25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

33. mál, friðun á laxi

Sigurður Eggerz:

Jeg skal játa, að jeg er enginn „fag“maður í því máli, sem hjer er til umræðu.

Því hefir verið haldið fram, bæði af hv. 5. landsk. og öðrum, að lax geti gengið upp í Ölfusá þrátt fyrir þau ákvæði, sem samþykt voru hjer á þinginu í fyrra, og það svo, að síðastliðið sumar hafi jafnvel veiðst betur á næstu bæjum fyrir ofan brú en oft áður.

Um þetta skal jeg ekki dæma.

Aðalatriðið í máli þessu sýnist mjer vera það, að þar sem síðasta Alþingi setur lög í þessu efni, þá sje mjög athugavert, að nú sjeu samþykt lög, sem ganga í þveröfuga átt. Hæstv. forsrh. (JM) sagði reyndar, að sýslunefnd Árnesinga hafi tekið greinilega afstöðu til þessa máls. En það er ekki nóg — og það því síður, sem vitanlegt er, að það hefir hlaupið pólitík í laxinn þar austur frá, og hafði borið mjög á því við kosningarnar í haust.

Jeg vil nú samt vona, að hjer eftir verði ekki pólitískt bragð að laxinum, því að mjer þykir hann svo góður eins og hann hefir verið til þessa.

Þegar allur þorri þeirra manna, sem búa fyrir neðan brú, er fylgjandi þeim ákvörðunum, sem þingið í fyrra tók í þessu efni, en hinir, sem eru búsettir þar fyrir ofan, eru aftur á móti andstæðir þeim, þá er hið einasta, sem nokkurt vit er í fyrir þetta þing að gera, að fela hæstv. stjórn að láta rannsaka málið til hlítar, áður en þingið hverfur aftur frá því, sem það gerði í fyrra. Hæstv. forsrh. var líka í vafa um það, hvort rjett væri, eða nokkur ástæða til, að samþykkja nú þetta frv. Og þegar svo er ástatt um hann, sem þó hefir fengið tækifæri til þess að setja sig vel inn í málið, þá má nærri geta, að erfitt muni vera fyrir okkur hina að greiða atkvæði um málið. Það er því einasta sæmilega lausnin á þessu máli, að vísa því til stjórnarinnar. Ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að fella undanþáguna úr gildi, þá verður öðru máli að gegna og þá verður hægara að greiða því atkvæði á næsta þingi. En mjer er mjög illa við þetta sífelda hringl í löggjöfinni, að lítt rannsökuðu máli.