07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jón Þorláksson:

Mjer þykir leitt, að hæstv. stjórn hefir ekki sjeð sjer fært að koma fram með frv. til laga um að samræma bæjarstjórnarlöggjafirnar, eins og farið var fram á á síðasta þingi. Þó hinsvegar megi vel vera, að eitt ár sje fullstuttur tími til að leysa slíkt vandamál, sem hjer er um að ræða. En það finst mjer satt að segja eins og að fara í geitarhús til að leita ullar, ef spyrja á bæjarstjórnirnar um álit þeirra á málinu og eyða í það löngum tíma. Því telja má víst, að hver um sig vilji halda sínum lögum óbreyttum uns hún sjálf biður um breyting á þeim, sem raunar skeður æðioft; t. d. var svo um þrjá kaupstaði á síðasta þingi.

Hæstv. atvrh. (KlJ) taldi margt ósamræmanlegt í kaupstaðalöggjöfunum, en sjáanlega var þar margt óeðlilega ósamhljóða, þó staðhættirnir hljóti altaf að valda einhverju ósamræmi. Og hvenær sem samræmisstarfið verður hafið, má auðvitað ekki fara lengra en að svigrúm sje fyrir sjerstakar samþyktir hinna einstöku bæjarstjórna, sem nauðsynlegar kunna að vera, heldur aðeins ákveðið í lagaformi, hver atriði megi ákveða með samþykt og hvað skuli vera sameiginlegt öllum bæjarfjelögum.

Hæstv. atvrh. mintist ekki á þau atriði, sem reka mest á eftir, að komið verði samræmi á í þessu máli og háttv. allsherjarnefnd síðasta þings lagði mesta áherslu á. Er það fyrst, að mjög óviðurkvæmilegt virðist, að kosningarrjettarskilyrðin skuli ekki vera ein og hin sömu alstaðar, en eftir því, sem jeg veit best, eru þau nú þrennskonar í landinu. Virðist þó sjálfsagt, að sömu skilyrði gildi fyrir kosningarrjetti í sveitarstjórnarmál um um alt land, eins og kosningarrjettur til Alþingis er hinn sami alstaðar.

Annað höfuðatriði er það, sem snertir útsvarsskyldu utanhjeraðsmanna. Hafa sjerstaklega á því sviði komið sífeldar breytingakröfur frá kaupstöðunum, og fara, eins og eðlilegt er, allar í þá átt, að sjerhverri bæjarstjórn heimilist sem allra víðtækast vald til að leggja útsvar á utanbæjar- og utanhjeraðsmenn og fyrirtæki. En gæta verður þess að sje bæjarstjórnunum gefinn laus taumur í þessu efni, þá eru þeir menn, sem atvinnu stunda víðar en á einum stað, ofurseldir geðþótta niðurjöfnunarnefnda þeirra staða, þar sem þeir eru ekki búsettir og hafa enga aðstöðu til að gæta rjettar síns, því að bæjarstjórn þess kaupstaðar, sem á að fá útsvarið, hefir æðsta úrskurðarvald um það, hve mikið hann verður að gjalda í útsvar, og má það heita ósæmilegt rjettarástand. Rekur þetta mjög á eftir breyting á bæjarstjórnarlögunum og að samræmi verði á þau komið. Og það er ljóst, að þó hæstv. stjórn hafi ekki auðnast að ljúka því verki, þá er málefnið of mikilsvert til þess, að starfið hætti, heldur hlýtur það að verða tekið til undirbúnings og frv. um það efni lagt fyrir Alþingi til endanlegra úrslita. Verður þá og vonandi ráðin bót á misfellum þeim, sem jeg nú hefi nefnt.