26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

1. mál, fjárlög 1925

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg geri það með góðri samvisku, þó jeg tefji nokkuð þessar umræður, þar sem jeg hefi sýnt þá stillingu að sitja þegjandi hjá umr. um 1. kafla þessa fjárlagafrv. Jeg get og tekið til máls að þessu sinni með góðri samvisku, vegna þess, að jeg á engar hækkunartillögur við fjárlögin, enda hafa kjósendur mínir ekki æskt neinna fjárútláta sín vegna, en vilja láta styðja í öllu þá viðleitni að afgreiða fjárlögin að þessu sinni með sem minstum tekjuhalla að unt er. Jeg á brtt. á þskj. 196, sem jeg vil víkja að nokkrum orðum. Háttv. deildarmönnum ætti ekki að koma á óvart, þó að þessi till. komi fram; en aðalástæðan er sú, að einn ráðunautur Búnaðarfjelags Íslands, sem styrktur hefir verið um mörg ár til þess að læra til þess starfs, hverfur nú frá því til annarlegra starfa. Jeg álít það ekki rjett, að ríkið styrki menn til sjernáms í einhverri grein, nema trygging sje áður fengin fyrir því, að viðkomandi menn starfi í þjónustu ríkisins, ef það telur sig hafa þeirra þörf. Tel jeg ekki rjett, að þeim mönnum skuli líðast að stökkva á braut úr þjónustu ríkisins, er þeim býður svo við að horfa, sem áður hafa verið styrkþegar þess. Þessi hugmynd er ekki runnin upp hjá mjer sjálfum einum saman. Í frv. um yfirsetukonur er þeim gert að skyldu að starfa í umdæmum um 5 ár, ef þær hafa styrks notið, og þó nefndin hafi fært skylduþjónustutíma þeirra niður í 3 ár, er grundvallarreglan hin sama, — að styrkur frá ríkinu í sjerstöku augnamiði verði ekki veittur nema eitthvað komi á móti. Aftur á móti dettur mjer ekki í hug að ríghalda mjer við einstök atriði, ef málinu væri þá betur borgið. T. d. ákvæðunum um 15 ára þjónustuskyldu er jeg fús að breyta í einhverju við 3. umr. og ákveða þá einhvern annan árafjölda, en jeg vil fá þetta „princip“ staðfest. Jeg held fast við það. Jeg vil slá því föstu, að ef menn þiggja styrk af ríkinu, eigi þeir að vinna í þjónustu þess meðan það telur sig hafa þeirra þörf, ella verði styrkurinn endurgreiddur.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að einni brtt. háttv. fjvn. enda þótt jeg ætli mjer alls ekki að taka fram fyrir hendur háttv. frsm., en það er um styrkinn til blaðamannafjelags Íslands. Þetta er gott og þarflegt fjelag; og þótt blaðamenn vorir eigist oft allgrátt við í blöðunum, koma þeir þó stundum saman á friðsamlega fundi og ræðast við í bróðerni; leggjast þeir þá allir á eitt og gera margt merkilegt, sem til nytsemda horfir. Má því vel heimfæra á þá það, sem sagt er í Snorra Eddu um Einherja:

Allir Einherjar

Óðins túnum í

höggvask hverjan dag;

val þeir kjósa

ok ríða vígi frá,

sitja meirr of sáttir saman.

Þessir einherjar blaðamannafjelagsins „sitja meirr of sáttir saman“ og ráða ráðum sínum til þess að ná meiri og fullkomnari erlendum frjettum inn í landið. Frjettastofan leitast við að ná tíðari og gleggri frjettum um það, sem við ber í heiminum, og sjerstaklega um alt það, er okkar þjóðfjelag varðar fremur öðru, t. d. um markaðshorfur o. s. frv. Jeg vil og bæta því við, að hjer er í rauninni ekki um nein ný útgjöld að ræða, en aðeins tilfærsla á fje. Kaupmannaráðinu hefir áður verið veittur styrkur í þessu skyni, en nú á frjettastofan að taka þetta verk að sjer og senda þessar frjettir út um alt landið. Þetta eru því engin ný fjárútlát. Enda fær ríkissjóður aftur meginið af fjenu í gjöld fyrir símskeyti. Ennfremur vil jeg taka það fram, að síðan þetta kom til, hefir frjettastofunni borist brjef frá Suenson, forstjóra Stóra norræna símafjelagsins, þar sem gerður er kostur á miklu vissari og betri erlendum frjettum en áður. Hann leyfir sem sje Melastöðinni hjer að taka við frjettum, sem sendar eru þráðlaust hvaðanæva að, sem til næst, og birtir frjettastofan hjer þær síðan í blöðunum úti um alt land. Áður þurfti sjerstakt leyfi Stóra norræna til þessa. En þær frjettir, sem þannig nást, verða bæði tíðari og miklu fullkomnari en áður hafa hingað borist; en þó getur það oltið á þessum styrk, að frjettastofan geti hagnýtt sjer þær. Treysti jeg því, að háttv. þdm. sýni þessari styrkbeiðni þá velvild að styðja hana með atkvæðum sínum. Þetta er ekkert flokksmál neins flokks hjer á þinginu, heldur sameiginlegt mál allra blaðamanna, og ætti því fremur að fá góðar undirtektir fyrir það.

Þá kem jeg að þeirri brtt. hv. fjvn. að færa niður eða fella burtu fjárveitinguna til útgáfu Alþingisbóka, Landsyfirrjettardóma og jarðabókar Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, og lækka styrkinn til útgáfu Fornbrjefasafnsins. Þetta var eitt af þeim örfáu atriðum, sem mig greindi á um við fjvn. Þetta er alt samtals svo smávægileg upphæð, að ríkissjóð munar alls ekki um hana, en fyrir útgáfu þessara rita er þetta alt öðru máli að gegna, því það getur orðið til þess að þær hætti alveg, ef styrkurinn fæst ekki. Jeg vil minna á það, að útgáfa Fornbrjefasafnsins og annara slíkra rita er arfur frá Jóni Sigurðssyni, er fyrstur tókst þessa útgáfu á hendur. Mjer þætti því mjög ilt, ef þessi útgáfa yrði feld niður. Jeg vil benda á það í sambandi við þetta, að þó við höfum ekki ráð á að gjalda vísindamönnum fyrir að vinna að þessum fornritum vorum að svo stöddu, er víðsvegar úti um landið nóg af sjálfboðaliðum, sem vilja styðja að útgáfunni með vinnu sinni. Jeg hefi staðið í sambandi við suma þeirra, en ef dráttur yrði á útgáfunni, yrðu það mikil vonbrigði þessum mönnum, er hafa að þessu unnið í frístundum sínum, og þó að fjárhagur ríkisins sje nú allerfiður og jeg vilji herða á öllum aðgerðum til þess að minka útgjöld ríkissjóðs, þætti mjer mjög ánægjulegt, ef þingið sæi sjer fært að láta hjá líða niðurskurðinn á þessum fjárveitingum. Vjer Íslendingar höfum í 1000 ár, þrátt fyrir öll bágindi og allskonar óhamingju, sem yfir oss hefir dunið, lagt stund á innlend fræði og það hefir verið oss metnaðarmál fram til þessa, sem jeg vona, að og verði hjer eftir, að halda fast við þessum gamla arfi, þótt við höfum átt við harðæri að búa mörgum stundum. Þá þótti mjer vænt um, að nefndin feldi ekki niður styrkinn til útgáfu manntalsins frá 1703, sem ef ómissandi undirstaða fyrir rannsóknir í sögu og ættfræði innlendra manna, og mjer þætti vænt um, ef þessu væri þyrmt líka.

Jeg ætla svo ekki að víkja að fleiri einstökum brtt. að sinni, en jeg ætla að segja nokkur orð sem fjárveitinganefndarmaður. Geri jeg það ekki af því að jeg vilji með því lýsa vantrausti mínu á hv. frsm. fjvn. (ÞórJ); það er fjarri því, að jeg vilji að menn skilji mig þannig, enda sýndi jeg það við umr. um fyrri kafla fjárlaganna, að jeg bar fult traust til hans, að mjer kom þá eigi til hugar að taka til máls. En það getur ekki leikið á tveim tungum, að till. fjvn. við þennan kafla fjárlaganna hafa mætt að mun óblíðari viðtökum en hinar fyrri till. hennar við hinn kaflann, og þó við hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) sjeum sinn í hvorum flokki hjer á þingi og því mótstöðumenn í sumum stjórnmálum, tel jeg rjett, þegar aðsúgur er gerður að fjvn., að setjast við hlið hans og láta þá ekki flokksfylgi koma til greina. Munu fjvn.menn standa saman um hann og till. nefndarinnar, og þætti mjer rjett, að sókn kæmi á móti í stað varnar, og þó margir hafi orðið til þess að kasta hnútum að frsm. og fjvn., finst mjer hægur vandinn að snúa vörninni í sókn á hendur aðsúgsmönnunum, því flestar aðfinningar þeirra hafa verið á sandi bygðar. Tek jeg þá fyrst nokkur þau atriði, er hörðustu aðkasti hafa valdið. Fyrst ætla jeg þá að snúa mjer að hæstv. stjórn. Mjer þykir leitt að hæstv. forsrh. (JM) er hjer ekki viðstaddur, því við hann vildi jeg sjerstaklega ræða í þetta skifti. En jeg vona þá, að hinir ráðherrarnir beri honum síðar það, sem jeg nú tala til hans. Það hafa tveir ráðherrar ráðist talsvert á till. fjvn., hæstv. forsrh. (JM) og hæstv. fjrh. (JÞ). Jeg get undantekið hæstv. atvrh. (MG), sem að svo miklu leyti, sem hann tók þátt í þessum umr., stóð fremur við hliðina á fjvn., enda var hann formaður hennar þar til stjórnarskiftin fóru fram og hann tók sæti í stjórninni. Hæstv. atvrh. (MG) vjek nokkrum orðum að hæstv. forsrh. (JM) og tók maklega fast í árina gegn honum og ljet skýrt koma í ljós, að hann væri honum ósammála. Jeg vona þó, að þetta bendi eigi til þess, að hann sje hæstv. forsrh. (JM) ósammála um margt annað, og án þess að mjer sje sárt um þessa stjórn, teldi jeg það þó miður heppilegt fyrir stjórnarfarið í landinu, ef þeir deildu mjög sín á milli.

Hæstv. forsrh. (JM) hjelt áðan töluvert langa ræðu, sem öll, frá upphafi til enda, beindist móti sparnaðartillögum nefndarinnar. Þar var ekki eitt orð í sparnaðaráttina, en margt var það, sem hann lagði mikla áherslu á, og skal jeg nú víkja nokkuð að því.

Það er það fyrsta, að hann lagði mjög á móti lækkuninni á skrifstofukostnaði biskupsins. Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) studdi hann þar og allfast, og þótti mjer allgaman að, hve vel þeim nú kom saman um þetta, því það er ekki svo langt síðan hæstv. forsrh. (JM) lýsti því yfir úr þessu sama sæti, að háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) væri kosinn á þing með það eitt fyrir augum, að hann væri á móti sjer (JM) sem ráðherra, og hafði hv. 4. þm. Reykv. (MJ) þá ekkert við þá yfirlýsingu að athuga. En nú er samkomulagið milli þeirra hið ákjósanlegasta. Nú vil jeg minnast þess, að einhver þau fyrstu orð, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ), mælti til mín í þessum sal, voru á þá leið, að jeg væri stuðningsmaður þáverandi stjórnar; en nú get jeg óskað honum til hamingju með það að vera orðinn stuðningsmaður þeirrar stjórnar, sem hann var kosinn til þess að vera á móti. En svo jeg komi aftur að skrifstofustörfum biskups, vil jeg benda á það, að ekki er mjög langt síðan biskup annaði öllum skrifstofustörfum sínum með aðstoð eins unglings. Mjer skildist sem hæstv. forsrh. (JM) gerði áætlun fyrir húsaleigu biskupsskrifstofunnar, en þá fer skörin að færast upp í bekkinn, ef ríkið á að leggja hverjum opinberum embættismanni til húsnæði. Jeg sje, að hv. þm. Barð. (HK) brosir og kinkar kolli, er jeg minnist á þetta. Jú, jeg minnist þess, að á síðasta þingi mun hafa staðið allhörð rimma út af því, hvernig þingið ætti að snúast við því, er einn allháttstandandi embættismaður tók traustataki peninga ríkisins, til þess að greiða húsaleigu fyrir sig. Hæstv. forsrh. (JM) gat þess, að fyrir næsta ár væri of lítið að áætla biskupi 1000 kr. í skrifstofufje, en jeg vil benda á það, að störfin eru ekki ýkjamikil, því síðan stiftsyfirvöldin lögðust niður, hafa 2/3 hlutar af störfum biskups, þau er vinna þarf í skrifstofu, horfið undir stjórnarráðið. En það er svo með þessa upphæð eins og hvað annað, að „veldur hver á heldur.“ Það er alls ekki rjett að miða við það, hvað einstakir embættismenn þykjast þurfa með. Það var fyrir ekki löngu síðan sýslumaður í Húnavatnssýslu, sem hafði 4 skrifara. Eftirmaður hans komst af með einn, eða hálfan annan í mesta lagi.

Í öðru lagi lagðist hæstv. forsrh. (JM) í móti niðurlagningu dócentsembættisins í íslenskum fræðum við háskólann. Í þriðja lagi var hann á móti ráðstöfun námsstyrksins til stúdenta við háskólann. Í fjórða lagi lagði hann á móti till. um námsstyrk stúdenta, sem nema erlendis. Í fimta lagi mælti hann á móti till. nefndarinnar um iðnskólann. Í sjötta lagi mælti hann með kvennaskólanum, á móti till. fjvn., og mun jeg víkja nánar að því síðar. Í sjöunda lagi var hann á móti að lækka tillagið til Flensborgarskólans. Í áttunda lagi var hann á móti því að spara vinnu við þingið. Í níunda lagi var hann á móti því að lækka styrk Jóh. L. L. Jóhannssonar úr 7 þús. í 4 þús. kr. Í tíunda lagi lagði hann afarmikla áherslu á það, að kostnaður við veðurskeytasendingar o. fl. yrði ekki lækkaður, og meðal annars ljet hann þau orð falla um þetta, að skilja mátti þau sem aðdróttun til fjvn. um, að þetta atriði hefði alveg farið fram hjá henni. En jeg get upplýst það, að fjvn. kaus sjerstaka menn til að rannsaka þetta mál, og var það gaumgæfilega gert, og fer því fjarri, að fjvn. hafi kastað til þess höndunum. Fjvn. átti síðan tal við tvo menn frá þessari stofnun, og var annar þeirra forstjóri verðurfræðistofnunarinnar. Hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) vjek að því í ræðu sinni, hvað það var, sem nefndin hafði fyrir augum, er hún vildi draga úr kostnaðinum við þessa stofnun. Það voru ekki skeytasendingarnar, sem draga átti úr, heldur voru það veðurspárnar, sem nefndin vildi fella niður, þar eð þær hafa yfir höfuð reynst illa.

Þá hefi jeg talið það helsta, sem hæstv. forsrh. (JM) hefir lagt á móti af till. fjvn., og eru það 10 liðir alls. Jeg geri ráð fyrir, að mörgum háttv. deildarmönnum komi það kynlega fyrir, hversu fljótt hann hefir kastað frá sjer þeirri stefnuskrá, sem hann ritaði undir í byrjun þessa þings og endurtók aftur er hann tók við völdum nú fyrir nokkrum dögum. Jeg bendi aðeins á þetta, háttv. stuðningsmönnum þessarar stjórnar til athugunar. En jeg bæti því hjer við, að hvað mig snertir, kom mjer það ekki á óvart, og undraðist því alls ekki, þó jeg yrði einhvers var, sem benti í þessa átt, frá hæstv. forsrh. (JM), því jeg er einn af þeim mönnum, sem marka framtíðina af fortíðinni. Hr. Jón Magnússon hefir fyr verið stjórnarformaður þ. e. árin 1917–’22 — og um þau stjórnarár hans hefir hæstv. núverandi fjrh. (JÞ) gefið glögga og merkilega skýrslu, sem bendir á það, hvernig sú stjórn hefir farið honum úr hendi, en mjer virðist samt, að hæstv. fjrh. (JÞ) hafi í verkinu sýnt það, að hann hafi dregið alleinkennilegar ályktanir af fortíðinni um nútíð og framtíð.

Það eru aðallega tvö atriði önnur, sem harður gustur hefir verið gerður að fjvn. fyrir. Annað þeirra eru till. hennar um þá skóla, sem eigi eru beint ríkisskólar. Jeg mun nú þar að snúa, sem garðurinn er hæstur, þar sem er hæstv. fjrh. (JÞ) og ummæli hans í garð nefndarinnar. Í sambandi við þessar till. fjvn. kom hann fram með tvö atriði, er hann lagði áherslu á og vítti nefndina fyrir.

Fyrra atriðið var það, að það þyrfti að vera fullkomið samræmi í niðurfærslu þessara styrkja, og hitt atriðið var, að hann væri með öllu mótfallinn því að færa þannig gjöld ríkissjóðsins yfir á sveitar- og bæjarfjelögin. — Að því er snertir fyrra atriðið, þá skal jeg lýsa yfir því, að jeg er fyllilega sammála hæstv. ráðherra í því, að samræmi verði að vera í niðurfærslunni. Enda var það einmitt þetta grundvallaratriði sem vakti fyrir fjvn. með niðurfærslu skólastyrkjanna. En þetta er meira en hægt er að segja um suma háttv. þm. Hæstv. fjrh. brýtur þessa reglu með því að vilja undanskilja iðnskólann. Hann og hv. 4. þm. Reykv. (MJ) syndga einnig á því að vilja undanskilja kvennaskólann hjer og hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) vill undanskilja Flensborgarskólann. Jeg get þegar lýst yfir því fyrir hönd allrar fjvn., að nefndin hefði helst kosið að þurfa ekki að lækka neitt styrkina til skólanna. Og nefndin er einnig sammála um það, að þau hrósyrði, sem fallið hafa um þessa skóla og stjórn þeirra, sjeu sönn. En hvað átti nefndin að gera? Útgjöldin varð að lækka og samræmisins vegna var þá sjálfsagt að viðhafa sömu aðferðina hjer sem annarsstaðar. En jeg vil aðeins nefna það sem dæmi þess, hve nefndinni var óljúfur þessi starfi, að það urðu ekki eins miklar umr. um neinn liðinn meðal nefndarinnar og einmitt þennan. Var það og eingöngu vegna sparnaðarþarfarinnar, að hún sameinaðist um þessar till. Hefir hún nú leitast við að ná fullkomnu samræmi á þessum grundvelli, og væri í rauninni heppilegast, að allar till. hennar um skólana kæmu til atkvgr. undir einum hatti, til þess að samræmið raskist ekki.

Þannig hefir nú fjvn. lifað eftir þessari meginreglu sinni. En hvernig hefir hæstv. fjrh. lifað eftir henni? Hann vill undanskilja iðnskólann og hann vill hækka tillagið til kvennaskólans. En hann mælti ekki orð gegn lækkuninni til verslunarskólanna. Þeir skólar eru þó næsta þýðingarmiklir, og munu allir, sem vit hafa á, viðurkenna það, hve mikilsvert það er að hafa vel mentaða verslunarstjett. Sömuleiðis mun mönnum ekki blandast hugur um það, hvers virði það er að hafa góða samvinnuskóla, sem ali upp unga menn til að vera leiðtogar bænda í öllum fjelagsmálum.

Hitt meginatriðið, sem hæstv. fjrh. vjek að í ræðu sinni, var það, að hann væri því mótfallinn, að gjöld ríkissjóðsins væru færð þannig yfir á sveitar- og bæjarsjóði. Átti hann þar fyrst og fremst við tillögin til skólanna. En einnig hjer var það samræmið, sem fjvn. kepti eftir. Hjá henni var það ekki aðalatriðið að færa þessi gjöld yfir á sveitar- og bæjarsjóðina, heldur að ná fullu samræmi á þessu sviði. Skal jeg taka dæmi hjer til skýringar: Kvennaskólinn á Blönduósi hefir verið sýslunum þar nyrðra mjög þungur baggi. Hafa þær sýnt mjög lofsverðan áhuga á viðhaldi hans og nú nýlega lagt í talsvert mikinn kostnað til endurbóta skólahússins. Til kvennaskólans í Reykjavík leggur Reykjavíkurbær einar 500 kr. Er nú samræmi í því, að þetta sje svo áfram? Þá get jeg einnig tekið til samanburðar kvennaskólann og Flensborgarskólann annarsvegar, en hinsvegar alþýðuskólana. Hversu mikið hafa ekki sveitarfjelögin lagt á sig til þess að halda uppi þeim skólum? Hvað hafa Vestfirðingar lagt til Núpsskólans, Dalamenn til Hjarðarholtsskólans, Borgfirðingar til Hvítárbakkaskólans og Þingeyingar til síns skóla — svo nokkrir sjeu nefndir? Það stingur mjög í stúf við það, sem Reykjavík og Hafnarfjörður hafa lagt til þessara skóla sinna. Aftur á móti stendur nokkuð sjerstaklega á með Eiðaskólann. Þar er bæði þess að gæta, að sýslurnar hafa lagt til eignina, sem hefir orðið þeim mjög dýr, og auk þess er þar um þá tilraun að ræða, sem snertir alt landið, hvernig slíkir skólar gefist hjer. Jeg býst nú að vísu við, að einhver kunni að segja, að kvennaskólinn í Reykjavík og Flensborgarskólinn sjeu fyrir alt landið. En þeir eiga ekki að vera það. Til þess var einmitt kvörninni snúið með alþýðuskólana, að íslensk alþýða þyrfti ekki eftirleiðis að sækja alla sína mentun til Reykjavíkur og nágrennisins. Væri lítill skaði skeður, þótt dálítið færi að draga úr þeim straum til höfuðstaðarins, og myndi menningunni sannarlega ekki standa neitt stórtjón af því.

Niðurstaðan af þessu verður þá sú, að fjvn. er hjer í fullkomnu samræmi við það, sem gert hefir verið annarsstaðar til þess að spara. Er því dálítið hart að heyra, hvernig hv. þm. Reykjavíkur snúast við þessu, þótt það sje að vísu engin nýlunda, er um slík efni er að ræða. Hæstv. fjármálaráðh. talaði um þetta sem 1. þm. Reykv. Hæstv. fjrh. og hv. 4. þm. Reykv. tóku það fram sem ástæðu, að einsdæmi væri hve vel kvennaskólanum væri stjórnað, ekki síst með tilliti til sparnaðar við skólahaldið. Sama sagði hv. 1. þm. G.-K. (ÁF) um Flensborgarskólann. Jeg skal játa, að þessum skólum sje vel stjórnað og sparlega á öllu haldið.

En sama má segja um marga af þeim skólum, sem þessir hv. þm. hafa þolað að sjá skorna. Skal jeg t. d. taka, að jeg kenni 2 tíma á dag í samvinnuskólanum og fæ um 12 kr. fyrir á viku, eða um 1 kr. fyrir tímann. Eru þó með stílar til leiðrjettingar. Samskonar vinna við kvennaskólann er borguð með kr. 3,50 um tímann. Eins stendur á um ýmsa af þeim skólum, sem skera á niður; rekstur þeirra er yfirleitt mjög ódýr. Það stendur þó nokkuð sjerstaklega á með kvennaskólann á Blönduósi. Hann er eini húsmæðraskólinn á öllu landinu, og ætti þá að líta líkt á hann og Eiðaskólann. Er maklegt, að ríkið sýni honum sjerstakan sóma, þar sem hjeruðin hafa látið sjer svo ant um hann.

Hv. 4. þm. Reykv. kvað raddir hafa komið fram þess efnis, að kvennaskólinn í Reykjavík yrði gerður að ríkisskóla jafnhliða gagnfræðaskólunum. Það hefir legið hjer frammi skjal þess efnis frá skólastjóra skólans. Meira að segja átti að gera kvennaskólann beinlínis að gagnfræðaskóla, sem gæti sent nemendur beint í lærdómsdeild mentaskólans, eins og gagnfræðaskólinn á Akureyri. Þetta hafði þau áhrif á mig, að hafi jeg verið hikandi áður í því að nema af tillaginu til skólans, þá varð jeg nú staðráðinn. Jeg tel það gersamlega ranga stefnu, sem hjer er farið fram á. Konur hjer á landi hafa aðgang að öllum hinum skólunum, og er því gersamlega óþarft að fara að gera þennan skóla að nýjum gagnfræðaskóla jafnhliða hinum.

Hæstv. atvrh. gat þess í ræðu sinni, að borgarstjórinn hjer hefði skorast undan því að greiða 3000 kr. úr bæjarsjóði til skólans. Jeg efaðist heldur ekki um, að svo mundi fara. Margra ára reynsla hefir sýnt það, að Reykvíkingar spyrna á móti öllu slíku. Nær þetta þó auðvitað ekki neinni átt, því ekkert vit er í því að hlaða niður skólum hjer, sem bæjarmenn hafa mest gagnið af, án þess að þeir vilji kosta þá eins og þeim ber. En jeg býst við, að hjer fari eins og um kirkjugarðinn í Reykjavík, að hv. þm. líti svo á, þrátt fyrir mótspyrnu Reykjavíkurþm., að bænum beri að sjá sínu fólki fyrir kenslu ekki síður en legstað.

Að lokum kem jeg að því atriði, að ýmsir háttvirtir þm. hafa veist að fjvn. fyrir að hafa lagt það til, að hækkaður yrði styrkurinn til Búnaðarfjelagsins, og svo einnig fyrir það, að hafa bætt við liðnum um jarðræktarlögin. Að því er snertir fyrra atriðið, þá þykir mjer það mjög leitt, að háttv. form. landbn. (HK) skuli hafa orðið til þess að koma fram með brtt. þess efnis að lækka styrkinn til Búnaðarfjelagsins. Verð jeg að láta svo á, að hv. þm. hafi hjer í sparnaðarákafa sínum viljað sýna þá óeigingirni að láta þetta ganga út yfir það barnið, sem hann ann mest. Og er þá ekki hægt að segja, að jeg geri honum upp vondar hvatir. (H- K: Þess var heldur ekki að vænta úr þeirri átt). Annars þykir mjer það leiðinlegt vegna þessa háttv. þm., að þetta skyldi koma fyrir hann. Verð jeg að segja það, að mjer þætti hart, ef farið yrði niður með þennan styrk. Það er nú svo og hefir verið, að landbúnaðurinn hjer á landi hefir dregist aftur úr og stendur ekki líkt því eins framarlega og landbúnaður ýmsra annara þjóða. Er þess full þörf að rjetta hann úr kútnum, en til þess þarf örugga og góða forustu. Þessa forustu hefir Búnaðarfjelagið tekið að sjer, og hefir það gegnt henni vel undanfarin ár. Verkefnin hjer eru ærið mörg, og er fylsta þörf á því, að bændur sjeu með þessu framlagi styrktir til þess að geta notið áfram þessarar forustu. Jeg vil líka benda á það, að Alþingi hefir óvenjugóða tryggingu fyrir því, að þessu fje verði vel og viturlega varið. Sjálf landbúnaðarnefnd Alþingis velur 2 af mönnum þeim, sem sæti eiga í stjórn Búnaðarfjelagsins, og hefir þar með beinan íhlutunarrjett um það, hvernig þessu fje verði varið. Auk þess er svo búnaðarþingið, sem skipað er af helstu og reyndustu forustumönnum bænda. Þegar á alt þetta er litið, virðist hart að vilja lækka mjög þennan styrk; að minsta kosti getur fjvn. ekki fallist á, að það sje rjett, og ber hún engan kinnroða fyrir það.

Hitt atriðið var jarðræktarstyrkurinn. Á móti honum lagðist helst frv. þm. Ak. (BL), og kvað hann svo fast að orði um hann, að það væri sama sem að bændur færu að þiggja ölmusugjafir, ef þeir þægju þennan styrk. Þetta er hinn mesti misskilningur, enda þurfum við ekki annað en að líta til annara landa til þess að sannfærast um það. Aðrar þjóðir hafa gengið miklu lengra í þessu efni. Þeirra höfuðáhugamál upp á síðkastið hefir einmitt verið þetta, að rækta landið. Hefir áhugi þeirra á þessu margfaldast síðan er stríðinu lauk. Menn hafa nú sjeð, að ræktun landsins er eitt þýðingarmesta mál hverrar þjóðar; þar er unnið verk, sem ekki gildir fyrir nútíðina eingöngu, heldur og fyrir komandi kynslóðir. Býst jeg við, að þetta sje nú viðurkent af öllum, sem nokkuð hafa um málið hugsað. Þótti mjer því leitt að heyra hv. þm. Ak. mótmæla svo sterklega. Það er t. d. talsverður munur á því að rækta land og að fást við skósmíði. Annað er unnið til bráðabirgða, en hitt til frambúðar. Eins er ólíkt að rækta land og sækja sjó. Annað er rányrkja, sem enginn veit hvenær kann að þrjóta. Hitt er verk, sem eykur sífelt við verðmæti landsins. Jeg vil, til þess að skýra þetta enn frekar fyrir háttv. þm. Akureyrar, taka eitt mjög ljóst dæmi.

Það er bóndi, sem getur t. d. eins vel átt heima á Svalbarði eins og annarsstaðar. Þessi bóndi stundar hvorttveggja, síldveiðar og landbúnað. Og þá peninga, sem hann græðir á síldinni, leggur hann í ræktun landsins, til þess að auka eign sína og afkomenda sinna. Bóndinn á Svalbarði sannar þannig í verkinu þessa kenningu mína, en jafnframt hrekur hann skoðun hv. þm. Ak. Jeg er líka viss um, að minnisvarði bóndans á Svalbarði verður sljetta túnið, en ekki síldveiðarnar. Svona lít jeg á málið og svona virðist bóndinn á Svalbarði líta á það, hvernig svo sem hv. þm. Ak. kann að líta á það. Jeg vona nú samt, að hv. þm. Ak. taki þetta dæmi mitt til athugunar. (BL. Já, að það er á síldinni, en ekki jarðyrkjunni, sem bóndinn græðir). Hann græðir á hvorutveggja, en gróðann leggur hann í jarðyrkjuna. (BL: Það geta ekki allir bændur; bara þeir sem síld veiða). Nei, því miður, og því meiri þörf hefir allur þorri bænda á opinberum styrk til þessara þjóðnytjastarfa. Flestir verða að láta sjer nægja að stunda sinn landbúnað, og hann verður þeim líka auðsuppspretta, þótt hægt fari. Og það sem mest er um vert, þeir eru þar ekki bara að vinna fyrir líðandi stund, heldur að hlaða grundvöllinn að framtíð þjóðarinnar. Það besta, sem sú kynslóð, er nú lifir, getur gert, er að rækta landið. Það er því ekki um neinn ölmusustyrk að ræða hjer. Það er hjer að ræða um að veita fje til þess að gera landið betra og frjósamara og byggilegra fyrir óbornar kynslóðir.