25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1771 í B-deild Alþingistíðinda. (1203)

33. mál, friðun á laxi

Sigurður Jónsson:

Í tilefni af því, að Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu var blandað í umr., vil jeg segja nokkur orð, af því að jeg hygg, að jeg sje því máli kunnugri en flestir aðrir þingmenn, og hefi einmitt fengist talsvert við það. Háttv. frsm. meiri hl. (EP) sagði, að ef Laxá væri þvergirt, þá myndi slíkt vera ólöglegt. Jeg get upplýst það, að sú veiðiaðferð, sem notuð er þar, t. d. á Laxamýri, er í fylsta máta lögum samkvæm, enda má geta nærri, að bændur, sem búa ofar við ána, ljetu ekki ólöglega veiði þar óátalda.

Jeg vildi ekki láta fólk skilja við lestur þingtíðindanna, að þessi veiðiaðferð í Laxá væri álitin ólögmæt. Nei, hún er fyllilega lögleg; en hitt kann að vera annað mál, hvort hún sje að sama skapi heppileg.