05.03.1924
Neðri deild: 15. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1180)

33. mál, friðun á laxi

Frsm. meiri hl. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get verið þakklátur hv. síðasta ræðumanni fyrir það, er hann sagði, að hann skoðaði þessa undanþágu sem tilraun og fyrirboða þess, sem ætti að koma annarsstaðar frá. Það var einmitt þetta, sem jeg hefi haldið fram, en minni hluti allshn. hefir andmælt, með skírskotun til ummæli hv. fyrv. 2. þm. Rang. (GGuðf) á þinginu í fyrra, að undanþáguna bæri ekki að skoða sem fordæmi. Þótt einhver einstakur þm. hafi látið þannig um mælt, er það ekki mikils virði. Meiri hluti þingsins í hvert sinn ræður ávalt. Þetta, sem jeg hefi ávalt óttast, — að undanþágan yrði notuð sem fordæmi — er nú komið fram hjer í þingsalnum. Hv. þm. Mýra. (PÞ), sem samþykti undanþáguna í fyrra, lýsir því yfir í dag, að hann búist við því, að fordæmið verði notað. Þetta er þá sannað, og tel jeg það alls ekki lítilsvirði. Hv. þm. segir, að hann hafi viljað gera tilraun með að sjá, hvernig þetta gæfist. Og þessari tilraun vill hann halda áfram í 3–5 ár, þrátt fyrir þó áskorun frá hjeraðsbúum sje komin um að fella þessa undanþágu úr gildi nú þegar. Þessi undanþága er til þess að gereyðileggja veiðina í ánni og rothögg á þá viðleitni manna, að auka laxinn í ánum eystra með laxaklaki.

Jeg mótmæli algerlega ástæðum þeim, sem hv. 3. þm. Reykv. (JakM) ber fram fyrir till. sinni til rökstuddrar dagskrár, að breytingin á laxveiðilögunum — undanþágan fyrir Ölfusá — sje fram komin fyrir almenna ósk hjeraðsbúa, og þótt jeg hafi ekki ennþá skrifleg gögn í höndum um það efni, til að sanna mál mitt, þá munu þau koma fram síðar, ef á því þarf að halda, og mun þá sjást, hvor sannara segir. Frv. til breytinga á laxveiðilögunum — undanþágan — var flutt og borið fram samkvæmt ósk örfárra manna — helstu veiðieigendanna — neðan til eða neðst við ána. Fer jeg svo ekki frekar út í þetta, en vænti, að dagskrárnar verði feldar.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) drap á meðferð þessa máls í þinginu í fyrra, að nefndunum hafi þá komið saman um, að undanþágan tæki aðeins til Ölfusár sjálfrar. En þetta er þýðingarlaust; úr því að undanþágan var á annað borð veitt fyrir ána neðan til, var það sama, hvort hún næði til allra efri ánna eða ekki. Hvað hefir það annars að þýða, þó að menn megi veiða ofar við ána, ef allur laxinn er tekinn neðst í ánni? Hann segir, að ekkert sje upplýst um veiðinot manna fyr og nú, hvaða áhrif veiðinotin hafa haft á laxveiðina í ánum hjer á landi. Hví láta menn nú svo? Þekkja menn ekkert til þessara hlunninda landsins, hvernig þau voru og hvernig þau hafa víða verið rúin og eyðilögð? Þá sagði sami hv. þm., að ekkert hefði borist til þingsins í fyrra, sem bent hefði á það, að þetta gæti orðið að deiluefni. Það er satt. Menn eystra vissu ekkert um þetta fyr en það var orðið að lögum. Ef menn hefðu alment vitað um það, hefðu svo að segja allir risið upp á móti þessu máli. Þegar er menn vissu um þetta verk þingsins, varð þessi undanþága óþokkuð, og nú við fyrsta tækifæri er farið fram á að afnema þessi lög, og er það gert að vilja alls þorra hjeraðsbúa. Þá mintist hv. þm. á selinn, og er það satt, að of lítið hefir verið gert til þess að útrýma honum; um það er jeg sammála hv. 4. þm. Reykv. En þó er það til lítilla bóta, ef það á að viðgangast, að þær fáu bröndur, sem sleppa framhjá selakjöftunum, verða gripnar rjett ofan við ósa árinnar og fá ekki að fara lengra. Nú hefir sýslunefndin samþykt með öllum atkvæðum gegn einu að útrýma selnum úr ánni. Það er að vísu satt, að æskt hefir verið eftir opinberum styrk til þessa, en þetta sýnir þó vilja manna þar í þessu efni, en fjárstyrkur til þess er auðvitað aukaatriði. Jeg geri sem sje ráð fyrir því, að þetta verði gert hvort sem menn fá styrk af opinberu fje eða ekki. Það er rjett í þessu sambandi að geta þess, að þetta eina atkvæði, sem var á móti útrýmingu selsins, var atkvæði þess manns, sem sellátrin átti í ánni. Sýnir þetta ljóslega, hversu sumum mönnum er gjarnt að bíta nærri sjer, þegar um hagsmunamál er að ræða. Jeg held, að hv. deildarmenn þurfi ekki að vera í vafa um það, hvað heilbrigt sje og sanngjarnt í þessu máli. En þegar frv. kemur til atkvgr., óska jeg, að fari fram nafnakall um það.