05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

33. mál, friðun á laxi

Þórarinn Jónsson:

Jeg skal lofa því að lengja ekki umræðurnar mikið frá því, sem orðið er, en jeg fylgdist nokkuð með í þessu máli á síðasta þingi, og vil því gera stutta grein fyrir því, hvernig það var borið fram þá. — Þá var það flutt á þeim grundvelli, að það væri eindregin ósk allra hlutaðeigenda, að undanþágan frá friðunarlögunum yrði veitt. Að þessar óskir væru aðalástæðan fyrir því, að frv. var þá komið fram, gat engum blandast hugur um, og munu hv. þm. hafa talið þá ástæðu svo mikils virði, að sjálfsagt væri, að undanþágan yrði veitt. En mjer var það þá þegar ljóst, að með henni væri í raun og veru verið að kippa fótunum undan einhverju mikilvægasta atriði í laxafriðunarlögum vorum, og jeg taldi það alveg fyrirsjáanlegt, að með þessu fordæmi væri opnuð leiðin fyrir fleiri samskonar undanþágur fyrir veiðieigendur frá öðrum ám, sem þingið myndi eiga erfitt með að neita um. Jeg skal nú ekki fara út í allar þær röksemdir, sem bornar voru fram í málinu, en jeg man, að ein höfuðástæðan fyrir rjettmæti undanþágunnar var talin sú, að annarsstaðar væri ekki hægt að veiða lax í Ölfusá en neðan Selfoss. Yfirleitt virtist hver heimskan reka aðra og hver röksemdin ganga af annari dauðri. Nú aftur á móti er frv. borið fram vegna þess, að sýslunefnd Árnessýslu hefir óskað, að undanþágan yrði numin úr gildi, og að mikið sje nú gert til þess að koma á klaki, en það verði þýðingarlaust, ef undanþágan verði látin vera við lýði. Þar á ofan er svo undirbúningur væntanlegur undir stórfeldar veiðivjelar við ósa Ölfusár, sem gæti orðið mjög hættulegar veiðinni ofar með ánni. Alt þetta fer í bága við það, sem talið var fram á þinginu í fyrra.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) talaði um þær takmarkanir, sem lögin frá 1886 settu fyrir því, hverjar veiðivjelar menn mættu nota og hvað mikinn hluta árinnar mætti girða. Þar er ákveðið, að leggja megi net með 30 faðma millibili frá báðum löndum. En hvers vegna ekki að víkja líka frá þessu atriði! Laxafriðunarlögin skipa fyrir 36 klst. friðun á laxi hverja viku, og með undanþágu frá því atriði er allur kjarni laganna drepinn.

Að það sje af ókunnugleika sprottið, ef menn viðurkenni ekki þörfina á undanþágu fyrir Ölfusá, fæ jeg ekki skilið, þó háttv. 4. þm. Reykv. teldi svo vera. Jeg hefi sjálfur sjeð Ölfusá og þykist þess fullviss, að innanhandar sje að koma þar við lögnum og framfylgja í öllum greinum friðunarlögunum frá 1886.

Háttv. 4. þm. Reykv. þóttist ekki geta skilið, hvernig undanþágan gæti orðið skoðuð sem fordæmi. En það er alveg óhugsandi, að hún verði skoðuð annað. Og sannfærður er jeg um það, að hún felur í sjer mestu hættuna fyrir laxafriðunarlögin, sem þingið gat gert sig sekt í. Það eru einmitt svona undanþágur, sem leysa lögin upp. Og á þeim sama tíma, sem aðrar þjóðir leggja sem mesta rækt við að auka og halda við hlunnindum lands síns, ættum vjer líka að sýna samskonar gætni og forsjálni, eftir því sem oss er unt. Með það fyrir augum vænti jeg, að háttv. deild skoði ekki hug sinn um að fella úr gildi þessa undanþágu, sem illu heilli er orðin að lögum, og gangi eins kappsamlega fram í því eins og hún áður var fljót á sjer að samþykkja hana.