03.04.1924
Neðri deild: 41. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1247)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Magnús Jónsson:

Jeg get naumast þakkað háttv. 3. þm. Reykv. (JakM), þó hann geti talað með stillingu um þetta mál. En um leið viðurkenni jeg þann heilaga eld, sem í honum brennur gegn öllu ranglæti. Jeg skil vel, að ofríki stælir menn til andstöðu í hverju máli. En það á ekki heima hjer. Ef minni hluta Hafnfirðinga hefði þrásinnis verið neitað um þessa rjettarbót, þá hefði mátt tala um ofríki. En að tala um ofríki í þessu sambandi, þó ekki sje orðið við óskinni í fyrsta sinn, sem hún kemur fram, flutt af óviðkomandi manni, — það get jeg ekki talið rjettmætt. Og þó allshn. sendi frv. bæjarstjórn Hafnarfjarðar til umsagnar og minni hlutinn vildi þiggja þetta, úr því verið var að bjóða það fram, þá er lítið að leggja upp úr því.

Þá mun þessi hv. þm. (JakM) hafa átt við dæmi frá þessu þingi, er hann talaði um, að starfhæfir menn hefðu verið útilokaðir frá nefndum. En það er mikil spurning, hvort það er ekki einmitt hlutfallskosningin, sem því hefir valdið. Það þykir ekki rjett eða heiðarlegt að setja menn í nefndir, sem standa utan kosningabandalaganna, og verða því utanflokksmenn útundan við nefndaskipanir, ef þeir slá sjer ekki saman við einhverja, og þetta leiðir beint af hlutfallskosningunni. Jeg efast ekkert um það, að þar sem er stór meiri hluti, þá ráðgist hann við aðra flokka um nefndaskipun, svo það getur mjög orkað tvímælis, hvort fyrirkomulagið reynist betur.

Jeg benti á, að það væri ekki neitt ofríki, þótt menn fengju ekki allar óskir uppfyltar þegar í stað. Og þó jeg greiddi þessu máli atkvæði á næsta þingi, þá er það ekki af neinum snúningi. Það er svo alveg laust við, að þetta sje mjer hitamál. En jeg vil ekki stuðla að því, að slík mál gangi fram fyrir undirróður fárra einstaklinga.