03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Jakob Möller:

Jeg verð að játa það, að jeg á mjög bágt með að skilja afstöðu hv. meiri hl. nefndarinnar í þessu máli. Það má vera, að þetta mál sje fram borið á óvenjulegan hátt, þar sem það er ekki þm. kjördæmisins, sem bera það fram, og eitthvað megi finna að undirbúningi málsins af hálfu flutningsmanns. En hv. allsherjarnefnd hefir þá fullkomlega ráðið bót á þeim ágöllum, með því að leita umsagnar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Í nál. minni hl. eru birt skilríki fyrir því, að helmingur bæjarstjórnarinnar í Hafnarfirði standi bak við frv. Málið liggur því svo fyrir, að ef þingið neitar um þetta, þá er þar fyrir borð borinn rjettur helmings bæjarstjórnarinnar. Það má vera, að undir þessu fyrirkomulagi, sem nú ríkir, hafi verið skipað svo heppilega í nefndir, sem óskað verði, en það er engin trygging fengin fyrir því, að svo verði eftirleiðis. En þetta er þó ekki aðalatriðið í málinu. Aðalatriðið er það, að með því að sporna við þessu, þá er verið að kynda undir eldi ósamkomulagsins í þessum bæ, — og sá eldur logar þó, að jeg held, nógu glatt áður. En það gengur svo um ýmsa menn; það er ekki fyr tekið að hreyfa slíkum málum en þeir fara að sparka og sparka og snúast um á hæl og hnakka. Það eru þessir menn, sem vinna drýgst að því að kynda undir stjettarígspottinum. Ef við lítum aftur í tímann, þá sjáum við, að hjer í bænum hefir verið miklu betra samkomulag í bæjarmálum síðan hlutfallskosningin var upp tekin, Er þetta og eðlilegt, því að með því móti, báðir flokkar eigi sína fulltrúa í nefndunum, verður einmitt auðveldast að tryggja góða samvinnu um málin. Það er því ekki nein skynsamleg ástæða fyrir þessa menn, sem í móti standa, að berjast gegn hlutfallskosningum, því það er fjarri því, að þeir sjeu vissir um að fá altaf að vera í meiri hluta. Í Hafnarfirði hefir það meira að segja einu sinni komið fyrir, að verkamenn hafa borið hærri hlut í kosningu. Og jeg vil nú spyrja hv. 1. þm. G.-K. (ÁF): Myndi hann, ef svo færi, taka sömu afstöðu til óska minni hlutans og hann gerir nú? Ætli honum þætti þá ekki illa fara á því, að meiri hlutinn hefði allan veg og vanda í þessum efnum. (ÁF Hann bæri þá líka alla ábyrgðina). Jeg legg lítið upp úr þeirri ábyrgð, og þótt hv. 1. þm. G.-K. kunni peningalega sjeð að vera margra aura virði, þá gef jeg samt ekki tvo aura fyrir ábyrgð hans í þessu efni, Og jeg vil fullyrða það, að hann er enginn ábyrgðarmaður fyrir þeirri úlfúð og stjettaríg, sem kann að leiða af því, að þetta frv. verði felt. Að minsta kosti þykist jeg ekki vera það, og mun því hiklaust greiða atkv. með frv.