03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Tryggvi Þórhallsson:

Það ber heldur nýrra við, er jeg fer að tala um mál, sem eingöngu snertir kaupstaðalöggjöfina, en með því að svo lítur út, sem mál þetta verði nú þegar drepið í fæðingunni, vildi jeg þó segja nokkur orð um það áður en vígið verður unnið.

Það er ekki að furða, þótt hv. 2. þm. Reykv. standi oft einn í ýmsum málum, þar sem hann heyrir til þeim flokki, sem stendur á öndverðum meiði við það stjórnarfyrirkomulag, sem nú ríkir hjer. En þar með er það ekki sagt, að sjálfsagt sje, að þessi hv. þm. standi ávalt einn; að minsta kosti vildi jeg, að svo væri ekki í þessu máli. Því jeg lít svo á, að hjer sje ekki eingöngu um rjettlætismál að ræða, heldur og um praktiskt mál. Miðað við það stjórnarfyrirkomulag, sem við eigum nú við að búa, og þá kosningaraðferð, sem annarsstaðar er beitt, þá á minni hluti bæjarstjórnar fullan rjett á því að ráða nefndaskipuninni í hlutfalli við atkvæðamagn sitt. Er eðlilegast, að eins sje farið að hjer og við nefndaskipun á Alþingi. Þetta er sá sjálfsagði rjettur, sem minni hlutanum ber alstaðar að hafa. — En þetta er ekki eingöngu það rjettasta, heldur er það líka það praktiskasta, sem hægt er að gera í þessu máli. Það er miklu meiri trygging fyrir því, að bæjarmálunum verði vel stjórnað, ef minni hlutinn á sinn fulla þátt í þeim. Að útiloka hann frá því að skipa í nefndir er aðeins til að krefja áhuga hans og draga úr því, að hann geri sjer far um að fylgjast þar með. — Það hefir með öðrum orðum ekkert annað í för með sjer en tap á góðum starfskröftum, og ætti meiri hlutanum ekki að vera neinn fengur í því. — Það er ekki nein kúgun, sem frv. fer fram á, en það er kúgun á minni hlutanum að leyfa honum ekki hlutfallslega þátttöku í meðferð málanna. — Jeg skal taka það fram, að jeg segi þetta ekki af því, að jeg vilji með því draga taum eins flokks fram yfir annan. Í Hafnarfirði eru jafnaðarmenn í minni hluta, en þeir eru aftur í meiri hluta á Ísafirði, og jeg vil nú lýsa yfir því, að væri þetta frv. borið fram fyrir hönd minni hlutans á Ísafirði, þá myndi afstaða mín vera nákvæmlega sú sama.