07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Fjármálaráðherra (JÞ):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) spurðist, fyrir um það, hvernig viðskiftum ríkissjóðs við landhelgissjóðinn væri varið. — Ríkissjóður skuldar nú landhelgissjóði um 840 þús. kr., sem hann greiðir af 6% í vöxtu. Auk þessarar skuldar er sektarfjeð fyrir 1923 ennþá ógreitt í sjóðinn, en það hefir aldrei verið venja að greiða það í sjóðinn fyr en árið eftir. Verður það greitt á þessu ári, en jeg hefi ennþá ekki aflað mjer vitneskju um upphæð þess. En út af brtt. hv. sjútvn. vildi jeg mælast til þess, að hún tæki það til athugunar til næstu umræðu, hvort hún teldi ekki æskilegt eða sæi sjer fært að koma fram með brtt. við þetta frv. þess efnis, að það verði unt að nota eitthvað af tekjum landhelgissjóðsins á sama hátt og frv. gerir ráð fyrir þegar á yfirstandandi ári. Það verða engin fjáraukalög lögð fram fyrir þetta ár, og fjárveitingarvaldið getur því ekki á venjulegan hátt gert neinar ráðstafanir um þetta. Í fjárlögum fyrir árið 1924 eru áætlaðar 50 þús. kr. úr ríkissjóði til strandvarna, og jeg álít það óumflýjanlegt, að einhverju verði eytt úr ríkissjóði umfram þessa fjárveitingu, jafnvel þótt landhelgissjóður leggi og fram eitthvert fje á þessu ári til strandvarnanna. En eins og fjárhagnum er nú komið, er það sýnilegt, að strandvarnirnar geta ekki orðið eins góðar og æskilegt væri, ef ríkissjóður á einn að bera kostnaðinn við þær, en þær mundu verða að mun betri, ef landhelgissjóðurinn legði og fram fje til þeirra á yfirstandandi ári. Vænti jeg því, að hv. sjútvn. taki þetta til yfirvegunar til 3. umr. um frv.