07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1284)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla ekki beinlínis að mæla á móti þessum breytingum, sem lagt er til, að gerðar verði á lögunum um landhelgissjóðinn, og það því síður, sem þetta er að nokkru leyti afleiðing af samþykt við 3. umr. fjárlagafrv., um tillag úr landhelgissjóði móti tillagi úr ríkissjóði til landhelgisgæslunnar. Jeg lít svo á, að það sje ekki heimilt að grípa til fjár landhelgissjóðsins, nema lögunum um hann hafi áður verið breytt til heimildar þess. En jeg lít svo á, að eiginlega hefðu menn átt að halda sjer við hinn upphaflega tilgang landhelgissjóðslaganna, að til hans yrði ekki gripið fyr en ráðist verður í að koma upp góðu og fullkomnu landhelgisgæsluskipi, sem okkur er stórtjón að slá á frest. En það var aðallega viðvíkjandi orðum hv. frsm. sjútvn. (ÁÁ), að jeg kvaddi mjer hljóðs. Mjer skildist hann telja það vera álit sjútvn., að það væri ekki unt að ráða bót á landhelgisgæslunni á þennan hátt fyr en samningarnir við Dani eru útrunnir, um 1940. Mjer kom það illa að heyra þetta, ekki síst fyrir það, að þessu var haldið fram í nafni allrar sjútvn., því það skýtur mjög skökku við stefnu og álit sjútvn, á undanförnum þingum. En nú hefir háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) undantekið sjálfan sig þessari skoðun og lýst sínu áliti á þessu máli, sem er eitt af þeim málum, sem legið hafa fyrir undanfarandi þingum, og af mörgum lögð mjög mikil áhersla á, en þó ekki enn fengið neina úrlausn á, þ. e. að koma upp strandvarnarskipi.

Það hefir þegar verið reynt að bæta um landhelgisgæsluna með því að nota mótorbáta til gæslunnar, og hefir það að vísu orðið að nokkru gagni, þrátt fyrir það, að bæði þeir, sem við þessa strandgæslu hafa fengist, og þeir, sem hafa átt að njóta verndar þessarar landhelgisgæslu, hafa talið yfirleitt fremur lítið vera við það unnið, sökum þverúðar og ófyrirleitni botnvörpunganna, sem villa á sjer heimildir á allan hátt. Þess vegna finst mjer alveg ótækt að ætlast til þess, að það verði þannig látið reka á reiðanum með landhelgisgæsluna um svo langan tíma; það er meiri þrotayfirlýsing en jeg hafði búist við, að mundi voga sjer að skjóta upp höfðinu hjer í þingsalnum nú. Jeg tel það ótækt að varpa öllum áhyggjum upp á dönsku strandvarnirnar að öllu öðru leyti en því, er til smábátanna kemur. Nauðsynin á betri landhelgisgæslu er svo brýn, og hingað til hefir það ekki verið rökstutt með öðru en fjárhagsörðugleikum, að ekki væri fært að ráðast í slíkt, af þeim, sem haldið hafa aftur af þessu máli. Jeg hefi ekki verið talinn bjartsýnn á hag ríkissjóðs, en jeg hefi þó talið nauðsynina svo brýna, að þessu yrði að hrinda í framkvæmd mjög bráðlega, og er jafnsannfærður um það sem fyr, að fjárframlög í því skyni væri ekki hæpinn, heldur viss ávinningur fyrir landið. Jeg vil því vænta þess, að þessari stefnu, sem jeg hefi altaf haldið fram í þessu máli, en ekki náð fram að ganga enn sem komið er, að henni aukist fylgi og skilningur manna á þýðingu landhelgisgæslunnar skýrist svo, að framkvæmda í þessu efni verði ekki langt að bíða úr þessu. Við höfum heimild að lögum til þess að kaupa eða byggja skip, sem fært sje til þessara strandvarna, og taka að okkur forystuna í þeim efnum. Treysti jeg því, að gifta þessa lands sje svo mikil, að þessu verði alls ekki slegið á frest og síst af öllu allan þennan langa tíma, sem sambandslögin gilda. Jeg fæ ekki heldur sjeð, að þetta sje að neinu leyti bundið við sambandslögin. Samkvæmt sambandslögunum eru Danir skyldir til að hafa hjer ávalt eitt velfært skip til strandvarna meðan þeir njóta hjer sama rjettar við okkur til fiskiveiða, hvort sem þeir nota sjer þennan fiskiveiðarjett eða ekki, eða við ekki tilkynnum þeim, að við gerum ekki kröfu til slíks lengur. Vitanlega væri ekkert að því að finna, ef stjórnin gæti fengið Dani til að inna eitthvað meiri varnir af hendi hjer en nú er, og í rauninni ættum við kröfu til þess, en án þess þó að slá í nokkru af okkar rjetti gagnvart þeim. En jeg held, úr því sem nú er komið þessum málum, að þó sje ekki alveg fyrir það takandi að verja einhverju af fje landhelgissjóðsins til landhelgisgæslunnar, að því leyti, sem úr henni kann að verða bætt með mótorbátum á næsta ári, ef önnur betri og tryggari bót verður ekki á því ráðin fyrir þann tíma. En yfirleitt er jeg dauftrúaður á ávinninginn af þessu, hvað viðureign þeirra við botnvörpungana snertir.

Hæstv. fjrh. varpaði þeirri spurningu fram, hvort stjórnin mætti verja nokkru af fje landhelgissjóðsins á yfirstandandi ári á sama hátt og frv. gerir ráð fyrir að gert verði næsta ár, og skal jeg láta mína skoðun uppi um þetta. Jeg lít svo á, að stjórnin hljóti að hafa fullkomlega heimild til þess að verja svipaðri upphæð í þessu skyni í ár og gert er ráð fyrir á árinu 1925, en sú heimild nær ekki til þess að taka fje til viðbótar því, sem veitt er í gildandi fjárlögum í þessu skyni úr landhelgissjóðnum, heldur úr ríkissjóði, enda finst mjer það koma út á eitt, þar sem nær alt fje landhelgissjóðsins stendur inni í ríkissjóðnum.

Þörfin fyrir landhelgisgæslu verður ekki, að því er ætla má, minni í ár en að ári, og jeg sje því ekki annað en að það sje í samræmi við vilja þingsins, að stjórnin verji líkri upphæð í ár til strandvarna.

Jeg vil þá að lokum enn einu sinni leggja sjerstaka áherslu á það, að sem allra fyrst verði komið upp góðu og öflugu skipi til að hafa landhelgisgæsluna á hendi. Það verður að gerast sem allra fyrst, og munu menn sannfærast um, að það yrði ekki unnið fyrir gýg.