11.04.1924
Efri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1829 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Forsætisráðherra (Jón Magnússon):

Jeg get ekki litið á mál þetta eins og þeir tveir hv. þm., sem nú hafa talað. Sjóðurinn er nú þegar orðinn allstór; var um síðustu áramót kominn yfir 800 þús. kr. Er mjer nær að halda, að það nægi langdrægt til að kaupa fyrir gott strandvarnarskip. Annars ber þess að gæta, að sjóðurinn er nú því miður horfinn inn í ríkissjóð, sem hefir gripið til hans í fjárþröng sinni. Þykir mjer því sennilegt, að þegar ríkissjóður verður fær um að borga út landhelgissjóðinn, og það fje verður tekið af tekjum ríkissjóðs, þá verði hann líka fær um að bæta því við, sem á kynni að vanta fyrir strandgæsluskipi.

En á meðan fjárhagur ríkissjóðs er svo örðugur sem nú, og hinsvegar landhelgissjóðurinn ekki til nema á pappírnum, þá fæ jeg ekki sjeð, að það sje nokkuð athugavert að taka eitthvað af tekjum sjóðsins og verja þeim til strandvarna, sem eru okkur bráðnauðsynlegar.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál að sinni.