05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Það voru nokkur orð í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), sem voru þannig vaxin, að þeim má ekki vera ómótmælt. Hann hóf mál sitt á því, að þakkarvert væri, að jeg hefði ekki verið frekari í orðum við umræður þessa máls en raun hefði á orðið, eftir þeim viðræðum að dæma, sem jeg hefði átt við hann. Mjer koma orð þessi kynlega fyrir, þar sem mig rekur ekki minni til að hafa átt tal um þetta mál við hann persónulega, nema lítillega í morgun, og veit jeg ekki, hvað í þeim orðum, sem þá fjellu millum okkar, gat gefið honum ástæðu til þessara ummæla. Annað samtal viðvíkjandi þessu máli hefi jeg ekki átt við hann, nema á nefndarfundi, og þá algerlega þykkjulaust. Hitt má hann vita, að jeg læt mjer ekki á sama standa, hvort hið háa Alþingi afgreiðir frá sjer lög, sem til skemda horfa, þó honum kunni að liggja það í ljettu rúmi. En það hefir ekki verið háttur þm. hingað til að draga inn í umræður á þingfundum orð, sem fallið hafa í persónulegum viðræðum. Hefir slíkt löngum þótt lítill drengskapur. Segi jeg þetta ekki vegna þess, að jeg biðji mjer nokkurrar vægðar frá hans hálfu. Hann má gjarnan, ef hann vill, segja frá öllu, er okkur hefir farið á milli, aðeins ef hann hermir það rjett eftir, bæði í þessu máli og öðrum. En jeg mun eftirleiðis, þegar jeg á tal við þennan háttv. þm., hafa í huga, hvern jeg á tal við.

Þá vildi jeg víkja nokkrum orðum að fáeinum atriðum í röksemdafærslu þessa háttfrv. þm., þótt fyrir ýmsar sakir væri erfitt að komast til botns í henni. Háttv. þm. viðurkendi, að hann vantaði mjög allar upplýsingar viðvíkjandi veiði í ánni og áhrif undanþágunnar. Hinsvegar gat hann þess, að hann hefði átt tal um málið við kunnuga menn, og hefðu skoðanir þeirra verið ýmist með undanþágunni eða móti. Jeg hefði nú búist við því, að hv. þm. væri svo skyni borinn, að hann kynni að meta nokkuð ástæður fyrir framburði manna með og móti í þessu máli. Jeg bjóst satt að segja við, að álit sýslunefndar hefði getað gefið honum nokkra vísbendingu um það, hvern hug menn alment bæru í þessu máli í Árnessýslu, og er þá fljótsjeð, að skoðun sýslunefndar er sú, að þessi undanþága skuli úr gildi numin.

Hvað því viðvíkur, að sýslunefndin hafi með fárra atkvæða mun lýst yfir vanþóknun sinni á undanþágunni, þá er þetta ekki rjett. Jeg hygg, að skoðun allra sýslunefndarmannanna hafi verið í þá átt, að nema bæri úr lögum undanþáguna. Jeg get hugsað mjer, að aðeins einn sýslunefndarmaðurinn, sem sjerstakra hagsmuna hefir að gæta, hefði greitt atkvæði með henni, ef til þess hefði komið, og efast jeg þó um, að hann hefði gert það. En atkvæðagreiðslan fór ekki fram um þetta atriði, heldur um það, hvort ekki væri rjett að lengja friðunartímann upp í 48 stundir á viku, úr 36 stundum, sem lögin frá 1886 ákveða, og var ekki nema eðlilegt, að menn gæti greint á um það.

Þá mintist háttv. 4. þm. Reykv. á það, að áin væri svo vatnsmikil, að laxinn hefði mjög frjálsa göngu þrátt fyrir netalagnirnar. En nú er það svo, að þegar netin liggja í ánni á löngum kafla með stuttu millibili, þá getur laxinn ekki gengið eftir henni. Hann syndir aldrei til lengdar í aðalstraumnum, heldur í hlje, en þar eru einmitt netin beggja megin með löndum. Í göngu skýtur laxinn sjer ætíð yfir aðalstrauminn, en syndir ekki eftir honum.

Þá sagði háttv. þm. enn, að 36 klst. friðun á viku ætti því aðeins rjett á sjer, að sýnt væri, að allur lax, sem upp eftir ánni kæmist, gengi á þeim tíma. Þetta er nú að vísu einkennilegt, að heimta þessa sönnun. En nú er það fyrir löngu upplýst, að án þessarar friðunar kemst hann ekki á klakstöðvarnar, og því er það, á þó friðunartíminn sje ekki lengri, þá hjálpar hann til að viðhalda laxveiðinni í þeim ám, sem hún annars yrði upprætt í á skömmum tíma. — Tilhæfulaust er það líka, sem háttv. þm. sagði, að tilhögun veiðitímans væri vottur þess, að uppsveitirnar hefðu borið ofurliði þá, sem neðar byggju við ána. Það var fullkomið samkomulag um þennan veiðitíma, sem hafður hefir verið. Veiðitímanum var einu sinni breytt, — máske oftar; jeg þekki það satt að segja ekki. — Hann var færður fram um ½ mánuð, og þá hætti veiðin auðvitað ½ mánuði fyr. En sú breyting reyndist ekki til bóta, svo því var hætt aftur.

Enn má geta þess, að síðastliðið ár var óvenjulega mikið veiðiár og laxaganga óvenjulega mikil. En þó var það svo, að fyrir ofan Ölfusá var sáralítil veiði, og kvað meira að segja svo ramt að, að þeir, sem bygt höfðu klakhús, fengu ekki nægileg hrogn til klaksins. Hefi jeg í vörslum mínum brjef frá mönnum, sem urðu að hætta við klakið, sökum þess, hve veiðin var lítil.

Fullljóst er mjer það líka, eins og háttv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) tók einnig fram í sinni ræðu, að verði þessari undanþágu ekki hrundið strax, þá muni fleiri koma á eftir, því það eru fleiri ár hjer á landi, sem eru mjög vatnsmiklar, en Ölfusá, t. d. Þjórsá og Hvítá í Borgarfirði, sem báðar eru mjög vatnsmiklar. Gæti þá svo farið, að mönnum yrði betur ljóst, hvers vjer höfum mist í við það að kippa fótunum undan laxfriðunarlöggjöf vorri.

Jeg get verið samdóma háttv. 4. þm. Reykv. í því, að samanburður á veiðiám vorum og Norðmanna sje ekki rjettur. En það er á alt annan veg en hv. þm. vildi vera láta. Jeg er nefnilega sannfærður um það, að okkur sje enn meiri þörf á ströngum ákvæðum um friðun á laxinum heldur en Norðmönnum, sem þó hafa haft friðunartímann hjá sjer 72 stundir á viku. Vegalengdin frá sjó til klakstöðva í veiðiám hjer á landi er miklu meiri en í Noregi. Fyrir því þurfum við lengri friðunar tíma.