10.04.1924
Neðri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (1364)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Jeg vil geta þess, út af ummælum hæstv. fjármálaráðherra, að mín eigin lóð er þannig metin, að fasteignamatsverðið á fermeter mun vera lægra en söluverðið á feralin. Og jeg geri ráð fyrir því, að fasteignamatsnefnd hafi metið þá lóð eftir sömu ákveðnu reglunum og aðrar lóðir í bænum. Hið háa heildarverð lóða, samanborið við verð húsa í bænum, kemur auðvitað af því, að lóðir bæjarins og ríkisins eru reiknaðar með. Það, sem hæstv. fjrh. sagði um, að ekki væri ákveðinn lóðaskattur af lóðum hafnarsjóðs, og þær ályktanir, sem hann dró af því, sje jeg ekki, að hafi minstu áhrif á málið, Hver heilvita maður hlýtur að sjá það, að skattlagning á þeim lóðum væri ekki annað en flónska, þar sem hafnarsjóður er eign bæjarins. Væri það ekki annað en taka fje upp úr vasa sínum og stinga því í hann aftur. Það, að lóðir eru dýrari hjer en annarsstaðar, skiftir ekki máli í þessu sambandi. Það er eðlilegt, að lóðir sjeu dýrari þar, sem meira er hægt að hafa upp úr þeim. Skýrsla um hlutföll milli húsaverðs og lóða í öðrum kaupstöðum liggur hjer engin fyrir, og verður því ekkert um það sagt, hvernig samanburður við aðra kaupstaði yrði. Hitt vita allir, að aðrir kaupstaðir eru síst þjettbygðari en Reykjavík. — Samanburður hæstv. fjrh. á lóða- og húsaverði í bænum er algerlega villandi. Af minni eign er lóðarverðið rúmlega 10%, og geng jeg út frá því, að það sje nokkurnveginn sambærilegt við það, sem er algengast; og mín lóð er nokkurnveginn hæfileg undir eitt hús. Hæstv. fjrh. mintist á sölu á lóðum ríkisins og hafnarsjóðs. Það er svo sem auðvitað, að ekki fengist fyrir þær fasteignamatsverð, ef þær yrðu seldar allar í einu. Þá fengist fyrir þær sáralítið verð. En væru þær seldar smátt og smátt, þá er jeg ekki í neinum minsta vafa um það, að fyrir þær fengist miklu hærra verð en fasteignamatsverðið.