þeir fengu á Garði áður en sambandslögin gengu í gildi. Var jeg því fyrst að hugsa um að veita þeim einum styrk, sem sýndu sjerstakan áhuga á náminu eða höfðu brýnasta þörf fyrir hann. Og einkum verð jeg að líta svo á, að ef klípa á mikið af þessum styrkveitingum, þá nær miklu minni upphæð en 1200 íslenskar krónur til hvers stúdents skamt, og hygg jeg því rjéttara að styrkja þeim mun færri, eða einungis þá, sem styrks eru verðugastir, en sleppa heldur hinum, sem máske dvelja við erlenda háskóla án þess að stunda þar nám að telja megi, svo sem við mun hafa brunnið. En vilji nefndin, að hin aðferðin sje höfð við úthlutun styrksins, sú, að skifta honum jafnt milli allra stúdentanna, þá verður málið mun hægara viðfangs fyrir viðkomandi ráðherra, því að erfitt yrði að skera úr því, hverjum bæri að veita styrkinn og hverjir væru hans síður verðugir. Annars get jeg ekki litið svo á, að ríkissjóði beri skylda til að veita öllum stúdentum slíkan styrk, hversu margir sem færu utan og drægjust á þann hátt frá háskólanum hjer heima. En þess ber að gæta á hinn bóginn, að þeir stúdentar eru beint gabbaðir, er farnir eru að njóta árlegs styrks, svipaðs Garðstyrk, og hafa með rjettu bygt á því, að þeir fengju að halda sama styrk ákveðið árabil. Að fara að kippa að sjer hendinni að þessu leyti er óforsvaranlegt hvað snertir þessa stúdenta. Annað mál má segja, að sje um þá, er hjeðan af bætast við nýir.

Jeg mintist áðan á 53. tölulið á sama þskj. Fyrir þeirri styrkveitingu er það skilyrði sett, að sáttmálasjóður háskólans veiti styrk í sama skyni. Jeg er samdóma hæstv. fjrh. (JÞ) um það, að ekki sje rjett að binda fjárveitingar slíkum skilyrðum, að svo eða svo mikið komi á móti úr öðrum sjóðum. Hitt er rjettara, að þingið veiti úr ríkissjóði það, sem það sjer sjer fært að láta af mörkum, og láti við svo búið standa. Sem dæmi má nefna, að þingið gengur of langt, þegar það fer að skipa fyrir um, hvernig bæjar- eða sveitarsjóðir verja tekjum sínum. T. d. var á þinginu í fyrra samþykt að taka ákveðnar tekjur bæjarsjóða til þess að koma upp fyrir þær leikhúsi. Þetta er of langt gengið. Þingið á að veita það fje, sem því sýnist nauðsyn til og að svo miklu leyti, sem það sjer ríkissjóði fært, en láta síðan ráðast, hvernig fje fæst annarsstaðar frá.

Aðrir hv. þm. hafa minst á styrkina til kvennaskólans í Reykjavík og Flensborgarskólans. Jeg er alveg samdóma háttv. þingmönnum Reykv., að ekki dugir að lækka fjárveitingu til kvennaskólans og heldur ekki til Flensborgarskólans.

Annars ætla jeg ekki að fara mörgum orðum um einstaka liði. Jeg sje, að víða hefir hv. fjvn. látið jafnt ganga yfir alla í niðurfærslum sínum, og er ekkert við því að segja. Það er alveg rjett hjá hv. frsm., að rjettmætt sje og sjálfsagt að klípa af sem flestum fjárveitingum, þar sem því með nokkru móti verður við komið. Því að enda þótt hver einstök upphæð, sem á þennan hátt má spara, sje lítil, þá safnast þegar saman kemur. Og það er langt frá því, að við þurfum nokkuð að skammast okkar fyrir að lækka einstaka liði, þó ekki sje meira en um 500–1000 kr. Það hafa aðrar þjóðir, sem bæði eru stærri og ríkari en við, látið sjer sæma.

Mjer þykir leiðinlegt, að nefndin skuli fella burt fjárveitingu til þess að halda áfram aðgerð á Þingvöllum. Jeg held, að rjett sje að halda henni áfram að einhverju leyti, en get vel fallist á, að upphæðin sje færð eitthvað niður. Hv. frsm. efaðist líka um, að rjett væri að fella þá fjárveitingu alveg niður.

Þá vil jeg minnast á 56. brtt. hv. fjvn., um lækkun á styrknum til síra Jóhannesar Lynge, að í stað 7 þús. kr. komi 4 þús. kr. Jeg geri ráð fyrir, að ekki sje hægt að spyrna á móti því, að þessi fjárveiting sje eitthvað lækkuð, en þessi niðurfærsla hv. fjvn. finst mjer of mikil; og vil jeg vona, að hv. nefnd sjái sjer fært, ef hún hefir ekki þegar gert það, að taka til athugunar, hvort ekki megi hafa þessa fjárveitingu talsvert ríflegri en hún nú leggur til.

Kem jeg þá að veðurathuganastöðinni. Þar held jeg, að háttv. fjvn. hafi stórum yfirsjest. Jeg hygg, að ekkert efamál sje, að ekki megi lækka fjárveitingu til þessarar stofnunar svo mjög, sem nefndin hefir gert, þó svo kunni að vera, að í einhverju megi færa hana niður. Þegar sambandslögin gengu í gildi, lýsti veðurathugunarstöðin í Kaupmannahöfn því yfir, að hún sæi sjer ekki fært að bera lengur kostnað við veðurskeyti hjeðan af Íslandi og veðurathuganir, og enda var viðurkent, að þess væri ekki að vænta. En nú er, svo sem mönnum er kunnugt, afaráríðandi að fá sem glegstar veðurfrjettir hjeðan af landi. Reyndar er ekki komið svo langt, að sjómenn hjer hafi mjög mikið gagn af veðurskeytum ennþá. En þegar loftskeytastöð verður opnuð á Grænlandi, sem verður nú á næstunni, þá er álit sjerfræðinga, að veðurfrjettir hjeðan sjeu alveg ómissandi. Hafa fundir veðurfræðinga, bæði í London og víðar, einmitt lagt afarmikla áherslu á þetta atriði. En ef þetta á að geta orðið, þá er það ekki nóg, að á veðurathuganastöð okkar sje aðeins einn maður, forstöðumaðurinn. Hann fær ekki gegnt öllu því starfi, sem þar verður að leysa af hendi, heldur verður að fá að halda aðstoðarmanni, til hjálpar við samningu veðurskýrslna. Jeg er ekki í vafa um, að hv. nefnd er ekki fullljóst, hversu það starf er umfangsmikið. Skýrslum, sem koma utan af landi, er, eins og eðlilegt má teljast, töluvert ábótavant, og þurfa þær mikillar athugunar og lagfæringar við, áður en hægt er að senda þær út. Og undarlegt mun það virðast, að einmitt um það leyti, sem samband næst við Grænland í þessu efni, þá skulu dregið úr starfsemi veðurathuganastöðvarinnar hjer á landi. En eins og jeg hefi skýrt frá, er ómögulegt að fá nokkuð verulegt út úr skýrslum hjer innanlands nema vinna mjög mikið að þeim. Jeg býst við, að hv. fjvn. geti fengið nánari upplýsingar um alt þetta mál hjá forstjóra veðurathuganastöðvarinnar, og er vorkunnarmál, þó þetta atriði hafi farið fram hjá hv. nefnd að nokkru leyti, svo mikið sem hún hefir haft að starfa. Jeg vænti þess, að hv. nefnd taki þennan lið til nánari athugunar og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki verði fært að skera þessa fjárveitingu um of við neglur sjer, svo áríðandi sem þessi starfsemi er. Verður þó, eins og jeg þegar hefi sagt, enn meira gagn að veðurskeytunum en áður eftir að veðurathuganastöð er komin á fót á Grænlandi, ekki aðeins fyrir fiskiskip, sem hafa loftskeytatæki, heldur líka fyrir smærri skip og jafnvel báta. Jeg get sagt, að þær aðrar aths., sem jeg hefi leyft mjer að gera, sjeu fremur smávægilegar, en á þetta atriði legg jeg afarmikla áherslu.

Þá skal jeg láta í ljós það álit mitt, að jeg tel varla gerandi að lækka mikið þá styrki til skólanna, sem lengi hafa staðið, t. d. til verslunarskólanna, sem eru nú að mjög litlu leyti kostaðir af ríkissjóði. En þar sem aðrir hv. þm. hafa talað um þetta atriði, þarf jeg ekki að fara frekar út í þá sálma, en læt hjer staðar numið að sinni.