08.04.1924
Neðri deild: 45. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1913 í B-deild Alþingistíðinda. (1376)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það kann að vera rjett hjá hv. 3 þm. Reykv. (JakM), að komast megi af með eina skrá eftir sem áður, þó að brtt. hans verði samþykt, en við það er það að athuga, að þá verða dálkarnir að vera 5, í stað 2, og má gjarnan telja þá upp. Eins og 2. gr. er orðuð nú, verður dálkur fyrir virðingarverð eignanna, en annar fyrir gjaldið. Eftir brtt. verður að hafa dálk fyrir virðingarverð húsanna, annan fyrir gjaldið af þeim, þriðja fyrir lóðaverðið, fjórða fyrir gjald af lóðunum, og loks er hinn fimti dálkurinn fyrir bæði gjöldin samanlögð. Jeg sje enga ástæðu til að gera þetta flóknara en nauðsynlegt er.

Það skaust upp úr hv. þm., að önnur ástæða væri til þessarar breytingar, sem sje sú, að komið gæti til mála að hækka lóðargjaldið, en ekki húsagjaldið. Það getur verið þægilegra að koma á breytingu síðar, ef það er undirbúið nú þegar, en jeg sje ekki, að nein nauðsyn sje á því að byrja strax á breytingunni. Lóðirnar, sem nefndar eru í staflið b., geta vel verið á sömu skránni, þó að gjaldið af þeim sje reiknað með öðru hundraðsgjaldi af virðingarverðinu.

Hv. 2. þm. Reykv. (JBald) vil jeg svara því, að lítið verður eftir af öllum þessum ákvæðum í 7. gr. um útsvarskyldu utanbæjarmanna, ef þau næðu aðallega til 1 eða 2 manna, sem eru búsettir hjer í nágrenninu, en stunda atvinnu í bænum. En þó að svo væri, að ekki væru nema 2 menn, sem væru þannig algerlega útsvarsskyldir í 2 sveitarfjelögum, ber að gæta rjettar þeirra, svo að útsvör þeirra í báðum stöðunum samanlögð verði ekki óhæfilega há af þeirri ástæðu einni, að þeir eru útsvarsskyldir á 2 stöðum. Jeg hygg nú, að þessi ákvæði sjeu það víðtæk, að allur þorri utanbæjarmanna á togurum komist undir þau. Togaravertíðin nær fram yfir lok, eins og kunnugt er, og þegar byrjað er í miðjum febrúar, nær hún yfir 3 mánuði. (JBald: Byrjar í miðjum marsmánuði). Sem betur fer byrjar hún sjaldan svo seint.