26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1835 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

120. mál, Landhelgissjóður Íslands

Ingvar Pálmason:

Jeg gat þess við 1. umr. þessa máls, að jeg væri því mótfallinn, og það er jeg enn, þó að jeg hinsvegar hafi ekki gert ágreiningsatkvæði, af þeim ástæðum, sem hv. frsm. (JJós) tók fram. Að jeg þó gekk inn á þessa braut, var af þeim ástæðum, að jeg bjóst við, að annars yrðu strandvarnirnar mjög ófullkomnar þetta ár, en jeg lít svo á, að landhelginnar þurfi að gæta, hvað sem það kostar.

Það er því þessi ástæða, sem knýr mig til þess að leggjast ekki á móti frv., því að jeg get alveg eins búist við, að strandvarnirnar leggist alveg niður á næsta ári, að öðru leyti en því, sem Danir hafa þær á hendi.

Því hefir verið haldið fram, að í raun og veru myndi landhelgissjóður engu tapa við þetta fyrirkomulag, því að sektirnar fyrir landhelgisbrot myndu aukast að sama skapi, sem landhelgisgæslan batnaði. Jeg er að vísu ekki trúaður á þetta, en finst eftir atvikum ekki úr vegi að gera tilraun.

Að síðustu vil jeg undirstrika það, sem háttv. frsm. tók fram, að jeg tel þetta aðeins bráðabirgðafyrirkomulag, en ekki framtíðarskipulag, og mun því kippa að mjer hendinni svo fljótt sem færi gefst.