26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (JM):

Það hefir verið gert mikið veður út af því, að jeg hefi mælt á móti fáum liðum í till. hv. fjvn. Býst jeg við, að hjer sannist sem oftar málshátturinn; parturiunt montes naseitur ridiculus mus.

Hvað er svo tilefnið til árásar hv. þm. Str. (TrÞ)?

Flestallar brtt. nefndarinnar snerta liði, er mjer viðkemur. Jeg held að brtt. þessar sjeu um 90. Jeg hefi bent hv. nefnd á, að örfáar af þessum brtt., niðurfærslunum, sjeu ekki á rökum bygðar. Og hvað gera þessar till.? Fara allar fram á að draga úr þeim till., sem hæstv. fyrverandi stjórn bar fram, eða hæstv. fyrv. fjrh. (KlJ), sem hv. þm. Str. vill síst áfellast. Það eina, sem jeg hefi gert, er að mæla á móti fáeinum atriðum í brtt. nefndarinnar, er fara fram á að færa niður till. fyrv. stjórnar. Eigi að sanna ósparsemi mína með þessu, þá fæ jeg ekki sjeð, hvernig háttv. þm. Str. fer að halda því fram, að hæstv. fyrv. fjrh. (KlJ) hafi verið ógnar sparsamur. Þetta er bara sagt í ógáti af hv. þm. Str.; hann gáir ekki að því, að það er annað að tala hjer í salnum sem þm. um mál, sem allir háttv. þm. hafa haft tækifæri til að kynna sjer út í æsar, en að æsa menn úti um land, sem ómögulega hafa getað kynt sjer málið. En hv. þm. (TrÞ) hyggur, að hann megi fara hjer að eins og ljelegur blaðasnápur, en ekki sem sæmilegur þingmaður.

Fyrsta brtt., sem jeg mintist á, var sú, að jeg teldi ástæðulaust að færa skrifstofukostnað biskups meira niður en í 1500 kr. Skil jeg ekki, hvernig hægt er að vekja storm út af slíku, sem er alveg í samræmi við till. hv. fjvn., nema hvað farið er fram á að lækka skrifstofukostnaðinn aðeins niður í 1500 kr., í stað 1000 kr. Og þetta er einnig í fullu samræmi við hv. frsm. (ÞórJ), sem er einstaklega sanngjarn maður í þessum málum. Hann gaf í skyn, að komið gæti til mála, hvort nefndin hefði ekki skorið helsti mikið af skrifstofukostnaði landlæknis.

Jeg býst við, að háttv. þm. Str. hafi gleymt því, að jeg mintist á sparnað, sem jeg taldi, að nefndin hefði eins mátt grípa til, en það var viðvíkjandi læknisvitjunum. Jeg held — þó að altaf megi deila um nauðsynina, — að ekki hefði þurft að leggja til þeirra 3500 kr.

Ekki get jeg ímyndað mjer, að háttv. þm. Str. þurfi að bregða mjer um ósparsemi, þó jeg vilji ekki láta gabba stúdentana. Jeg fór ekki fram á að hækka styrkinn til stúdenta háskólans hjer. Hitt var það, að mjer fanst ekki hægt að binda hann því skilyrði, að háskólinn legði eitthvað á móti úr sáttmálasjóðnum. Það hefði gjarnan mátt fara fram á það, en ekki er hægt að skylda háskólann til þess.

Jeg orðaði lítilsháttar iðnaðarmannastyrkinn; en þó það mál snerti mig ekki beinlínis, þá finst mjer ástæðulaust að klípa af því, sem hæstv. fyrv. stjórn hefir lagt til þess.

Jeg nefndi aðeins stuttlega kvennaskólann í Reykjavík og alþýðuskólann í Flensborg. Jeg álít, að hv. fjvn. hafi gert annað rangara en að lofa þeim styrk, sem hæstv. fyrv. stjórn lagði til þeirra, að standa óbreyttum. Skil jeg ekki í því, hvernig hv. þm. Str. fer að beina skeytum til mín þess vegna, hann hefði átt að miða þeim fyrst á háttv. 2. þm. Rang. Jeg hefi ekki farið fram á annað en að örlítill partur af till. hans fengi að standa óbreyttur. Er því langt frá því, að nokkurt rjettmæti sje í því að bregða mjer um eyðslusemi í þessum till., án þess að ráðast á þann, sem lagði þær til í upphafi.

En jeg vil segja eins og hæstv. fjrh.;

Hví beitti nefndin ekki þessum niðurskurði við Þjóðvinafjelagið, í stað þess að auka styrkinn til þess? Kennir þar ósamræmis í till, hv. fjvn., því þó það sje gott verk, gildir það um margt, sem niður er felt, og hefði engum dottið í hug, að ef hv. fjvn. færi að bæta við eitthvað, þá sneri hún. sjer helst að því, sem bíða má, eins og er um bókaútgáfur. Í þær eyðum við 20–30 sinnum meira tiltölulega en nokkur önnur þjóð, en eins og fjárhagurinn er nú, virðist sem þær mættu þó bíða örlitla stund. Jeg er ekki með þessu að setja ofan í við hv. nefnd, en aðeins að benda á ósamræmið, sem í því er fólgið að taka af flestum till. hæstv. fyrv. stjórnar, en bæta við þessa. Það er ekki til neins að segja, að styrkurinn, sem fjelaginu var ætlaður í fjárlögunum, sje ekki nógu ríflegur. Vel hefði mátt við hann una 1–2 ár.

Jeg var ekki við og veit því ekki glögt, hvað talað hefir verið, en jeg vildi minnast á orðabókarstarfsemi sjera Jóhannesar L. Jóhannssonar. Í upphafi, og raunar alla daga, var jeg á móti því, að kostað væri til orðabókarinnar á þessum grundvelli, taldi styrkinn ekki koma af fullum notum, og enginn vinur minn hefir maður þessi verið. Þó finst mjer dálítið hart að fara nú að svifta hann svo miklu af styrknum. Hann er maður á gamals aldri, á mörg börn og hefir ákaflega þungt heimili. Tekinn var hann úr embætti sínu rjett áður en kjör presta voru bætt að miklum mun og látinn fara hingað til þess að taka þetta starf, sem nú á að verða svona miklu ver launað. Mig greinir það eitt á við hv. fjvn. í þessu máli, að mjer finst hún hafa lækkað þessi laun of mikið í hlutfalli við annað. Áður hefir þeirri venju verið fylgt, að þessi maður hefði laun á við góðan meðalembættismann.

Alt það, sem jeg nú hefi talið, er aðeins smávægilegt í mínum augum. Aðrir hafa talað um skólana, bæði kvennaskólann og Flensborgarskólann, og játa jeg, að jeg fylgi þeim. En jeg skal endurtaka það, að mjer finst það ekkert smávægilegt, sem snertir veðurathuganastöðina. Skil jeg þó vel, að menn eins og háttv. þm. Str., sem virðist ekki sjá annað en landbúnaðinn, telji hana lítilsverða. Það hefir ef til vill litla þýðingu fyrir landbúnaðinn, að veðurskeytin sjeu ábyggileg, en allir, sem eins unna sjávarútveginum, munu víst vera á móti því, að skeytunum sje kipt í burt, enda hafa aðrar þjóðir lagt mikið kapp á að gera þau sem ábyggilegust. Auðsjeð er, að hv. þm. Str. skilur ekki þýðingu veðurskeytanna, en hún getur meðal annars sjest á því, hve öllum skipum, jafnt fiskiskipum sem öðrum, er nú umhugað um að fá skeytamóttökustöövar, til þess meðal annars að fá að vita, hvert útlit sje um veður.

Það er alveg satt, að mönnum virðast veðurspádómarnir óábyggilegir. Jeg man það, að á stúdentsárum mínum í Kaupmannahöfn lásu menn veðurskeyti þannig, að þeir sögðu, að víst væri, að sólskin kæmi, ef regni var spáð, og vice versa. Sannleikurinn er sá, að veðurskeytin hafa gríðarmikla þýðingu, þó ekki sje hægt að spá fyrir veðri hverja stund. Jeg er alveg sannfærður um, að sá þm. er ekki hjer inni, sem ber sjávarútveginn og sjómennina virkilega fyrir brjósti og greiðir ekki atkv. móti þessari till. nefndarinnar. Jeg vil enn taka það fram, að þetta er mjög mikilvægt og áríðandi, að skeytin sjeu löguð á hverjum degi, svo þau sjeu ábyggileg. Og þó margir lesi þau ekki nú, kemur það smátt og smátt, þegar menn fara að venjast þeim. Alstaðar annarsstaðar er mikið gert í þessu efni. Og það væri óforsvaranlegt, þegar stöðin á Grænlandi kemur í sumar, að ekki væru þær veðurspár notaðar hjer, bæði fyrir þetta land og önnur.

Jeg vil enda mál mitt á því, að jeg hefði ekki þurft að svara hv. þm. Str. einu orði. Hefði verið alveg nægilegt að vísa til hv. 2. þm. Rang.; honum bar miklu fremur að verja þessar 90 gr. en mjer. Og jeg býst við, að jeg síðar fái miklu fleiri ákúrur fyrir það, hve litlar athugasemdir jeg hefi gert við till. háttv. fjvn., heldur en hinar, sem jeg hefi fram borið. En jeg viðurkenni nauðsyn til að spara alt, sem mögulegt er.