28.04.1924
Efri deild: 56. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

56. mál, atkvæðagreiðsla utan kjörstaðar við alþingiskosningar

Guðmundur Ólafsson:

Jeg skal strax taka það fram, að mjer finst alls ekki skemtilegt verk fyrir þessa hv. deild, ef hún á sama degi á að fella úr gildi tvenn lög frá síðasta þingi. Það er nú þegar búið að ganga fram af laxalögunum frá í fyrra, og nú leggur hv. allshn. til, að þetta frv. verði látið fara sömu leiðina, en mjer finst alls ekkert liggja á því. Jeg neita því ekki, að lögum þessum hafi verið illa beitt, en svo er um fleiri. En jeg veit líka, að þeim hefir víða verið vel og samviskusamlega beitt. Annars sje jeg ekki, að ástæður þær, sem lágu til grundvallar fyrir þessu frv. í fyrra, hafi að nokkru leyti breyst, svo að þörf sje að fella lög þessi úr gildi nú. En það er vitanlega satt, að það yrði dálítið minni þörf fyrir þau, ef kjördagurinn yrði færður yfir á mildari árstíma og hreppunum skift í fleiri kjördeildir, en eigi að síður verður altaf þörf á að hafa einhver lög, sem geri öllum mönnum mögulegt að neyta kosningarrjettar síns.

Að hreppstjórarnir hafi verið verri en aðrir í því að misnota lög þessi, vil jeg ekki viðurkenna, en sjáanlega hefir sumum þeirra, eins og öðrum, mistekist framkvæmd þeirra.

Þar sem nú kosningar standa alls ekki fyrir dyrum, held jeg að þessu máli muni best komið með því að vísa því til stjórnarinnar, því að það er býsna hart fyrir lækna þá og hreppstjóra, sem samviskusamlega hafa framkvæmt lög þessi, að þau skuli vera numin úr gildi, einungis fyrir þá sök, að þær stjettir hafi misnotað þau svo mjög. Með því væri hinum samviskusömu mönnum gert óhæfilega rangt til. Annars þori jeg að fullyrða, að lög þessi má vel framkvæma svo, að þau megi að gagni verða.

Af þessum ástæðum, sem jeg þegar hefi tekið fram, leyfi jeg mjer að leggja til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.