07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Jón Baldvinsson:

Þegar jeg greiddi atkvæði á móti því, að tekið væri fje úr landhelgissjóðnum til strandvarna við 3. umr. fjárlagafrv., var það ekki einungis af því, að jeg væri því mótvígur, heldur áleit jeg, að þetta gæti ekki orðið vegna gildandi laga, því að aðaltilgangur sjóðsins er annar, og álíta margir, að hjer sje lagt út á hættulega braut. Sjútvn. vill nú lögfesta þetta og láta verja vöxtunum af sjóðnum og árlegu sektarfje til strandvarna, þ. e. öllum árstekjum sjóðsins, og er hjer með skerfurinn sjóðurinn að því leyti, að vöxtur hans stöðvast, eða því sem næst, og nær hann því síður hinum upphaflega tilgangi.

Samkvæmt lögunum frá 1915 er ætlast til, að fje landhelgissjóðsins skuli varið til kaupa á strandvarnaskipi. Mjer fanst því rjett vera, að það kæmi fram rödd á móti þessu, um leið og byrjað var á að jeta upp þennan sjóð. Það verður auðvitað haldið áfram lengra og lengra á þessari braut, og skuld ríkissjóðs við landhelgissjóðinn mætti vænta, að yrði afskrifuð á þennan hátt: — greiðslur ríkissjóðs til strandvarnanna yrðu þá færðar landhelgissjóðnum til skuldar, uns hann væri allur uppjetinn. Annars geri jeg ekki ráð fyrir, að það verði nú um það rætt, hvar fje landhelgissjóðsins sje nú niður komið; jeg býst við, að það muni þegar að mestu runnið inn í ríkissjóðinn, og vildi því spyrja hæstv. fjrh. hvernig fjárreiðum landhelgissjóðs og ríkissjóðs sje nú varið, og skal jeg taka það fram, að jeg heimta alls ekki svar viðvíkjandi þessu nú þegar, heldur við síðari umr. málsins. Þetta var mikið umtalað mál í fyrra, og er gott að fá að vita, hvernig þessu er nú háttað.

Viðvíkjandi þeim orðum háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), að við yrðum að bjargast við smábáta til strandvarna fyrst um sinn, eða þar til samningarnir við Dani eru útrunnir, þá getur vel verið, að á þetta hafi eitthvað verið minst í sjútvn., en jeg hygg það vera alt of sterkt að orði kveðið, að telja alla nefndina sammála um þetta, og jeg hefi að minsta kosti ekkert látið uppi um þetta; heldur þvert, á móti, að við ættum að kaupa strandvarnaskip nú þegar, sem við gætum haft til frambúðar, og sem að miklu meira gagni kæmi í strandvörnunum heldur en smábátarnir. Landhelgissjóður er orðinn það stór, að það ætti að vera hægt að koma upp sæmilegu strandvarnarskipi fyrir þá upphæð. Mjer þótti rjett að láta þessa skoðun koma hjer fram, þar sem jeg hafði sjerstöðu í nefndinni um þetta mál.