26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (136)

1. mál, fjárlög 1925

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg á nokkrar brtt. á þskj. 196, ýmist einn eða í fjelagi við aðra háttv. þingdeildarmenn. 18. brtt. er ekki til að auka útgjöldin. Þar er aðeins farið fram á það, að styrkur sá, sem ætlaður er kvenfjelaginu Ósk til húsmæðrafræðslu, megi greiðast öðrum, ef fjelagið sjer ekki fært að halda uppi þessari kenslu. Jeg veit til þess, að þetta fjelag, sem sýnt hefir mikinn áhuga á þessu máli, með því að halda uppi húsmæðraskóla um nokkurt skeið, er nú í húsnæðisvandræðum, og tel jeg því ólíklegt, að það af þeirri ástæðu haldi uppi kenslu. En mjer er einnig kunnugt um það, að ýmsar konur á Ísafirði hafa áhuga á því, að kenslu í húsmæðrafræðslu sje uppi haldið, þótt kvenfjelagið ósk sjái sjer það ekki fært. Vona jeg því, að háttv. þingdeildarmenn lofi þessari aths. við 14. gr. XV. að standa óáreittri.

Þá þarf jeg ekki að fara mörgum orðum um 15. brtt. á sama þskj., nefnilega um að fella niður styrkinn til verslunarskólanna, þareð háttv. þm. Barð. (HK), sem er aðalflm. þeirrar till., hefir talað fyrir henni. Jeg vil aðeins bæta því við, að þegar jafnmikið er búið að klípa af þessum styrk og háttv. fjvn. hefir gert, tel jeg að hann muni að litlu gagni koma skólunum, og þegar þess er einnig gætt. hversu oft það er látið klingja hjer í hv. deild, að verslunarstjettin sje skaðlega mannmörg, og enda lítt þörf þjóðfjelaginu, þá held jeg að fella ætti niður í bili þennan styrk og stuðla ekki að því með fjárveitingum úr ríkissjóði, að þessum mönnum fjölgi enn meir úr hófi fram. Þó að jeg sje ekki þeim mönnum samþykkur, sem halda því fram, að verslunarstjettin sje óþörf, tel jeg margt þarfara með fje ríkissjóðs að gera en styrkja þessa skóla nú sem stendur. Teldi jeg heppilegra, bæði af fjárhagslegum ástæðum og öðrum ástæðum, að sameina báða þessa skóla; en þareð jeg hygg, að háttv. þingdeild sje mjer ekki sammála í því, mun jeg ekki bera fram brtt. í þá átt nú að sinni.

XXII. brtt. á sama þskj. er borin fram af mjer og háttv. þm. Barð. Jeg heyri, að ýmsir háttv. deildarmenn hafa hneykslast á því, að fram skuli koma tillögur um að færa niður styrkina til Búnaðarfjelagsins og Fiskifjelagsins. Hv. frsm. (ÞórJ) varð þó að viðurkenna, að heyrst hefðu raddir víða utan af landi um það, að óhætt væri að klípa eitthvað af þessum styrkveitingum. Þegar ríkið er í þeirri fjárþröng, sem nú, að það getur eigi látið framkvæma þau störf á þjóðarbúinu, sem bein lagaskylda er að unnin verði, þá verður að draga saman seglin líka á þessu sviði, enda tel jeg það enga frágangssök. Jeg hygg það sje álit margra, sem best til þekkja í þessu efni, að það sje síður en svo, að við fáum aftur jafngildi þeirra peninga, sem veittir eru þessum fjelögum. Það er hlutverk Búnaðarfjelagsins að gefa leiðbeiningar í því, sem að búnaði lýtur, og að láta framkvæma ýmsar nauðsynlegar tilraunir í þeim efnum; en nú sem stendur geta fæstir bændur gefið sig nokkuð að ráði við því, sem þeir helst mundu óska, þ. e. grasræktinni. Jeg hygg því, að hugur þeirra flestra stefni ekki til stórra nýbreytinga á næstunni, en að þeir muni ætla sjer að láta stærri breytingar og umbætur bíða meðan fjárhagur þeirra er jafnþröngur og hann er nú. Jeg heyrði á ræðu hv. 1. þm. N.-M. (HStef), að Búnaðarfjelagið ætli að sníða sjer stakk eftir vexti þetta ár og hið næsta. Það væri gleðileg nýbreytni frá því, sem verið hefir árin 1919–22.

Árið 1922 virðist mjer að farið hafi til óvirkra framkvæmda hjá fjelaginu 50000 kr., en til verklegra framkvæmda 83000 kr. Er þá ótalinn sá liður, er nefnist ýmisleg útgjöld, og mun hann hafa numið 13300 kr. Lít jeg svo á, að fullvel sjé sjeð fyrir leiðbeiningarstarfseminni þótt sú upphæð, sem til hennar hefir verið varið, sje nokkuð lækkuð. Jeg sagði áðan, að bændur myndu ekki hugsa mikið til nýbreytni í landbúnaði þessi ár. Munu þeir ekki vera allskostar ánægðir með þá nýbreytni, sem þegar hefir verið ráðist í, er tveir þúfnabanar voru fluttir til landsins. Mun mörgum þykja, að nóg hefði verið að kaupa aðeins einn til að gera tilraun með. Sumir vildu fá 10 slíkar stóryrkjuvjelar þá þegar, en sem betur fór varð því afstýrt. Þessi vjelakaup og starfræksla þeirra hefir þurausið ræktunarsjóðinn svo gersamlega, að ríkisstjórnin hefir opinberlega auglýst, að engin lán fáist þar næstu ár. Veit jeg, að margir bændur á Vestfjörðum hafa liðið stórbaga við að geta nú ekki lengur fengið þessi hagfeldu og ódýru lán til smájarðræktarframkvæmda. Mun þetta nokkuð hafa leitt til þess, að bændur munu nú síður hneigðir til nýbreytni í stórum stíl en áður. Það er þó ekki svo, að jeg sje að lasta það, að tilraunir sjeu gerðar í landbúnaði. Jeg játa, að það er rjett hjá háttv. þm. Str. (TrÞ), að íslenskur landbúnaður hefir dregist nokkuð aftur úr og stendur ekki jafnfætis sjávarútgerð okkar. En eins og nú standa sakir, þá verður að klípa jafnt af þessum útgjöldum sem öðrum. Skal jeg taka það fram, að þeir menn, sem mest hafa unnið að jarðrækt í Ísafjarðarsýslu, menn, sem ef til vill standa fremst allra bænda á landinu í landbúnaði, þeir álíta það ekki neina frágangssök að færa niður styrkinn til Búnaðarfjelagsins. Jeg vil að vísu ekki taka undir orð hv. þm. Ak. (BL) um jarðræktarstyrkinn, sem lagt er til af háttv. fjvn., að veittur verði samkv. jarðræktarlögunum frá síðasta þingi, en jeg vil þó taka það fram, að jeg veit með vissu, að mestu dugnaðarbændurnir þarna vestra, menn, sem skarað hafa fram úr í húsabótum og túnrækt, þeir myndu hafa unnið sömu þrekvirkin, þótt engum eyri hefði verið til þess varið úr ríkissjóðnum. Hafa þeir lýst yfir þessu sjálfir, og vona jeg, að sami hugsunarháttur ríki víðar á landinu.

Hæstv. atvrh. (MG) kvað talsvert af styrknum til Búnaðarfjelagsins hafa runnið til búnaðarsambandanna, og kvað það mundi draga úr starfsemi þeirra, ef styrkurinn væri lækkaður. En þar sem jeg þekki best til, þá munu þau ekki draga mikið saman seglin fyrir því, þótt styrkurinn verði lækkaður um svo sem þriggja ára skeið. Bændur vita, að misbrestur getur orðið á ríkissjóðstillögum eins og á tíðarfarinu, og munu stjórnir sambandanna hafa gert fyrir því, með því að geyma nokkurt fje, sem þau geta svo tekið til, er í nauðirnar rekur. Víst er líka um það, að mikið má spara á því að haga leiðbeiningarstarfseminni öðruvísi en núi er. Eins og menn vita, er hún aðallega í því fólgin að hvetja menn og leiðbeina í því að hirða áburð, gera safngryfjur, súrheystóftir, sljetta tún og girða og gera áveitur, svo og umbætur á bústofninum. Má óhætt fullyrða, að þaulreyndur og þektur dugnaðarmaður í landbúnaði, þótt aðeins bóndi sje, geti komið að eins góðu liði þar eins og sprenglærður búnaðarráðunautur. Jeg veit af eigin reynd, að einn af okkar mestu dugnaðarmönnum í landbúnaði, Jón Fjalldal hreppstjóri, hefir með einni leiðbeiningarferð unnið meira gagn en þrír ráðunautar á sama tíma, enda eðlilegt, að bændur taki meira tillit til ráða og leiðbeininga þrautreyndra alþektra dugnaðarbænda en reynslulausra manna, þó bókvit hafi. Jeg verð yfirleitt að játa það sama um Fiskifjelagið sem Búnaðarfjelagið, að eftirtekjan af starfsemi þess muni ekki hafa svarað til styrksins. Verð jeg þó að játa það, að stjórn Fiskifjelagsins hefir verið svo forsjál að safna í dálítinn varasjóð. Er það meira en hægt er að segja um Búnaðarfjelagið, sem á engan varasjóð, en skuldir í tugaþúsundatali umfram eignir.

Háttv. frsm. (ÞórJ) sagði, að ef enginn styrkur yrði nú veittur til jarðræktarinnar, þá væri þar um bein svik að ræða við landbúnaðinn. Því er þar til að svara, að jeg býst við, að þingið verði í þeim efnum að gera fleira en gott þykir. Það verða víst ýmsir til þess að herma loforð upp á fyrverandi þing, sem þetta þing verður ekki fært um að efna og á ekki að efna. Þessar sífeldu tilvitnanir um loforð fyrri þinga, einkum þá þingmenn eru á bitlingabuxunum, mega ekki heyrast.

Jeg get ekki stilt mig um að benda hv. þm. Str. (TrÞ) á það, að samanburður hans á skósmiðnum og bóndanum var ekki rjettur. Dæmið geigaði á því, að ríkið styrkir ekki skósmiðinn til að bæta skó eða smíða nýja, en það hefir styrkt búandmann til ýmsra framkvæmda og umbóta á eignarjörð hans. Eins fanst mjer lítið ljós í hinu dæminu hans, um bóndann og sjávarútvegsmanninn. Mun tæplega hægt að kalla fiskiveiðar eintóma rányrkju, þótt ekki sje neitt látið í sjóinn í stað þess, sem tekið er úr honum, því það mun alment vera litið svo á, að djúp sjávarins sjeu svo auðug, að fiskur komi jafnan í fiskjar stað. Það er að minsta kosti órannsakað, hvort fiski fækkar á djúpmiðum, utan landhelgi. Er og vonandi, að þess verði langt að bíða, að ekki verði hægt að fá fisk úr sjó.

Jeg skal að vísu játa það, að sæmileg trygging mun vera fyrir því, að fje þessu verði vel varið, en samt get jeg ekki verið með hækkun fjvn. Jeg vil meira að segja fara niður fyrir áætlun stjórnarinnar. Þykist jeg í þessu vera í samræmi við vilja bestu bænda.

Þá á jeg brtt. við 16. gr. ásamt hv. þm. Barð. (HK). Hún er þess efnis að hækka tillagið til markaðsleitar erlendis. Hv. þm. Barð. hefir talað svo fyrir henni, að jeg get látið þar við sitja. Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir komið fram með brtt. sama efnis, en gengur nokkru lengra. Jeg mun greiða þeirri till. atkv. mitt, því mjer þykir þar ekki of langt farið. Eins og menn kannast við, þá er nú útlit fyrir, að við verðum að gera mikið til þess að afla kjöti okkar nýrra markaða erlendis, og megum við með engu móti skera við neglur fjárframlagið til þessa. Er ótrúlegt, ef vel er þar að verki gengið, að svo fari, að ekkert hafist upp úr þeirri leit. Sumir háttv. þm. hafa látið í ljós, að engin þörf muni nú á að hafa erindreka erlendis fyrir sjávarútveginn. En jeg held, að það sje hin mesta kórvilla. Við þurfum aldrei fremur en nú að hafa erindreka bæði á Spáni og á Ítalíu. Fiskverslunin er nú einmitt að hverfa í hendur landsmanna sjálfra, og verðum við því að hafa okkur alla við. Það var líka mál til komið, að þessir erlendu milliliðir færu að hverfa úr sögunni, því auðvitað eiga Íslendingar að reka þessa verslun milliliðalaust. En þeir, sem til þekkja þarna syðra, vita best, hve vandasamt það er að eiga viðskifti við þessar suðrænu þjóðir. ,Verslunar-morallinn‘ er allur annar þar en á Norðurlöndum. Verðbreytingar eru þar mjög tíðar. Stafa þær ekki svo mjög af því að markaðurinn sje svo miklum breytingum háður, sem af hinu, að innlendir kaupmenn nota afstöðu sína gegn útlendingum á ekki sem allra heiðarlegastan hátt á stundum.

Þá tók jeg eftir því, að hv. fjvn. hefir felt niður liðinn um 500 kr. til skipstjórakenslu á Ísafirði. Þetta er í rauninni enginn sparnaður hjá hv. nefnd, því það verður aðeins til þess, að Fiskifjelagið lætur þetta af mörkum til að halda kenslunni uppi. Þessi styrkur hefir verið í fjárlögunum undanfarin ár, og ef honum verður nú slept, má ef til vill líta svo á af þeim, sem ekki þekkja hug þingdeildarinnar, að Alþingi vilji láta hætta þessari kenslu. Það væri þó mikill skaði, því þessi kensla er mjög nauðsynleg, enda engin jafngóð annarsstaðar utan Reykjavíkur.

Þá er ein brtt. háttv. fjvn., þar sem hún leggur til, að styrkurinn til veðurathugana sje lækkaður úr 35 þús. niður í 20 þús. Jeg hefi lesið það, sem stendur

í nál. um þetta, og sömuleiðis heyrt skýringar háttv. frsm. (ÞórJ), og jeg hygg, að þeir, sem lesið hafa nál. og borið það svo saman við skýringar hv. frsm., hljóti að efast um rökin fyrir þessari lækkun. Til þessa var varið 1922 53 þús. kr., en fyrv. stjórn leggur til, að það sje fært niður í 35 þús. Ef hv. fjvn. getur fært mjer heim sanninn um það, að veðurskeyti, sem sjómenn fá, verði eins ábyggileg og áður, þó að upphæð þessi verði lækkuð, get jeg greitt atkvæði með tillögunni. En hafi verið ástæða til 1922 að greiða 53 þús. kr. í þessu skyni, þá virðist síst hugsanlegt, að 20 þús. nægi 1925, þegar þess er ennfremur gætt, að á næsta ári á að koma veðurathuganastöð á Grænlandi, sem án efa gefur miklu ábyggilegri veðurfregnir en hingað til hefir verið kostur að fá, og hlýtur að hafa mikla þýðingu fyrir sjómenn okkar. Jeg er því ekki í neinum efa um, að þegar stöðin verður komin á Grænlandi, — en þar er fyrirhugað að byggja tvær stöðvar á næsta sumri — þá verði hægt að segja fyrir um norðan- og austanstórviðri með nokkrum fyrirvara. Það er því enginn leikur ver gerður sjómönnum okkar en ef komið er í veg fyrir, að þeir fái þessar veðurfregnir eins ábyggilegar og kostur er á.

Af því, sem jeg nú hefi tekið fram, er jeg hræddur um, að niðurfærsla þessarar fjárveitingar hafi áhrif á, að veðurskeytin verði ekki eins ábyggileg eins og þau þurfa að vera. Sje jeg mjer því ekki annað fært en að greiða atkvæði á móti þessari tillögu; skora jafnvel á hv. nefnd að taka hana aftur að sinni.

Þá hefir tillaga nefndarinnar um að taka aftur upp styrk til leiðbeinanda um húsagerð til sveita mætt allmikilli mótspyrnu. Jeg þekki þennan mann vel og veit bæði af eigin sjón og sögusögn annara, að not af leiðbeiningu hans um húsagerð hafa orðið mjög mikil. Enda er maðurinn vel fær um starfið og áreiðanlegur. Veit jeg t. d. um eitt hús, sem bygt var eftir fyrirsögn hans, sem er regluleg fyrirmynd, ekki aðeins fyrir það, hve vandað það er og vel frá því gengið að öllu leyti, heldur fyrir það, hve ódýrt það var.

Jeg get vel skilið, að hv. 2. þm. Rang. (KlJ) sje óánægður með framkomu þessa manns við stjórnina. Og jeg verð að taka undir það, að það er óhæfa af mönnum, sem vinna fyrir hið opinbera, að gefa ekki greið svör og skýrslur um störf sín, þegar stjórnin spyr þá þar um. En málsbætur munu vera þarna fyrir hendi, t. d. sú, að leiðbeinandi var síðastliðið sumar að reyna nýjar umbætur í húsagerð, og vildi því ekki gefa skýrslu um störf sín fyr en fullsjeð var, hvernig þær mundu gefast.