07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Magnús Torfason:

Það var út af orðum hv. 1. þm. Reykv. (JÞ), er hann drap á rjettarástand þeirra manna, sem búsettir eru utan hjeraðs þess, sem útsvar leggur á þá, að jeg kvaddi mjer hljóðs. Jeg vil leyfa mjer að strika undir orð hans um, að það sje alls óviðurkvæmilegt. Hver sá maður, sem lagt er á utan síns sýsluhjeraðs, hefir engan til að standa fyrir máli sínu, þó honum sje órjettur ger. Sje lagt á mann innan sýslu, stendur hann nokkuð betur að vígi, því þá getur hann snúið sjer til sýslunefndarmanns hrepps síns og látið hann tala máli sínu, en utan sýslu er hann rjettlaus. Sem bæjarfógeti og sýslumaður hefi jeg hvað eftir annað orðið þess var, að mönnum hefir þannig verið búið hróplegt ranglæti. Er það alls ekki sæmilegt, hvernig sumar bæjarstjórnir og sýslufjelög hafa oft og tíðum hagað sjer gagnvart utanbæjarmönnum hvað útsvör snertir. Þó undantek jeg bæjarstjórn Ísafjarðar, að minsta kosti meðan jeg var þar.

Sje jeg ekkert annað ráð en að menn, búsettir utan þess kaupstaðar eða sýslufjelags, sem á þá leggur, megi skjóta máli sínu til stjórnarinnar, og þá sennilega atvinnumálaráðherrans, sem þessi mál heyra undir. Þetta er eina lausnin, sem jeg hefi sjeð og sje enn á máli þessu.