10.04.1924
Efri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

90. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Sigurður Eggerz:

Jeg vil ekki vekja langar umræður um málið. En jeg vil geta þess, að mjer finst mjög eðlilegt, að þetta frv. verði samþykt, því þar sem bæjarstjórn er kosin með hlutfallskosningu, er það sjálfu sjer samkvæmt, að nefndakosning innan bæjarstjórnar fari fram á sama hátt. Þannig er það hjer í Reykjavík.

Jeg álít ómögulegt að miða löggjöfina við það, hverjir eru í bæjarstjórn í hvert skifti, og tel þau atriði, sem fram hafa komið um ýmsa menn, sem nú eru í bæjarstjórninni í Hafnarfirði, málinu óviðkomandi. (JJ: Miða við heilsufar eins manns!). Það er eðlilegt, að minni hlutinn fái að koma mönnum í nefnd, og þó hann ráði ekki úrslitum málanna, getur hann þó haft áhrif á heppilegri úrslit þeirra, með því að beita rökum sínum. Vil jeg því eindregið ráða til, að frv. verði samþykt.