07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þær almennu umræður, sem nú hafa farið fram, koma lítið við frv. því, sem er til umræðu. En hve lengi sem menn ræða um það, hygg jeg, að menn hljóti að komast að þeirri niðurstöðu, svo sem tekið hefir verið fram, að Reykjavík verður að hafa nokkra sjerstöðu um bæjarmálefni sín.

Gegn þessu frv. eða stefnu þess hafa engin andmæli komið, nema lítillega frá hv. þm. N.-Ísf. (JAJ), er benti á, að skattgjald þetta ætti einnig að ná til fasteigna ríkissjóðs. Jeg vil leyfa mjer að taka fram, að þetta má varla heita skattgjald, þar sem það er að mestu leyti endurgjald fyrir unnin störf. Það er ekki við því að búast, að ríkissjóður geti verið undanþeginn greiðslu sótaragjalds, hreinsunargjalds og fleiri þessháttar gjalda, sem eftir frv. eru falin í húsaskattinum. Að vísu er einnig lagt gjald á lóðir ríkissjóðs, en það mundi ekki nema svipað því eins mikilli upphæð og hv. þm. N.-Ísf. nefndi. Það yrði ekki nema fáar þúsundir, enda býst jeg við, að væntanlegri nefnd mundi ekki veitast erfitt að fá þá breytingu gerða á frv., að lóðir ríkisins væru skattfrjálsar. En um húseignirnar kemur ekki annað til mála en að greitt verði af þeim gjald fyrir unnið verk.

Það hefir verið minst á útsvarsskyldu utansveitarmanna og hvernig henni hefir verið misbeitt. Jeg hygg, að nú sje einna minst hætta á misbeitingu í þessu efni í Reykjavík. Niðurjöfnunin er nú komin í fastar skorður og framkvæmd eftir ákveðnum reglum, og ætti því að vera mest trygging fyrir því í Reykjavík, að ekki verði farið lengra í þessu en sómasamlegt er.