08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (1324)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Magnús Torfason:

Jeg ætla aðeins að segja nokkur orð, til að bera af mjer sakir. Jeg man aldrei til þess, að jeg hafi lengt umræður með óþarfri mælgi, eins og sumir aðrir hv. þm. hafa gert. Jeg get ekki látið það óátalið, að farið sje langt út fyrir efni mála, eins og þegar hv. frsm. minni hl. (MJ) fór áðan að tala um lax, og það stolinn lax úr efri deild, í sambandi við þetta frv. (MJ: Nú, það er laxinn!). Jeg hefi oft ætlað mjer að taka hjer til máls, en sjaldnast haft geð í mjer til þess, þegar jeg hefi heyrt, hvernig hv. þingmenn leyfa sjer að haga ræðum sínum. — Að því er snertir það, er hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að ástæða væri til að ræða málið alment, þá er það að segja, að hvorki hann nje hv. 4. þm. Reykv. (MJ) hafa gert það enn, því að ræða hins síðarnefnda var tómur grautur, er hvergi kom við málið, og mjer þykir það einmitt leiðinlegt, að svo skuli hafa farið. Eins og forseti tók fram, á að rjettu lagi að ræða málið alment við 1. umr., einstakar greinir og brtt. við 2. umr., og frv. sjálft og brtt. við það alment við 3. Ef þessu væri fylgt, væri alt í lagi. En því hefir ekki verið að heilsa, og því verða umræðurnar ólán. Jeg undirstrika, að ekkert orð hefir verið talað um málið sjálft.