07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg mun ekki ræða málið mikið nú; vonast til, að það gangi greiðlega til 2. umr. og nefndar. En jeg vildi aðeins geta þess, út af því, sem hv. samþm. minn (JÞ) sagði um ósamræmi hinna einstöku bæjarstjórnarlaga, sem samræma þyrfti, að jeg er honum sammála að því er snertir kosningarrjettarskilyrðin. En jeg held, að það yrði líka það eina, sem fullkomlega mætti koma samræmi á. T. d. er að minsta kosti með öllu ástæðulaust, að sama regla gildi alstaðar um það, hve langan tíma menn þurfi að reka atvinnu á einhverjum stað til þess að vera útsvarsskyldir. Það hlýtur altaf að fara eftir staðháttum. Það er vitanlegt um Siglufjörð, að aðalatvinnan stendur þar yfir aðeins örskamman tíma, og að þeir menn, sem hana reka og að sjálfsögðu bera mest úr býtum, sleppi algerlega útsvarslausir eða gjaldfrjálsir, nær ekki nokkurri átt. Hvað þetta frv., sem aðeins er viðvíkjandi Reykjavík, snertir, þá er ef til vill of langt gengið í þessu efni, og væri máske ástæða til að athuga það sjerstaklega, hvað væri heppilegt hjer að ákveða um. hve lengi menn þyrftu að reka atvinnu til þess að vera útsvarsskyldir. Verður það væntanlega athugað í hv. nefnd og kemur þá til 2. umr.

En yfirleitt má segja það, að ekki er hægt að samræma gjaldaákvæði einstakra kaupstaða nje sveitarfjelaga. Og þar sem bæjarstjórn Reykjavíkur er frv. þetta mikið áhugamál, væri það illa farið, ef það þyrfti að stranda á því, að ekki er búið að athuga, hvernig hægt sje að samræma bæjarstjórnarlöggjöfina, sem jeg býst við, að hafi litla þýðingu fyrir málið.