10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1358)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Klemens Jónsson: Þetta frv., sem hjer liggur fyrir, er ekki nýr gestur. Það lá fyrir þinginu í fyrra og var þá ekki útrætt. Var það komið fram að tilhlutun bæjarstjórnar, eins og lög gera ráð fyrir, og samþykti hún það með 12:1 atkvæði, eftir því sem hermir í greinargerð frv. Nú er það komið á ný frá bæjarstjórn, og eftir því, sem upplýst er í nál. háttv. minni hl., hefir bæjarstjórn enn samþykt það nærfelt í einu hljóði.

Eftir þeirri skoðun, sem jeg hefi á stjórn bæjarmála hjer á landi, að kaupstaðirnir hafi og eigi að hafa að lögum fullan sjálfsákvörðunarrjett í öllum innri málefnum sínum, þykir mjer fullkomlega eðlilegt og jafnvel sjálfsagt, að Alþingi samþykki frv. þetta, sem komið er fram eftir nærfelt einróma ósk bæjarstjórnar. Jeg gæti því vel fallist á að samþykkja frv. óbreytt. Hinsvegar hefir Alþingi formlegan rjett til að gera breytingar á frv., og er því næsta eðlilegt frá sjónarmiði þeirra, sem eru ekki ánægðir með frv., að þeir flytja brtt. við það. Nú liggja ekki fyrir margar brtt., nema um gjaldhæðina, en það er líka aðalatriðið. Svo virðist sem háttvirtri allshn. hafi þótt lóðagjaldið of hátt. Jeg verð að játa það, að öllu athuguðu, að það er áætlað í hæsta lagi af bæjarstjórninni — 2%. — Minni hl. vill lækka það niður í 1%, en meiri hl. í 0,8%, eða hafa það jafnhátt húsaskattinum. Það getur verið álitamál, hvort er nær sanni, en jeg tel rjettara að vera nær tillögum bæjarstjórnar, og mun jeg því hallast að till. minni hl. í þessu efni.

Að öðru leyti get jeg frekar fallist á tillögur meiri hlutans og tel þær að ýmsu leyti til mikilla bóta frá frv. bæjarstjórnar. Á jeg þar einkum við hina nýju grein um málskot til yfirskattanefndar. Jeg gat um það við 1. umr., að óheppilegt væri að hafa ekki æðra úrskurðarvald, sem gjaldendur gætu skotið úrskurði bæjarstjórnar til, ef þeir eru óánægðir með útsvar sitt. Jeg gat þessa af því, að mjer er kunnugt um, að margir bæjarbúar eru oft mjög óánægðir með úrskurð bæjarstjórnar og telja sig ekki hafa fengið rjettingu mála sinna. Það er því heppilegt að hafa æðra vald, sem menn geti áfrýjað til, ef þeir þykjast rangindum beittir. Það er rjett, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að bæjarstjórn er að ýmsu leyti aðili þessa máls, ekki einungis gagnvart utanbæjarmönnum, heldur og fullkomlega gagnvart innanbæjarmönnum. Þótti mjer því vænt um, að hv. meiri hl. hefir tekið þetta til greina og kemur með sjerstaka grein um það. Jeg hafði þó hugsað mjer þessu komið dálítið öðruvísi fyrir, að áfrýjunarrjetturinn væri bundinn við ákveðna upphæð. Þó að maður, sem greiðir nokkur hundruð krónur í útsvar, hafi ekki alveg hárrjett gjald í samanburði við aðra, þá verður það ekki talin ósanngirni, þó að hann greiði nokkrum krónum hærra en rjett væri, án þess að hann hefði tækifæri til áfrýjunar. En þegar útsvarið skiftir þúsundum eða jafnvel tugum þúsunda, þá gegnir nokkuð öðru máli. Jeg hafði því hugsað mjer rjettinn til áfrýjunar bundinn við einhverja upphæð, og hana ekki alllitla, t. d. 1000 kr. Það er auðvitað álitamál, hvar takmörkin ætti að setja, og mætti vel hugsa sjer þau hærri.

Jeg hafði einnig hugsað mjer, að hæstarjetti væri falið að skera úr þessu. Hann hefir ekki svo mikið að starfa, að honum ynnist ekki tími til að anna þessu, og jeg veit, að allir munu ásáttir um það, að þar megi búast við rjettlátum úrskurði. Meiri hl. hefir farið aðra leið, að fela yfirskattanefnd úrskurðarvaldið, og get jeg vel fallist á það eftir atvikum.

Sumir menn halda því fram, og það hefir komið fram hjá hv. frsm. minni hl. (JBald), að þetta sje óþarft, nema ef til vill gagnvart utanbæjarmönnum, en því verð jeg að vera ósamþykkur. Fyrirkomulag það, sem nú er á niðurjöfnuninni, er ekki nærri því eins örugt og áður. Þá voru 15 menn í niðurjöfnunarnefnd, og voru þeir fram á síðustu og verstu ár ekki kosnir eftir pólitískum flokkum, heldur sjeð um, að teknir væru menn úr öllum stjettum, sem væru kunnugir hver í sinni stjett. Þá voru valdir sjómenn, iðnaðarmenn, kaupmenn, embættismenn o. s. frv. Nú er horfið frá þessu, og er skipuð 5 manna fastanefnd, og hefir hún fullkomið vald til að leggja á öll útsvör. Að mínu viti kemur það ekki til mála, að 5 menn, hversu kunnugir sem þeir kunna að vera, hafi þá þekkingu á högum manna, að þeir geti lagt útsvör á alla bæjarbúa, án þess að stórar misfellur verði. Gamla fyrirkomulagið var miklu tryggara að þessu leyti, að því ógleymdu, að vilji menn beita rangindum, þá er altaf auðveldara fyrir 5 menn að taka sig saman um það heldur en 15. Jeg segi þetta ekki vegna þess, að jeg vilji væna þá, sem nú eiga sæti í nefndinni, um slíkt, en þetta er þó hugsanamöguleiki. Jeg verð því að mæla með þessari brtt. Jeg skil ekki í því, að háttv. frsm. minni hl. skuli dirfast að fara fram á, að hún verði tekin aftur til 3. umr.; hefði hv. meiri hl. fallist á það, mundi jeg óðar hafa tekið brtt. upp.

Þá vil jeg í sambandi við þessa grein beina þeirri fyrirspurn til hv. frsm. meiri hl., hvort það sje ekki um prentvillu að ræða, þar sem stendur: „Fái áfrýjandi lækkun á útsvari sínu“ o. s. frv. (MJ: Jú, „ekki“ á undan lækkun hefir fallið niður, og verður það leiðrjett). Jeg gerði ráð fyrir, að svo væri.

Þá er hjer enn brtt. frá hv. meiri hl. allshn., sem jeg fellst á, að sje til bóta.

Hún er um það, að útsvar skuli gjalda á tveimur gjalddögum, Jeg er viss um, að það hefir komið á gjaldendur þessa bæjar, þegar þeir fengu fyrir fáum dögum síðan seðlana frá brunabótaskrifstofunni, þar sem á stóð, að þeir ættu að borga það í einu lagi, sem þeir höfðu áður borgað í tvennu. Það fór að minsta kosti svo um mig, að mjer fanst þetta allhörð krafa. Geri jeg ráð fyrir, að eins færi um útsvörin. Nú hefir borgarstjóri farið fram á það, að útsvörin verði greidd í einu lagi, og telur hann það heppilegra fyrir bæinn og vænlegra til innheimtu. En það hjálpar ekki að líta eingöngu á málið frá bæjarins hálfu; það verður einnig að líta á það frá hálfu bæjarbúa, frá gjaldendanna hálfu. Sje erfitt fyrir allan þorra manna að greiða tvisvar, þá mun það þó enn verra einu sinni, og býst jeg við, að innheimtan muni ganga ver með því móti. Jeg veit heldur ekki til, að þetta tíðkist annarsstaðar. Í Kaupmannahöfn hefir þetta verið svo, og er víst enn, að þessi gjöld eru ekki greidd einasta tvisvar, heldur fjórum sinnum. Er það talið, að þetta sje bæði ljettir fyrir bæjarbúa og að greiðslan gangi auk þess betur fyrir sig. Það væri því hjer um beina afturför að ræða og óleik, bæði fyrir bæjarfjelagið og bæjarbúa.

Jeg hefi svo ekki meira að segja að sinni, en mun greiða málinu atkvæði með þeim breytingum, sem hv. meiri hl. nefndarinnar hefir borið fram við það. Hvað lóðargjaldið snertir, mun jeg þó hallast að till. hv. minni hl.