05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

33. mál, friðun á laxi

Magnús Torfason:

Jeg stend aðallega upp vegna brtt. þeirra á þskj. 64, sem jeg hefi leyft mjer að bera fram. Jeg get verið fáorður um þessar brtt. Það eru aðallega tvær ástæður til þess, að jeg hefi borið þær fram. Jeg hjelt, að háttv. Alþingi mundi vera ljúfara að nema úr gildi lögin frá 1923 á þennan hátt, og í öðru lagi er nú vaknaður talsvert almennur áhugi á því að auka laxgönguna í Ölfusá, með því að koma upp laxaklaki, og eins með því að drepa selinn, sem liggur í árósnum. Til þess að þetta fái framgang, þá er það nauðsynlegt, að það verði gerðar hjeraðssamþyktir um málið. En nú hafa þessi lög kveikt mikinn ófriðareld milli laxveiðieigenda, og tel jeg vonlaust um, að hægt verði að koma á slíkum samþyktum meðan lögin standa óbreytt. Jeg hygg því, að brtt. mín muni verða, ef svo mætti segja, sáttagrundvöllur til þess að koma á samvinnu um það að auka laxveiðina, og geti þannig orðið öllum hlutaðeigendum til hagsmuna, En þar sem háttv. frsm. meiri hl. (JörB) og ekki síður háttv. frsm. minni hl. (MJ) hafa lagst á móti till. minni, þá sje jeg ekki, að það hafi neina þýðingu að halda henni fram. Og þar sem jeg nenni ekki að láta drepa hana, þá tek jeg hana hjer með aftur. Jeg geri það líka því fremur, sem jeg verð að líta svo á, að hv. flm. þykist eiga víst, að frv. nái fram að ganga.