03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Hákon Kristófersson:

Jeg vildi mótmæla þeim orðum hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að þeir, sem væru mótfallnir þessu frv., vildu kynda undir stjettarígspotti. Þetta er ekki rjett. (JakM.: Það er hringlandi vitlaust hjá hv. þm.). Það er einhver hringavitleysa í höfðinu á hv. 3. þm. Reykv. Jeg er ekki svo sljór, að jeg geti ekki skilið mælt mál. Er því óþarfi fyrir hv. þm. að slá því fram, að jeg hafi farið með vitleysu í þessu efni eða aflagað ummæli hans. En eins og það liggur fyrir, þá get jeg ekki ljeð því atkvæði mitt. Mjer þykir einkennilegt, ef þetta er áhugamál manna í Hafnarfirði, að þeir skuli þá vera að seilast eftir þm. í öðru kjördæmi til þess að flytja það fyrir sig í þinginu, en ekki nota sína eigin þingmenn. Það virðist mjer benda á, að einhver undirróður utanaðkomandi áhrifa eigi sjer stað í þessu máli. Jeg vil ekki leiða þá reglu hjer inn á Alþingi, að kjósendur gangi fram hjá sínum eigin þingmanni í slíkum tilfellum. Hvað áskorunum í þessu máli viðvíkur, þá get jeg eins búist við því, að þær sjeu komnar frá mönnum í Reykjavík. Jeg get ekki sjeð, að hjer sje neinn almennur vilji á bak við. Og jeg er sammála hv. 4. þm. Reykv. ((MJ) og lít á þetta sem hreinasta smámál. Jeg geri ekki ráð fyrir því, þó ágreiningur sje um nefndir í einni bæjarstjórn, að störfin sjeu ekki unnin jafnsæmilega, hvort sem kosið er í nefndir með hlutfallskosningu eða öðru móti. Það er bara hugarburður og tæplega frambærilegt sem rök í málinu, að annað eigi sjer stað. Ekki ber á þessu á Ísafirði, og mun þó mest óeining á landi hjer í því bæjarfjelagi. (JAJ: Það er ekki rjett). Ætli það sje ekki nokkuð mikið hæft í því. Og jeg býst ekki við, að jafnkunnugur maður og hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) vilji mótmæla því í fullri alvöru, enda gæti jeg fært ýms dæmi þar um, ef þyrfti, sem hv. þm. gæti ekki hrakið.