25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

33. mál, friðun á laxi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg hefi kynt mjer lög nr. 7, 6. júní 1923. Jeg hefi komist að þeirri niðurstöðu, að það sje rjett, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir skýrt frá, að eins og málið lá þá fyrir, þá var engin ástæða til að neita því, að það fengi fram að ganga. Frv. var þá flutt af báðum þm. Árn., en var ekki borið undir hlutaðeigandi sýslunefndir. Þinginu var þá talin trú um, að ekki væri um neina mótspyrnu hjeraðsbúa að ræða. Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) talaði þá á móti málinu í Nd., en brast nægilega þekkingu á staðháttum. Nú hefir það komið í ljós, að þinginu hafi ekki verið skýrt rjett frá í þessu efni, þar sem það er sannað, að sýslunefndin er á móti þessu. Lögin frá því í fyrra komu því yfir ýmsa hlutaðeigendur eins og þjófur á nóttu, og er það skylda þingsins að bæta úr því, sem þá var sett í trausti til þess, að þm. Árn. skýrðu rjett og hlutdrægnislaust frá öllum málavöxtum, og nema lögin úr gildi. Jeg legg því eindregið til, að málið nái fram að ganga.