26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1925

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það er nú liðinn sólarhringur síðan jeg talaði síðast, og æðimarga punkta hefi jeg skrifað niður; en af því svo langt er liðið, býst jeg við, að farið sje að fyrnast yfir sumt af því, sem sagt hefir verið.

Jeg vil taka það strax fram, að tiltölulega fátt hefir verið fundið að störfum fjárveitinganefndar að þessu sinni, og ýmsir látið í ljós, að þeim þætti störfin heldur góð. Fyrir það get jeg þakkað; en hinu ætla jeg að reyna lítillega að svara. Fyrst er þá háttv. 1. þm. G.-K. (ÁF). Hann átti fyrir tveim till. að mæla, um launauppbót fyrir fiskimatsmennina, sem nefndin var mótfallin. Hitt atriðið var Flensborgarskólinn. Er eðlilegt, að hv. þm. finni að gerðum nefndarinnar í þessu efni, því þarna er hann kunnugur og þykir vænt um skólann.

Jeg skal strax taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að till. hennar er alls ekki fram komin af því, að hún viðurkenni ekki fyllilega nauðsyn þessa skóla. Heldur er það af því, að hún vill spara ríkissjóði það, sem hægt er, og leggja á viðkomandi hjerað eitthvað af kostnaðinum. Skal jeg ekki fjölyrða um þetta, því jeg mun koma að því seinna. Háttv. þm. taldi þennan skóla þann besta, sem við ættum, og hefði hann starfað í 40 ár.

Sama var sagt um kvennaskólann og að hann hefði starfað í 50 ár. Þetta heyrum við alstaðar að. Hvaða hugvekju mundi þetta nú gefa þeim mönnum, sem mest halda fram þessum skólum? Mundi það ekki benda á, að það sje ekki rjett að leggja niður skólana sem prívatskóla og velta þeim yfir á ríkið! En þó halda þessir sömu menn því fram, að ríkið eigi að taka við skólunum og reka þá alveg á sinn kostnað.

Hæstv. fjrh. fann sjerstaklega að gerðum nefndarinnar í skólamálunum og taldi þessa leið, sem við höfum valið, alveg ranga og að uppástungur nefndarinnar bygðust á breytingu á gömlum greiðsluhlutföllum, og kvað stofnanirnar, sem hlut eiga að máli, ekki eiga sök á fjárhagsvandræðunum, Það mun rjett vera, nema að því leyti sem sumar stofnanir eru ágengari en aðrar á ríkissjóð og með ósanngirni og frekju krefjast fjárins eins og hjer á sjer stað.

En það, sem nefndin fer hjer fram á, er ekkert nýmæli. Hvarvetna þar, sem stofnsett eru einhver nytjafyrirtæki, hvort sem það eru skólar eða annað, eru þær sveitir eða hjeruð, sem fyrirtækinu hrinda á stað, vanalega öflugustu stuðningsmennirnir, þrátt fyrir það, þó það sje til landsnytja. Þetta er líka eðlilegt, því fyrirtækin spretta upp af sjerstakri þörf þar, sem þau myndast, og þannig er það með skólana hjer.

Hæstv. fjrh. var að tala um það, að ríkissjóður hefði betri aðstöðu til að ná tekjum sínum og fleiri gjaldstofna til að leggja á en bæirnir. Þetta er rjett og ekki rjett. Í raun og veru er gjaldþolið sá einasti gjaldstofn, sem lagt er á, og þó ríkissjóður hafi fleiri úrræði til álagningar, þá nær hann ekki inn sköttunum nema meðan gjaldþolið leyfir. Enda koma skattar hans oft þyngst niður á þeim, sem minst hafa gjaldþolið. Afleiðingin er sú, að ríkissjóður missir talsvert af þessum tekjum. En bæjarfjelög og hreppsfjelög hafa að því leyti tryggari tekjustofna, að þau leggja á skatta eftir efnum og ástæðum, og hafa einnig betur í hendi sjer að ná sínum sköttum inn. Og þó að bæjarfjelag Reykjavíkur vilji ekki veita fje til hinna ýmsu skóla í bænum af því að þeir sjeu landsskólar, þá hefir það þó hispurslítið notað rjett sinn til þess að skattleggja Eimskipafjelag Íslands, af því að það hefir aðsetur hjer í bænum, þó það vitanlega sje landsstofnun. Þennan rjett sinn tæmir það meira en miskunnarlaust, en neitar jafnframt öllum hliðstæðum skyldum. Í þessu kemur ekkert þjóðarvíðsýni fram, heldur þröngur sjóndeildarhringur bæjarins. Jeg veit ekki til þess, að neitt hjerað úti á landi hafi mótmælt að styðja sem því ber þær stofnanir, sem tilheyra því sjerstaklega. Því það gildir alveg sama um þessa skóla hjer í bænum og hjeraðsskóla, að þeir verða til miklu meira gagns þeim stað, þar sem þeir starfa.

Hæstv. fjrh. mintist á mentaskólann í þessu sambandi. Jeg nota því tækifærið til að minna á það, að hæstv. fjrh. hefir einnig gengið inn á þessa skoðun nefndarinnar hvað hann snertir, þar sem hann hefir verið fylgjandi því, að gera mentaskólann að óskiftum skóla. En afleiðingin af því yrði sú, að Reykjavík þyrfti þá að kosta sinn gagnfræðaskóla. Hæstv. fjrh. veit það líka vel, að í mentaskólanum — er jeg tók sem dæmi — og ýmsum öðrum þeim skólum, er nefndin vill láta bæinn styrkja, er ekki helmingur nemenda búsettur utan Reykjavíkur. Það er því bæði rjettlætis- og sanngirniskrafa, að bærinn greiði sinn hluta til þeirra. Þykir mjer leitt, að hæstv. fjrh. er í þessum skólamálum frekar þm. Reykjavíkur en fjármálaráðherra landsins.

Það, sem jeg hefi sagt um kvennaskólann, má ekki taka þannig, að nefndin álíti hann ekki nauðsynlegan og góðan skóla, enda hefi jeg ekki talað nema hlý orð í hans garð. Þingið hefir það hlutverk á hendi að verja ríkissjóð fyrir ágangi einstaklinga, bæjarfjelaga og hverra annara, sem tilraunir gera til þess að gera sjer hann að fjeþúfu. Mjer finst þetta vera ein af fremstu skyldum þessa þings. Bæjarfjelögin verða nú að styðja ríkissjóð, hjálpa með alúð til að stöðva fall hans og þannig vinna að þjóðarheillum. Og jeg efast alls ekki um, að þetta bæjarfjelag geti það. Það hefir nýlega lagt hundruð þúsunda í landakaup, er ekki sýnast bráðnauðsynleg; miklu fremur líklegt, að þau kaup sjeu gerð á óheppilegum tíma og að landið falli fremur í verði en hitt. En þetta bæjarfjelag vill ekki rjetta hönd til að ljetta undir með þeim skólum, sem tilheyra því og það telur nauðsynlega.

Hæstv. fjrh. gat um það viðvíkjandi kvennaskólanum, að betra hefði verið að orða þetta svo, að styrkurinn kæmi annarsstaðar frá. Já, það má vel vera, en í raun og veru kæmi það þó annarsstaðar frá úr bænum, og yrði þá skólanum haldið uppi af honum. Það var síðasta verk hæstv. fjrh. sem óbreytts þm. að gera brtt. um kvennaskólann í Reykjavík, sem fer fram á hækkaðan styrk, hærri en hann hefir nokkru sinni verið útborgaður. 1920–1921 var áætlað til skólans 14 þús. kr., en útborgað yfir 25 þús. Þetta var nefndin ekkert sjerstaklega að setja út á. En hitt telur hún ekki rjett, að þegar verið er að draga úr öllum kostnaði við skólahald, og liggur við að verði að fresta því, að fara þá að leggja til þessa skóla 4 þús. kr. framyfir það, sem nokkru sinni hefir verið veitt til hans. Nefndin hefir líka lagt til að lækka styrk til annars skóla, sem er hliðstæður þessum. kvennaskólans á Blönduósi; en það minnist hæstv. fjrh. ekkert á. Þetta gerði nefndin til að fylgja samræmi, jafnvel þó nokkur hluti hennar álíti fyrirkomulag þess skóla heppilegra og hollara en kvennaskólans í Reykjavík. Hæstv. fjrh. álítur þó rjett að lækka á honum, en hækka á Reykjavíkurskólanum.

Hæstv. fjrh. mintist á Fiskifjelagið. Honum þótti fara ærið mikið fje til stjórnar og starfsmanna, og taldi það ekki vel farið. Jeg veit ekki, hvort þetta er rjettilega athugað, en jeg vil taka það fram, að þetta fjelag hefir margvíslegan kostnað, sendir menn víðsvegar og hefir ýmsar tilraunir með höndum, sem verður að leggja mikið í kostnað við án þess að sjá neinn árangur fyrst í stað. En það er alls ekki hægt að meta störf þessara manna fyr en eftir óákveðinn tíma. Störf eins manns geta hæglega margborgað allan kostnað, sem fjelagið hefir lagt út í þessu skyni.

Þá er hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Hann tók í sama streng um iðnskólann og hæstv. fjrh., og þarf jeg því ekki að svara honum sjerstaklega. Þá mintist háttv. þm. á nokkra liði í till. nefndarinnar, sjerstaklega 98.–109. lið, um það að fresta prentun Alþingisbókanna, til dansk-íslenska fjelagsins o. s. frv. Mjer virðist það gagn, sem má verða að Alþingisbókunum, alls ekki vera útilokað, þó að frestað sje í svipinn að gefa þær út. Þær eru helst fyrir sögumenn, og geta þeir haft aðgang að þeim, þó þær sjeu óprentaðar.

Þá kem jeg að gjöldunum til framkvæmda jarðræktarlaganna. Það, sem öllum kemur saman um, að mesta áherslu beri að leggja á, er einmitt það, að auka framleiðsluna, og það verður ekki með öðru fremur gert en að auka ræktun landsins. Því kom nefndinni líka saman um, að síst bæri að spara á þessum lið, enda hafa borist hvaðanæva kröfur um þetta. Og nefndin sá sjer ekki annað fært en að taka þennan lið, því annars mætti segja, að brotin hefðu verið lög á landsmönnum, lög, sem þingið hefir samþykt ekki alls fyrir löngu og komin eru í gildi.

Þá mintist sami háttv. þm. á baðlyfin eða kostnaðinn við fjárkláðalækningar. Það kann vel að vera, að dregið sje úr þörfinni á þessum lið nú, en nefndin sjer enga ástæðu til að hafa þennan lið í óvissum gjöldum, þar sem vitanlegt er, að hann er orðinn fastur útgjaldaliður. Jeg veit það líka, að víða að berast raddir um það, hvað mikið þurfi að gera til að kveða fjárkláðann niður. En hvað mikil brögð sjeu að honum sem stendur, veit jeg auðvitað ekki með vissu. En væntanlega verður ekki langt að bíða þar til útrýming hans verður tekin föstum tökum, og þetta er aðeins þangað til, og má vera að liðurinn sje of hátt áætlaður. Háttv. þm. tók fram, að baðlyf lægju hjer, og þá líklega í Reykjavík, fyrir 50 þús. kr. Baðlyfin voru keypt samkvæmt ráði dýralæknis, því það þótti tryggara. Síðan hafa þau verið notuð. En þess munu dæmi, að þau hafi drepið fje, en látið færilýsnar lifa. Jeg veit ekki, hvað hæstv. stjórn hefir gert til þess að kenna mönnum að nota lyf þessi, t. d. með útgáfu leiðbeininga. En ef þau baðlyf liggja nú enn hjer í Reykjavík fyrir um 50 þús. kr., þá tel jeg, að stjórnin fari óforsvaranlega með þau.

Þá var það fjeð, sem ætlað er, að til markaðsleitar gangi. Þá upphæð þótti hv. þm. nefndin hafa áætlað of háa. Ef hann álítur, að þær markaðsleitir, sem þegar hafa verið gerðar, sjeu tæmandi, þá er það auðvitað rjett, en annars ekki. En það getur altaf til þess komið, að mikið þurfi að gera til þessa, og því getur varla talist rangt að fara þetta hátt. Enda hefir það sýnt sig, að sumir háttv. þm. vilja setja lið þennan enn hærri.

Þá kem jeg að leiðbeiningarmanni við húsagerð til sveita. Mjer fanst hv. þm. vera allharðorður í garð þessa manns. Að vísu er það satt, að hann var seinn til að gefa skýrslu um starf sitt. Kom hún fyrst í desembermánuði, og hefi jeg nú lesið hana. Þar getur hann þess, að hann hafi minst á það við fyrverandi atvrh. (KlJ), að hann hafi verið að fást við tilraunastarfsemi heima hjá sjer, og hafi því ekki getað farið leiðbeiningarferðir út um land, enda ekki sjerstaklega óskað eftir honum. Jeg held nú ekki, að það skifti miklu máli, hvar tilraunirnar eru gerðar. En ýmsra dómur er það, að hann hafi þegar fundið ýmislegt, sem til bóta horfir í húsagerð, en sem áður hefir verið leitað að eða verið óreynt. Hefir hann líka tekið fram. Í skýrslu sinni ýmislegt, sem hann telur að horfi til bóta, og er jeg því fullviss, að starf hans sje hið gagnlegasta. Enda býst jeg við, að andmæli hæstv. fyrv. atvrh. (KlJ) hafi stafað af því, hvað skýrsla þessa manns kom seint, en ekki af hinu, að hann telji starfsemi hans lítils virði.

Háttv. sami þm. (KlJ) gerði lítið úr því, að þóknun fyrir þennan starfa rynni í ríkissjóð. Jeg tel þó talsverðar líkur fyrir því, að sú verði raunin á. Þessi maður hefir tekið fram í skýrslu sinni, hvað hann hafi gert utan þeirra tilrauna í húsagerð, sem hann hefir gert hjá sjálfum sjer. Hann hefir gert teikningar að tíu íveruhúsum og öðrum húsum í sambandi við þau. Og hann hefir fengið beiðni frá 5 mönnum um að hafa eftirlit með byggingu húsa, sem þeir ætla að reisa næsta sumar. Þetta sýnir, að ennþá er viðleitni uppi til sveita að bæta húsakynnin, þrátt fyrir fjárhagsörðugleikana, og þarf heldur að lyfta undir þá viðleitni en hitt. Og óviðkunnanlegt finst manni það, að um leið og stjórnin leggur til, að starf þessa manns sje lagt niður, þá greiðir hún laun aðstoðarmanni húsagerðarmeistara ríkisins, sem gerir ýmislegt, sem ríkinu ber engin skylda til að kosta, svo sem uppdrætti að læknisbústöðum o. fl., án þess að ríkinu komi nokkur borgun fyrir það.

Hv. þm. Str. (TrÞ) hefir þegar andmælt ýmsu, sem haft hefir verið á móti till. fjvn. Jeg vil samt leyfa mjer að fara lengra út í sumt af því. Kem jeg þá fyrst að skrifstofukostnaði biskups. Það má vera, að nefndin hafi áætlað hann helst til lágan. En þess er þó að geta, að einmitt í þessu atriði hafði nefndin glöggar upplýsingar að fara eftir, þar sem einn af þeim, sem sæti eiga í nefndinni, hefir áður um langt skeið verið mjög handgenginn þeim störfum, sem undir biskupsskrifstofu heyra, svo að segja má, að hann hafi alist upp með þeim. Og hann áleit, að komast mætti af með þessa upphæð. Sjálfur hefi jeg auðvitað enga sjerþekkingu á þessum málum, en nefndin áleit, að óhætt væri að taka fult tillit til þessara upplýsinga, og því heldur hún sjer við þessa tölu.

Þá er það aukakennarinn við háskólann. Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) taldi það vera samningsbrot gagnvart þeim manni að taka hann af fjárlögunum. Í þessu sambandi get jeg mint á það, að á þinginu 1921 kom fram frv. um að gera mann þennan að föstum starfsmanni við háskólann. Þær ástæður voru taldar liggja fyrir frv., að fjvn. hefði þá þegar lofað honum starfinu áfram. Þessu var þá harðlega mótmælt, og ekki síst af hv. þm. Borgf. (PO). Frv. þetta var felt með miklum atkvæðamun. Og jeg býst heldur ekki við, að hæstv. stjórn sje þeirrar skoðunar, að hún eigi að greiða fje aðeins eftir því, sem fjvn. hefir lagt til. Sú ástæða er því fallin. Því þó þingið taki mann inn í fjárlög, þá nær sú skuldbinding þingsins ekki lengra en til þess tíma, sem fjárlögin gilda. Þingið setur ein lög þennan daginn og önnur hinn daginn. Og hafi þessi maður, sem hjer á hlut að máli, verið látinn segja af sjer öðru starfi, til að takast þetta á hendur, þá ber þingið enga sök á því. Hafi fjvn. fengið hann til þess með loforði um að hann fengi að halda starfi sínu við háskólann áfram, þá hefir hana brostið alla heimild til þess.

Enga ástæðu sje jeg heldur til þess, að þessu atriði verði frestað til 3. umr. Og að nokkur lítilsvirðing frá hálfu nefndarinnar á þessum manni eigi sjer stað, eins og hv. þm. V.-Sk. (JK) gat til, þá verð jeg fastlega að mótmæla því. En okkur fundust störf hans vera mjög lítil, og þó hann hafi á þessu tímabili gefið út nokkur vísindarit, þá staðfestir það þetta sama, og eins myndi hann hafa getað gert það, þó hann hefði ekki verið við háskólann.

Því, sem hæstv. forsrh. (JM) sagði um skólana, hefir þegar verið svarað. Þess má geta, að nefndin var mjög samhuga um þetta atriði og eins um það að láta ákvæðið ekki ná nema til Reykjavíkurskólanna.

Hæstv. forsrh. (JM) vítti það, að styrkurinn til Jóhannesar L. Jóhannssonar orðabókarhöfundar yrði lækkaður. En nefndin gekk út frá, að hann fengi sjer annað starf samhliða orðabókarstarfinu, og styrkurinn var miðaður við styrk, sem annar maður, sem líkt stendur á um, hefir í fjárlögunum.

Þá taldi hæstv. forsrh. hina mestu fjarstæðu að lækka fjárveitinguna til veðurathuganastofunnar. Það er satt, að við urðum að taka þennan lið á okkur við sambandslögin. En við eigum samt ekki að veita meira fje í þessu skyni en þörf er á. Og jeg get gefið þær upplýsingar, að einmitt þennan lið hafði nefndin tekið til sjerstakrar athugunar og komist að þessari niðurstöðu eftir samkomulagi við forstöðumann veðurathuganastofunnar. Nefndin taldi, að hægt væri að hækka tillagið til veðurfarsbókanna, og eins hjelt hún, að meiri samvinna við landssímastjóra um veðurskeytin gæti komið til greina, og gæti þá forstöðumaðurinn komist af án aðstoðarmanns.

Jeg skal ekkert um það segja, hvort eftirlit er haft með starfseminni á ýmsum ríkisstofnunum hjer í bæ og hvort óþarfir menn sjeu þar ekki einhversstaðar. En jeg býst fastlega við, að svo sje. Og jeg veit heldur ekki, hversu mikið starf hæstv. forsrh. ætlar þeim manni, sem hjer er um að ræða, að vinna, en nefndin ætlast til, að það sje fullkomið starf. Mun nefndin ekki hörfa frá sínum tillögum um þetta. Jeg skil ekkert í því, ef formaður veðurathuganastofunnar hefir farið að kvarta yfir þessu, eftir að hann hafði þó talað við nefndina og fallist á, að þetta mætti svo vera, sem nefndin leggur til.

Þá sný jeg máli mínu til hæstv. atvrh. (MG). Hann mintist líka á kvennaskólann, og gat nú gefið þær nýju upplýsingar í þessu máli, að hann hefði átt tal um það við borgarstjóra hjer, og hefði hann sagt, að ekki kæmi til mála, að bærinn greiddi neitt til skólans. Auðvitað. Engum datt í hug, að hann mundi segja annað. Og fyrir nefndina er þetta engin ástæða.

Þá talaði háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ) um bryggjuna á Ísafirði. Hann sagði, að ef bærinn yrði ekki búinn að koma þessari bryggju upp fyrir 1. jan. 1925, þá yrði hann að borga 1000 kr. í sektir mánaðarlega þangað til henni væri lokið samkvæmt gerðum samningi. Þegar jeg sá þessa brtt., varð mjer að hugsa: Hvar koma þeir fyrir þessari nýju bryggju?

Mjer finst ekki þurfi á að bæta, þar sem svo vel er fyrir sjeð áður. En þá er þessi samningur frá því er bærinn keypti Hæstakaupstaðinn. Þetta, að stjórnin hafi lagt þessa skyldu á bæjarfjelagið, með því er hún samþykti þennan gerning bæjarstjórnarinnar, nær vitanlega engri átt. Þá sagði þessi háttv. þm. (SigurjJ), að ríkissjóður þyrfti ekki að borga neitt út þó þessi styrkur væri veittur. Þetta skil jeg svo, að bærinn hafi sjálfur nóg fje til verksins, því hjer er ekkert verið að ganga að bænum af hálfu ríkissjóðs að greiða nú skuld sína. Og á meðan getur bærinn varið fjenu til þessa bryggjuverks, ef honum sýnist. Löggjafarvaldið tekur enga ábyrgð á gerðum stjórnarinnar hvað viðkemur þessum kaupsamningi. Til þess getur hún sjálf svarað, en þingið ber hjer enga skyldu. Það er líka nokkuð hart, að hugsa til þess að taka stórfjárhæð til þess að gera slíkt mannvirki á þessum stað, þar sem þess er alls engin þörf. En á hundra stöðum umhverfis alt land er hin brýnasta þörf slíkra mannvirkja, sem engin tök verða fyrst um sinn að bæta úr.

Þá kem jeg að ræðu háttv. 4. þm. Reykv. (MJ). Hann talaði um ritfje biskups, sem líklegt var, en því þarf jeg engu frekar að svara. Það stendur fast, sem jeg hefi áður sagt um það atriði. Þá mintist hann á kvennaskólann og yfirsetukvennaskólann. Hann gleymdi ekki 50 ára afmæli kvennaskólans og lagði til, að hann yrði gerður að ríkisskóla. Áður var þess getið hjer við umræðurnar, að einkaskólarnir væru reknir á praktiskari hátt en ríkisskólarnir, og verður það því að teljast óheppileg breyting á einkaskóla að gera hann að ríkisskóla, þar sem svo stendur á. En þetta á að gera bara til þess að koma bænum undan því að þurfa að leggja nokkurt fje til skólans. Það gerir þá ekkert til, þó skólinn komi til með að kosta hálfu meira á þann hátt. Jeg get sagt háttv. 4. þm. Reykv., að til er annar kvennaskóli, sem líka á 50 ára afmæli um þetta bil. (MJ: Mælti jeg með því að gera kvennaskólann að ríkisskóla?). Já, háttv. þm. mælti með því hjartnæmum orðum. Hann gleymdi ekki heldur þessari rausn Reykjavíkurbæjar, að leggja skólanum 500 kr. Þá talaði háttv. þm. (MJ) um Blönduósskólann og þau ósköp, að þar ætti að hækka námsstyrkinn. En þess ber að gæta, að vegna þeirrar breytingar, sem nýverið var gerð á fyrirkomulagi skólans, þá hefir fækkað tölu þeirra nemenda, sem hægt var að veita viðtöku. Svo að styrkurinn úr ríkissjóði hækkar ekki um eina krónu, þó till. nefndarinnar verði samþykt. Þetta er aðeins til þess, að notið verði þess námsstyrks, sem skólanum hefir verið ákveðinn.

Þá mintist þessi sami háttv. þm. á Jóhannes Lynge og Guðmund Bárðarson og sáttmálasjóðinn. Jeg hefi áður svarað hvað viðvíkur Jóhannesi Lynge. En styrkinn til Guðm. Bárðarsonar taldi nefndin rjett að fella niður, með því að það var upplýst, að þessi styrkur gat ekki komið að gagni sem vísindastyrkur. Jeg gat þess áður í þessu sambandi, að sáttmálasjóður ætti að styrkja slíka vísindastarfsemi. Hann hefir úr vissum tekjum að spila og getur veitt á hverjum tíma eftir sínum efnum. En ríkissjóður verður í hvert sinn að fara eftir breytilegum fjárhag sínum, og það er jafnframt fyrir getuleysi ríkissjóðs, að nefndin. leggur til, að slíkir styrkir falli niður, því ella þyrfti að hækka hann töluvert, til þess að hann kæmi að notum.

Þá talaði þessi sami háttv. þm. um styrkinn til Þórarins Guðmundssonar fiðluleikara, og taldi órjettmætt, að hann fjelli niður. Það er síður en svo, að jeg vilji fullyrða, að alt sje fyllilega rjettmætt, sem nefndin hefir lagt til. En jeg tel það rjettmætt frá því sjónarmiði, sem nefndin hefir skoðað þessi atriði öll, sem sje: ríkisfjárhagnum. Hún leit svo á í þessu tilfelli, að hjer væri ekki um svo mjög nauðsynlegt mál að ræða, enda lá engin skýrsla fyrir um það, hvernig því skilyrði hafi verið fullnægt, sem sett hefir verið að undanförnu fyrir styrk þessum. En það þykir nú líklega óþarfi. — Jeg hefi áður talað um leiðbeiningu við húsagerð í sveitum og þarf ekki við það að bæta. Viðvíkjandi uppgjöf á láni til Ólafs Hvanndals myndamótara, þá er því að svara, að þingið hefir áður veitt honum nokkurn greiðslufrest, og eftir því sem nefndin gat kynt sjer það mál, þá mun engin sjerstök nauðsyn á uppgjöf eða frekari greiðslufresti í þessu falli.

Þá kem jeg næst að háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ). Hann talaði hóflega og skynsamlega. Og hann gerði meira: hann tók brtt. sína aftur, því hann taldi rjettmætt að fresta henni vegna fjárhagsástands ríkisins.

Háttv. þm, Ak. (BL) talaði líka um styrkinn til Guðmundar Bárðarsonar. Jeg tek undir það, að nefndinni er kunnugt um, að kringumstæður þessa manns eru þröngar. Og eins og jeg hefi áður sagt, er það ekki af því, sem nefndin hefir lagt til, að styrkurinn fjelli burtu, að maðurinn hafi hans ekki þörf. En henni þótti önnur leið eðlilegri til þess að hjálpa þessum manni en að veita honum þennan vísindastyrk, sem víst er, að hann getur ekki notað.

Hvað snertir styrkinn til heimilisiðnaðar, þá var það misskilningur hjá hv. þm. (BL), er hann sagði, að ekki væri hægt að sjá, hvert sá styrkur ætti að fara, að undanteknum 2000 kr. til Halldóru Bjarnadóttur. Styrkur þessi er veittur Heimilisiðnaðarfjelagi Íslands, og nefndin gerir aðeins þessa athugasemd, að af honum gangi 2000 kr. til Halldóru Bjarnadóttur.

Þá mintist hann á fjárveitingu til kláðaútrýmingar, og kom fram allmikill metnaður í ræðu hans fyrir hönd bænda í þessu atriði. Það er náttúrlega gott að heyra slíkar raddir. En samræmið brestur, þegar farið er að bregða bændum um, að þeir hafi látið kláðann haldast við af tómu hirðuleysi. Þessu vil jeg mótmæla. Það er ekki hirðuleysi, sem hjer er um að kenna; heldur er það svikið baðlyf, einkum á stríðstímanum, sem haldið hefir við kláðanum. Nú verður að fá örugt baðlyf, svo að gagni verði.

Þessu næst talaði hv. þm. Ak. (BL) um styrk samkvæmt jarðræktarlögunum og styrk til búnaðarfjelaganna. Jeg skildi hv. þm. svo, að það ætti að vera sá metnaðarhugur í bændum, að þeir þægju ekki borgun fyrir jarðabætur, sem þeir gerðu á sínu eigin landi. Jeg lít öðruvísi á. Jeg tel, að ríkinu beri skylda til þess að styðja ræktun landsins, og það verður ekki gert á annan hátt en þann að gjalda bændum fyrir það, sem þeir afkasta í þessu efni. Í nágrannalöndunum er það ekki talinn neinn vansi fyrir bændur að þiggja styrk til slíkra starfa, og þá ætti það ekki frekar að vera minkun íslenskum bændum. Þetta, sem fram kom hjá háttv. þm. (BL), var falskur metnaður. En þessi styrkur á að vekja annan metnað hjá bændum, þann metnað, að afkasta ekki minnu til ræktunar á sinni jörð heldur en aðrir.

Styrkurinn til búnaðarfjelaganna er nú svo lítill, að álitamál er, hvort ekki ætti að fella hann alveg. En þessi styrkur hefir verið vel metinn alla tíð. Og þegar komið hefir til mála að fella hann niður, hafa hvaðanæva komið raddir til þess að mótmæla því. Taldi nefndin því ekki rjett að fella hann niður nú. Þó hann sje lítill, getur hann komið að talsverðu liði með því að ljetta undir með mönnum að kaupa verkfæri og á annan hátt.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði um kostnað við ljós og hita á Hólum og þótti hann fullhár í samanburði við Eiða- og Hvanneyrarskóla. Jeg held, að nefndin hafi ekki farið hærra hjer en annarsstaðar tiltölulega. Og eftir því sem hún gat komist næst, þá verður að telja þetta hæfilegt. Hjer er um að ræða mikla erfiðleika um aðdrætti. Líka er mótak að þverra á Hólum, og eyðast þá því meiri kol. Jeg veit ekki, hvernig á stendur í þessu efni á hinum stöðunum, en sje þar um mótöku að ræða, þá gegnir þar líka alt öðru máli. Annars fór nefndin hjer eftir því, sem reynslan hefir sýnt, að eyðst hefir undanfarið og ekki verður hjá komist.

Þá er styrkurinn til Leikfjelags Reykjavíkur. Hv. 1. þm. S.-M. þótti það engin goðgá að krefjast framlags af Reykjavíkurbæ, því hann gerir tillögu um, að hann styrki fjelagið frekar en áður. Hann er sá fyrsti af hv. þm., sem viðurkennir stefnu nefndarinnar gagnvart bæjarsjóði. En það er langt frá, að það sje af hlífð við bæjarsjóð, þó nefndin hafi ekki krafist frekara framlags til fjelagsins. Henni þótti þetta, sem er, nokkuð hæfilegt og bæjarsjóður taka þar frekari þátt í en annarsstaðar. Hún vill því láta þetta vera óbreytt í frv.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) talaði um kvöldskóla verkalýðsfjelaganna hjer í Reykjavík og styrk til hans, sem er nú ekkert nýtt. En hitt var nýtt, sem hann skýrði frá í þessu sambandi, að bæjarsjóður ætlaði að styrkja þetta góða fyrirtæki. Nefndin telur samt ekki fært fyrir ríkissjóð að styrkja þennan skóla, eins og á stendur, og býst við, að bæjarsjóður muni halda honum uppi svona fyrst um sinn á sitt eindæmi.

Þá flytur þessi háttv. þm. (JBald) aðra brtt. um það að hækka styrk til Þórðar Flóventssonar, til leiðbeiningar við laxa- og silungaklak. Nefndin hefir ekki viljað leggja á móti þessu atriði, og hafa því nefndarmenn óbundin atkvæði um það. Jeg fyrir mitt leyti tel, að hann hafi sýnt svo mikinn áhuga og viðleitni í þessu verki, að rjett sje, að hann beri meira úr býtum en stjórnin hefir áætlað, enda er hjer um smáupphæð að ræða.

Þá mintist hv. sami þm. á Þjóðmenjasafnið. Þótti honum lækkunin nokkuð mikil og taldi, að aðsóknin mundi rjena við það, að styttur væri sá tími, sem safnið væri opið vikulega. En jeg sje ekki, að nefndin þurfi neinn kinnroða að bera fyrir þessa till. sína, því að jeg lít svo á, að margt verði að gera nú til sparnaðar, sem komi ver niður en þetta. Þar sem hv. þm. mintist á lækkun launa þeirra, er við safnið starfa, vil jeg taka það fram, að nefndin lítur svo á, að geti þeir hinir sömu ekki sætt þeim kjörum, þá verði þeir að útvega sjer einhver önnur störf. Er það altaf svo, þegar spöruð eru laun eða embætti, að einhver bíður við það óþægindi. Og ætti að sigla fyrir þau sker, er hætt við, að sparnaður yrði ekki mikilvægur á þessu þingi.

Þá mintist sami hv. þm. á sparnaðinn við veðurathuganastöðina. Finst mjer það þurfa lítilla svara, því að það mun öllum ljóst, að ennþá hefir ekki orðið það gagn að veðurspám, að ekki sje forsvaranlegt að lækka að sinni styrk til stöðvarinnar.

Um fallbyssuna á Þór er það að segja, að alment mun vera skoðun manna, að hún sje nauðsynleg og skipið komi ekki að hálfu gagni meðan hana vanti. En annars hygg jeg, að hv. 2. þm. Reykv. þurfi ekki að vera hræddur við fallbyssu þessa, að minsta kosti ekki enn sem komið er, meðan hún er ekki komin á skipið.

Þá kem jeg að styrknum til Ingeborg Sigurjónsson. Jeg verð þar því til að svara, að nefndin hefir heyrt þennan orðróm, og býst jeg við, að hv. þm. hafi svipaðar heimildir um sannindi hans og eigi betri. Annars er jeg því máli alveg ókunnugur, þó að jeg sje í nefndinni.

Næst mintist hv. 2. þm. Reykv. á niðurfelling styrksins til Þórbergs Þórðarsonar. Sagði hann, að fjarri væri sanni að fella niður starf, sem svo væri langt á leið komið sem orðasöfnun Þórbergs. Við nefndarmenn viðurkennum það fyllilega, að eitthvert gagn kunni að vera að starfinu. En hvað mörg óunnin störf eru fyrir hendi á þessu landi miklu brýnni en þetta? Hve mörg manndrápsvötn eru óbrúuð, vötn, sem öðruhvoru taka mannslíf í skatt af þjóðinni? Þau eru ærið mörg ennþá, og lengi mætti slíkt telja, uns tæmt yrði. Hjer eru alstaðar óuppfyltar kröfur og óunnin verkefni. En fjárhagsmáttur þjóðarinnar er ekki svo mikill, að hún geti öllu annað. Jeg sje því ekki, að nefndin drýgi neina goðgá, þó að hún leggi til, að þessi styrkur til orðasöfnunar falli niður um hríð. Hafi maðurinn brennandi áhuga á starfi sínu, sem jeg efast ekki um, getur hann í hjáverkum sínum haldið þeim samböndum sínum úti um land, sem hann þegar hefir fengið, og unnið úr því verkefni, sem honum berst að. Er það þá ekki fyrsta þjóðnytjastarfið, sem unnið hefir verið fyrir lítið hjer á landi.

Það kann að hafa verið fleira, sem hv. 2. þm. Reykv. mintist á, en jeg læt hjer staðar numið og sný mjer að hv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann mintist fyrst á smjörlíkisgerðina þar eystra. Ríkissjóður lánaði á sínum tíma fje til þess fyrirtækis, en ekki verður sjeð, að nein sanngirni mæli með því, að hann gefi upp þá skuld, þó að síðar væru, er nauðsyn þótti, sett lög, er komu þessu fyrirtæki illa. Er og líklegt, að eigendur smjörlíkisgerðarinnar sjái sjer fært að flytja hana þaðan, sem hún nú er, ef hún er líkleg til að gefa af sjer góðan arð. Sje svo ekki, sannar það ekki annað en að ríkissjóður hefir glæpst á að lána fje til fyrirtækis, sem óheppilega var til stofnað. En þrátt fyrir það, er engin ástæða til að gefa upp skuldina.

Sami hv. þm. mintist á, að nefndin hefði klipið af launum garðyrkjustjóra, og taldi hann það illa ráðið. En nefndin verður að líta svo á, að maður, sem vinnur að slíku starfi, hljóti að geta aflað sjer allmikilla aukatekna. Býst jeg líka við, að Búnaðarfjelag Íslands mundi sjá sjer fært að veita honum einhvern styrk, ef þess gerðist þörf.

Næst voru iðnskólinn og skólinn í Bergstaðastræti. Þarf jeg þar ekki að segja annað en það, að nefndin taldi bænum skyldast að styrkja þessa skóla, þar sem þeir eru að mestu leyti fyrir hann, eins og jeg hefi áður tekið fram.

Um ungmennafjelögin og íþróttasambandið vil jeg taka það fram, að nefndin viðurkennir fyllilega starf þeirra fjelaga, en sá sjer ekki annað fært en klípa þar af í samræmi við annað.

Hv. þm. V.-Sk. (JK) setti út á það, að nefndin hefði kvatt Alexander Jóhannesson með vanþakklæti. Þetta er ósatt og á sjer engan stað. Hún hefir aðeins tekið það fram, að starf hans hafi verið lítið, og það hafa margir gert áður.

Þá er kvennaskólinn hjer í Reykjavík. Virðist svo sem sumir þm. viti ekki, að til sje annar kvennaskóli á landinu. Blönduósskólinn þykir líklega of sveitalegur til þess að vera talinn með. (MJ: Er hann almennur kvennaskóli?). Hann er almennur kvennaskóli og fyrst og fremst almennur hússtjórnarskóli, kennir einmitt það, sem hver kona þarf fyrst og fremst að kunna. Og jeg býst við, að fá hjeruð hafi styrkt skóla sína eins vel og Húnavatnssýsla þann skóla. Sækja hann þó námsmeyjar alstaðar utan af landi. En það er ekki til neins að verja, að kvennaskólinn hjer í Reykjavík er fyrst og fremst skóli fyrir bæinn, hvað sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) segir.

Þá er það, sem minst var á styrkinn til blaðamannafjelagsins. Er þar nokkuð skotið fram hjá markinu, því að nefndin hefir einmitt lagt til, að ríflegur styrkur verði veittur til frjettastofu þess.

Um 40 þúsund króna styrk til Þórs þarf jeg ekki að fara mörgum orðum, því að tillaga um þá fjárhæð liggur alls ekki fyrir, svo að um hana verða ekki greidd atkvæði hjer í deildinni.

Næst kem jeg að hv. þm. Barð. (HK). Og um það, sem hann mintist á, langaði mig einmitt til að fara nokkrum orðum. Get jeg þó ekki tekið það hjer til eins ítarlegrar athugunar og jeg vildi. Því miður hefi jeg orðið var við það úti um land, að menn eru margir hverjir afaróánægðir með, hve mikill styrkur er veittur Búnaðarfjelagi Íslands. Og einmitt þetta mátti heyra á hv. þm. Barð. En jeg býst við, að hann hafi ekki gert sjer nægilega ljósa grein fyrir málinu. Það ætti að liggja í augum uppi, að eigi að gera ítarlegar tilraunir til að stefna atvinnuvegunum í betra horf en nú, þá hlýtur það að kosta ærið fje, því að til þess þarf að gera rannsóknir og tilraunir, sem árangurinn af er altaf óviss fyrirfram. Aftur á móti þykir hverri menningarþjóð sjálfsagt að leggja kapp á slíkar rannsóknir og tilraunir. Munu villiþjóðirnar einar um hirðuleysi í þessum efnum. Vil jeg benda á, að ein áveita, sem einhver af ráðunautum Búnaðarfjelagsins kemur í framkvæmd, getur margfaldlega borgað á einu ári það fje, sem ríkissjóður leggur á mörgum árum til fjelagsins. (HK: En hvað hefir fjelagið þá gert?). Já, jeg þarf ekki annað en benda t. d. á áveitu þá, sem gerð hefir verið norður í Þingi í Húnavatnssýslu. Sú áveita hefir reynst svo vel, að gengið hefir framar vonum manna. En sú áveita virðist ekki hafa þótt merkileg eða mikils verð, líklega af því, að hún er ekki suður í Flóa eða einhversstaðar þar, sem mest hefir verið aðhafst, en minstur þó sjest árangurinn. En jeg þori að fullyrða, að áveitan í Þingi hefir borgað og kemur til með að borga mikið í því, sem Búnaðarfjelagi Íslands er árlega lagt til úr ríkissjóði. Og ef hv. þm. Barð. athugaði nægilega þetta mál, er jeg viss um, að enginn yrði fyrri til en hann að viðurkenna það ómetanlega þjóðargagn, sem leiðir af hverri slíkri framför í búnaði landsmanna. Er ærið hart að heyra, ekki síst á þessum tímum, æ háværari og háværari raddir um það, að því fje sje illa varið, sem varið er til aukinnar framleiðslu og vegs og gengis atvinnuvegum þjóðarinnar, sem framtíð hennar byggist á. Er það ærið skrítið, að menn, að óathuguðu máli, fullyrða, að þetta eða hitt verði að engu gagni — og þá er það ekki síður einkennilegt, að sje miklu fje varið til einhvers, þá á þar að hafa verið farið ráðlauslega með. Slíkur hugsunarháttur er rangur og skaðlegur, því að hann eitrar út frá sjer og vekur tortryggni og hleypidóma meðal almennings, sem ekki ber skyn á málin eða hefir tækifæri til að kynnast þeim.

Hv. 1. þm. N.-M. (HStef) þarf jeg ekki að svara löngu máli. Hann heldur því fram, að ullarverksmiðjur í hverjum landsfjórðungi sjeu heppilegri en ein fullkomin verksmiðja fyrir alt landið. Jeg er þarna alveg á gagnstæðri skoðun; tel fjórðungsverksmiðjurnar ekki eins heppilegar og hitt fyrirkomulagið. Reynslan hefir sýnt það, að þessu er ekki unt að halda uppi, og er það sameiginlegt álit þeirra manna, sem best vit hafa á þessu máli. Ef ein verksmiðja er til í landinu og vinnan er ódýr hjá henni, vex þá máske flutningskostnaðurinn í augum sumra manna, en hann verður þó lítið tilfinnanlegri en flutningur innan hjeraðs, eða milli hjeraða, ef sent er með skipum, þó að um lengri leið sje að ræða. Fjvn. gat því ekki talið rjettmætt, að ríkið tæki á sig þessa ábyrgð. En lánsheimild þá, sem háttv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ) bar fram, taldi nefndin ekki geta komið til mála. Ríkissjóður getur alls ekki lánað sem stendur, og auk þess telur nefndin þetta ekki vera heppilega leið, eins og jeg hefi þegar tekið fram. Þá nefndi hann fleiri atriði, sem jeg hefi þegar svarað og get því farið að enda þetta mál mitt. Það sem minst hefir verið á samvinnuskólann, þá hefir það orðið að samkomulagi í nefndinni að veita þetta, sem hún hefir lagt til, og mun jeg halda mjer við það. Það, sem háttv. þm. sagði viðvíkjandi húsagerð, er alveg í samræmi við álit nefndarinnar. Að sjálfsagt sje að auka á híbýlaprýði eftir föngum, játar nefndin líka; og þar sem sá maður, sem eftirlitið á að hafa, er talinn vera smekkmaður í því tilliti, mun hann vinna að því eins og hann hefir gert, og þarf því ekki að veita fje til þess sjerstaklega.

Jeg bið svo háttv. þingdeild afsökunar á því, hversu langorður jeg hefi orðið, en það er ekki gott við því að gera, þegar búið er að draga saman í heilan sólarhring það, sem athugavert hefir þótt í gerðum nefndarinnar, og jeg vona, að það hafi ekki áhrif á hugi manna, þó jeg kunni að hafa gert þá leiða með málalengingum, en jeg held fast við till. nefndarinnar og tel þær vera þær einu rjettu og að þær einar eigi háttv. deild að samþykkja, og aðrar ekki.