08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1323)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Jeg heyrði áðan, að menn vildu láta þetta mál ganga fljótt. Jeg hefði getað farið út í einstök atriði málsins, en vildi ekki gera það, þar sem farið er að líða að fundarlokum. En jeg skil ekkert í þessum fítung, sem nú hefir gripið hv. 1. þm. Árn. (MT). Hann hefir setið hjer viku eftir viku og heyrt talað um málin alment og lagt sjálfur mörg og misjöfn orð í belg, en nú rýkur hann upp til handa og fóta og talar um fimbulfamb í ræðu minni, og var helst ekki hægt að skilja hann öðruvísi en svo, að alt væri á beinni leið til helvítis. Jeg hefi sjaldan vitað svo litla þúfu velta öðru eins hlassi. Eða kanske það valdi, að mjer varð á að nefna „lax“ í ræðu minni. Hann er svo skarpur á bragðið þarna fyrir austan fjallið.