05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1740 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

33. mál, friðun á laxi

Jón Kjartansson:

Jeg skal strax taka það fram, að það er ekki vegna þessara skiftu skoðana manna í Árnessýslu um þetta mál, að jeg hefi hallast að tillögum meiri hl. allshn. Jeg lagði ekki mikið upp úr þeim skoðunum. Þar er þetta mál vitanlega orðið allheitt pólitískt mál. Það, sem fyrir mjer vakti, var það, að mjer fanst mjög óheppilegt, þar sem til eru ein heildarlög, að vera að klípa út úr þeim undanþágu fyrir eina sjerstaka á. Það er svo sem sjálfsagt, að þá koma fleiri á eftir, og gengur svo koll af kolli. Þetta verður að teljast sjerstaklega óheppilegt nú á þessum tímum, þegar þó er verið að leitast við að friða laxinn og hlúa að honum, og einkum er það óheppilegt fyrir laxaklakið. Þetta er aðalástæðan til þess að jeg tel rjett að fella lögin úr gildi. Annars þykir mjer það ekki eiga við, að verið sje að bregða okkur, sem erum nýir þingmenn, um hringl í löggjöfinni. Ef hjer er um hringl að ræða, þá á þingið í fyrra sök á því. Og geri þingið nú hreint fyrir sínum dyrum, þá er hjer sannarlega ekki gefið undir fótinn með slíkt hringl. Þvert á móti. Jeg vildi aðeins taka þetta fram sem mína afstöðu til þessa máls.