03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Þetta litla frv. er eiginlega þess eðlis, að mig furðar á því, að allshn. skulu ekki hafa getað orðið sammála um að mæla með því. Það er í svo miklu samræmi við þá braut, sem löggjafarvaldið hefir gengið inn á um löggjöf kaupstaðanna, að það væri á móti þeirri reglu að synja frv. samþykkis. Það eru allmörg ár síðan þau lög voru samþykt, að til bæjarstjórnar skuli kosið með hlutfallskosningum, til þess að tryggja minni hlutanum þann rjett til þátttöku í bæjarmálum, sem hann væri annars sviftur. Þetta er komið á í flestöllum menningarlöndum, og hefir verið tekið eftir þeim, af því að það hefir komið að góðum notum, og hefði að öðrum kosti mikið misrjetti átt sjer stað í meðferð bæjarmála. Því fer fjarri, að þetta geti aukið stjettaríg; það er miklu fremur til þess að draga úr honum, þar sem flokkunum er veitt hluttaka í stjórn bæjanna eftir atkvæðamagni. Hjer á landi hafa verið hafðar hlutfallskosningar í ekki allfáum kaupstöðum við nefndakosningar innan bæjarstjórna. Svo hygg jeg, að sje í Vestmannaeyjum, og á síðasta þingi var samþykt að hafa hlutfallskosningar í bæjarstjóra Reykjavíkur. Þetta samþykti Alþingi þá, þó að meiri hluti bæjarstjórnar legði fast á móti því. Þingið var svo sanngjarnt, að láta ekki meiri hluta bæjarstjórnar ráða í þessu efni, til þess að hindra sanngjarna þátttöku minni hlutans, enda er meiri hlutinn ekki bær um að dæma í þessu. Því ætti þingið ekki a taka tillit til þess, að meiri hluti bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði hefir lagst á móti þessu frv., enda er ekki um mikinn meiri hluta að ræða. Í bæjarstjórn Hafnarfjarðar eru 9 fulltrúar, og tjáðu 4 sig fylgjandi þessu frv., en 4 voru á móti því, og ef til vill sá, sem fjarstaddur var. Þetta kemur fram í útskrift þeirri úr fundargerð bæjarstjórnarinnar, sem prentuð er á þskj. 243. Jeg tel þetta álit bæjarstjórnarinnar einmitt sem bein meðmæli með frv.

Jeg vil skjóta því til hv. frsm. meiri hl. (BSt), að nú mætti hugsa sjer, að ekki væru hafðar hlutfallskosningar til nefnda á Alþingi. Við skulum hugsa okkur, að hann væri í nokkuð stórum flokki, eins og hann er, sem þó hefði ekki meiri hluta í deildinni, eins og flokkur háttv. þm. hefir heldur ekki. Þá mætti hugsa sjer, að meiri hlutinn gæti bægt öllum minnihlutamönnum frá nefndastörfum, eða þá skipað þeim í nefndir á þann hátt, að þeir yrðu að miklu minna liði í þingstörfum en ella mundi, með því að varna þeim að fjalla um þau mál, sem þeir hefðu mest vit á. Nú mætti t. d. hugsa sjer, að hv. frsm. meiri hl. og hv. 1. þm. G.-K. væru báðir í þessum minni hl., og gæti meiri hlutinn þá misbeitt valdi sínu og kosið hv. 1. þm. G.-K. í landbn., en hv. frsm. meiri hl. í sjútvn. Þeir væru þá báðir settir á skakka hillu og nytu sín miklu síður heldur en ef þeir mættu segja sjálfir til, hvar þeir vildu helst vinna, Jeg veit nú, að báðir þessir hv. þm, eru svo miklir dómgreindarmenn, að þeir mundu gera mikið gagn í nefndum, þó að þeim væri skipað svo í þær, sem jeg hefi sagt. Þó að hv. frsm. meiri hl. hafi lýst því einhverntíma í þingbyrjun, að hann hefði ekki sjerstakan áhuga fyrir sjávarútvegi, heldur væri hann kunnugri landbúnaði, þá býst jeg við, að hann gæti alt að einu orðið góður starfsmaður í sjútvn., en þar fengi hann þó ekki að vinna að áhugamálum sínum.

Jeg hefi tekið þessi dæmi til að sýna, hve ranglátt það er að meina minni hluta að neyta sín eftir því atkvæðamagni, sem hann hefir. Jeg skal annars ekkert fara út í það, hvernig meiri hlutinn í bæjarstjóra Hafnarfjarðar hefir notað þetta vald sitt. Það er þó víst, að hann hefir ekki skipað menn í nefndir eftir því, sem minni hluti hefir viljað og átt sanngirniskröfu til.

Jeg held nú, að jeg hafi með svo góð um rökum sýnt fram á sanngirni þessa máls, að ekki sje með góðu móti hægt að spyrna gegn því. Ef það ætti að leggja meira upp úr tillögum 4 bæjarfulltrúa af níu heldur en öllum þeim sterku rökum, sem fyrir þessu máli hafa verið færð, þá þætti mjer þó skörin fara að færast upp í bekkinn. Það er hreinn misskilningur, að það mundi leiða af því flokkadrætti, ef þetta frv. yrði samþykt. Það myndi einmitt verða til þess að draga úr flokkadráttum.

Þeirri mótbáru, að það sje ekki þm. þessa kjördæmis, sem fram kom með frv., geri jeg ekki mikið úr. Það var mjög eðlilegt, að jeg flytti þetta fyrir flokksbræður mína í Hafnarfirði, enda hafði sá maður, sem mest starfar þar í flokknum, farið þess á leit við mig. Bak við hann standa kjósendur í Hafnarfirði í sömu hlutföllum sem síðustu bæjarstjórnarkosningar sýna, eða fullkominn þriðjungur kjósenda.