05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1737 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

33. mál, friðun á laxi

Jakob Möller:

Jeg get tekið undir með hv. frsm. minni hluta allshn., að í meðferð málsins hjer hafi furðu lítið komið fram af upplýsingum, sem nokkuð sje byggjandi á. Frumvarpið um undanþágu frá laxafriðunarlögunum, sem samþykt var hjer á síðasta þingi, var borið fram af þm. Árnesinga og með fullu samþykki allra þingmanna fyrir austan fjall, og mátti því fullkomlega ætla, að þeir legðu þetta til samkvæmt almennum vilja. Nú hefir sýslunefnd Árnessýslu samþykt með einhverjum meiri hluta tillögu um, að lögin verði numin úr gildi. Það er ekki ofmælt, að þetta sje undarlegt. Hjer eru tvær staðreyndir, sem upphefja hvor aðra. Á þessu stigi málsins getur ekki komið til greina að fella nú það, sem í fyrra var borið fram til þess að verða við ósk hjeraðsbúa. Það hefir verið talað um, að laxveiðin hafi verið lítil í ánum efra, en mikil neðan til. Það sannar lítið. Hafi sunnudagafriðunin undanfarið verið dauður bókstafur og haldin illa, þá getur þetta ekki stafað af lögunum, heldur einhverjum öðrum ástæðum. Annars getur það vel verið rjett, og má vel segja, eins og hv. 2. þm. Reykv., að það sje „dálítið“ sennilegt, að það stafi af þessari friðun, að menn ofan til við árnar hafa veitt meira fyrri part viku. En hjer er þá farið fram á það við hið háa Alþingi, að það felli úr gildi samþykt frá síðasta þingi, af því það sje „dálítið“ sennilegt, að það hafi þá bygt á röngum forsendum. Jeg fyrir mitt leyti vil vita meira, áður en jeg breyti atkvæði mínu í þessu máli, en það, að einhverjum finnist „dálítið“ sennilegt, að forsendur, sem bygt var á, hafi verið rangar. Jeg vil því leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta svo felda rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að stjórnin láti hafa vakandi auga á því, hverju fram fer um laxveiði í Ölfusá á næsta sumri og áhrif undanþágunnar frá síðasta þingi á laxgönguna i ánni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Með þessu segi jeg fyrir mitt leyti, sem ófróður um laxveiði, að jeg treystist ekki til þess að skera úr, hvort heppilegt sje að halda undanþágunni, en vil fá frekari og ábyggilegri upplýsingar áður en jeg greiði atkvæði með því að fella hana úr gildi.