05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1170)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Svo sem hv. frsm. meiri hl. (JörB) hefir frá skýrt og fyrir liggur í þingskjölum, höfum við 2 nefndarmenn ekki getað orðið sammála meiri hl. Jeg hafði hálft í hvoru búist við, að hv. frsm. meiri hl. mundi tala af fult svo miklum móði og fram kom, en hann vildi sýnilega sitja á sjer, og er það ekki nema virðingarvert. Af hálfu minni hl. er þetta hitalaust mál, en sama verður varla sagt um hv. frsm. meiri hl.

Þegar frv. um þessa undanþágu kom fram á þingi í fyrra, var það nokkuð víðtækara en þegar það var afgreitt. Þar var farið fram á, að þessi undanþága skyldi ná til Ölfusár og þeirra straumvatna, sem í hana renna. Þingið vildi ekki sinna því, enda var þingmönnum ljóst, að 36 tíma friðun á viku er alveg nauðsynleg, og kom þinginu ekki til hugar að skerða hana. Hinsvegar komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að því er mig minnir í einu hljóði, að svo sjerstaklega stæði á um Ölfusá, að í vatnsmagni hennar og erfiðleikum að stunda veiði í ánni sje eins mikil friðun á laxinum sem 36 tíma friðun í öðrum ám. Ölfusá er að jeg ætla vatnsmesta á á landinu, og þó að jeg sje ekki verulega kunnugur staðháttum þar, eins og hv. frsm. meiri hl. hefir óspart látið mig heyra í viðræðum, eru fleiri menn kunnugir þar eystra en hann. Hv. meðnefndarmaður okkar, 1. þm. Reykv. (JÞ), er þar vel kunnugur, og þá hygg jeg, að menn verði að telja, að þeir 4 hv. þm., sem voru fulltrúar Árnes- og Rangárvallasýslna í fyrra, hafi verið eitthvað kunnugir staðháttum nálægt Ölfusá. En þeir lögðu allir fast með undanþágunni.

Það var einungis einn hv. þm., sem lagðist gegn frv. í fyrra, en þegar nefndin hafði dregið úr undanþágunni og lýst yfir, að þetta bæri ekki að skoða sem fordæmi fyrir undanþágur annarsstaðar, hygg jeg, að hugum manna hafi orðið rórra, enda var frv. afgreitt frá báðum deildum með miklu atkvæðamagni. Sennilega hafa flestir þá búist við, að málinu væri ráðið til lykta fyrst um sinn, og ekki látið sjer koma til hugar, að það mundi tekið upp á ný þegar á næsta þingi og farið fram á, að undanþágan væri aftur numin úr lögum. Jeg vona, að hv. þm. geti verið mjer samdóma um það, að þetta sje ekki gerandi, nema leiddar sjeu að því, ekki einhverjar ástæður, heldur skýrar og ótvíræðar ástæður. Þó að einhver rökfimur maður geti ef til vill fundið eitthvað að nýsettum lögum, er það ekki næg ástæða til að hlaupa til og breyta þeim eða afnema; því að tíðar lagabreytingar skapa rjettaróvissu. Þær ástæður, sem hv. flm. og frsm. meiri hl. hefir borið fram í greinargerð fyrir frv., nál. meiri hl. og framsöguræðum sínum, lágu jafnt fyrir í fyrra. Jeg álít það tímatöf eina að fara að deila við hann um ástæður Alþingis í fyrra til að veita þessa undanþágu. Það um það. Þá voru rök færð fram með og móti frv., og fjelst Alþingi á, að rjett væri að gera það frv. að lögum.

Þeir, sem því halda fram, að hjer hafi verið framið stórkostlegt skaðræðisverk, hljóta að leggja mikið upp úr því gagni, sem verður af þessari 36 tíma friðun, sem netin eiga að liggja á landi. Jeg segi eiga, því að jeg skal ekki segja neitt um það, hve vel menn hlýða þessu fyrirmæli. Það er eins og mönnum þyki þessir 36 tímar svo miklu merkilegri en hinir 132 tímar vikunnar. Þeir, sem nokkuð þekkja til þess, hve mikið vantar á, að Ölfusá sje þvergirt, geta gert sjer í hugarlund, hve miklu þessir 36 tímar ráða þar um göngu laxins.

Nú er það auðvitað mál, að net eru helst lögð þar, sem grynningar eru. Jeg skal játa, að jeg hefi ekki rannsakað það mál, hvort lax gangi fremur um grynningar eða í dýpi. En hitt er augljóst, að höfundar laxafriðunarlaganna 1886 hafa ætlað, að laxinn gengi fult svo mikið upp eftir hinum dýpri hluta árinnar, því þar er leyft að leggja net út í miðja ána því aðeins, að hinn helmingur árinnar sje ekki grynnri. — Nú er eins og sumir hv. þm. álíti, að allur lax, sem komist upp eftir ánni framhjá veiðivjelunum, hljóti að fara það á þeim 36 klukkustundum í viku, sem hann er friðaður, því annars hefði engin skepna átt að fást fyrir ofan þær. — Að bera okkur í þessu efni saman við önnur lönd og þjóðir er að mestu leyti villandi, því að það er alkunnugt, að því fjölbygðari, sem löndin eru, því nær ganga menn náttúrugæðum landanna og því meiri þörf verður á ströngum verndunarákvæðum. Þar hafa menn og að jafnaði tök á því að kosta meiru til veiðanna, og geta því gengið nær, ef ekki er lögverndað.

Þá er í nál. meiri hlutans minst á einhvern undirbúning undir stórfeldar veiðivjelar við ósa Ölfusár, sem eyðileggi alveg laxveiðina ofar í ánni, ef undanþágan verði ekki numin úr gildi. Þessu viðvíkjandi má geta þess, að lögin frá 1886 innihalda ákvæði um það, hvernig þær veiðivjelar megi vera, og takmarka líka, hvað mikið af vatni megi girða fyrir. Þetta ætti þá líka eins að snerta þá, sem búa neðan til við Ölfusá og nú vilja njóta undanþágunnar, eins og þá laxveiðieigendur, sem ofar búa, og myndu þeir því eins hafa borið sig upp undan þessu, ef þeir teldu hættuna mikla. — Svo virðist líka, eftir því að dæma, hvernig veiðitíminn er ákveðinn, sem uppsveitamenn hafi borið hina, sem neðar búa, ofurliði. Því veiðitíminn byrjar þar mjög seint — c. hálfum mánuði síðar en í Elliðaánum — og skilst mjer, að það sje með hagsmuni þeirra fyrir augum, sem ofar búa. — Enn má og taka það fram, að álitið er, að laxinn gangi mjög hratt neðan til, sumpart af hræðslu við sel, og þar sem líka er mjög erfitt að veiða í ánni neðan til sökum straumhörku og vatnsmegnis, þá mætti ætla, að það væri ekki óeðlilegt, þótt þeim, sem þar búa, væri veitt þessi lítilfjörlega ívilnun.

Eina gilda ástæðan fyrir því að nema undanþáguna úr gildi, væri sú, ef sýnt væri fram á, að kipt hefði mjög við hana úr laxveiði ofan til í ánni. En um það atriði verður ennþá ekkert sannað. Jeg hefi reynt að afla mjer upplýsinga því viðvíkjandi hjá kunnugum mönnum, og má um þær skýrslur segja: klipt var það, skorið var það. Sumir segja þetta og aðrir hitt. Hið eina skynsamlega verður því þá að þræða bil beggja og segja, að þetta hafi engin áhrif haft, og þá hverfur sú ástæðan, að menn fyrir þessar sakir gefist upp við laxaklak. Veit jeg það og líka, að þeir, sem neðar búa við ána, eru fúsir að styðja þá viðleitni með fjárframlögum.

Þá kem jeg að brtt. hv. 1. þm. Árn. (MT). Mjer þótti það kynlegt, að hv. 2. þm. Árn. (JörB) taldi þær fara í sömu átt sem sitt frv., nefnilega meiri friðun á laxi. Jeg álít brtt. koma út aðeins sem lenging veiðitímans.

Það er vitnað mikið í ákvörðun sýslunefndar Árnessýslu í þessu máli og henni hrósað fyrir þann áhuga á friðun laxins, sem í henni komi fram. En þess er þá einnig rjett að geta, að sami fundur óskaði eftir því, að veiðitíminn yrði lengdur um einn mánuð. Það skilst mjer, að fari í öfuga átt við meiri friðun á veiðinni, en til þessa virðist mjer einmitt brtt. hv. 1. þm. Árn. stefna, sem sje að gefa mönnum kost á að vera 1 mánuði lengur að eyða laxinum.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta að sinni, en vænti þess, að hv. deild meti þessar ástæður á móti frv. og að henni sje það ljóst, hversu óheppilegt það er að hringla með löggjöf, sem þingið er nýbúið að setja, þegar ekki eru því ríkari ástæður fyrir hendi til að gera það.