07.04.1924
Neðri deild: 44. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1825 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Hákon Kristófersson:

Jeg vildi aðeins skjóta því til hv. nefndar, hvort hún hafi athugað, hvert fyrirkomulag verði á strandvörnunum í ár. Mjer er kunnugt um, að frá Vesturlandi hafa borist óskir til þingsins í þá átt að fá mótorbát til að hafa eftirlit á hendi meðfram ströndunum. En þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir um að fá að vita, hvernig komið væri um það mál hjá nefndinni, þá hefi jeg þó engar upplýsingar fengið, en vænti þess að fá þær nú. Hv. nefnd lítur víst hvort sem er ekki svo á, að eina nauðsynin á strandvörnum sje á Norðurlandi um síldveiðitímann. Vænti jeg þess, að hv. nefnd lýsi því yfir hjer í háttv. deild, hvað hún hefir í hyggju þessu máli viðkomandi, því fullyrða má, að menn bíða með eftirvæntingu til að fá að heyra, hvað þessu máli líður.