25.04.1924
Efri deild: 54. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1918 í B-deild Alþingistíðinda. (1387)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Eggert Pálsson:

Jeg hefi skrifað undir þetta nál. með fyrirvara. Jeg álít málið stórmál og fylstu rannsóknar vert. Þess vegna skrifaði jeg ekki undir fyrirvaralaust. Mjer dylst ekki, að hjer verður stigið þýðingarmikið spor, þar sem á að leggja skatt á hús og lóðir í bænum og það gjald á að hafa forgangsrjett fyrir öllu. Mjer skilst, að í sumum tilfellum geti þetta orðið óþægilegt fyrir lánsstofnanir. Það er ekki ósennilegt, að þær hafi lánað of mikið út á sumar húseignir, þegar þessi skattur bætist á þær. Sama er að segja um lóðir. Skattálaga þessi gæti leitt til þess, að lóðir seldust ekki fyrir það, sem lánið gilti. Yfir höfuð að tala er hjer verið að stíga út á nýja braut, a. m. k. að því er snertir Reykjavík. Þó að þetta skattafyrirkomulag kunni að vera notað í öðrum kaupstöðum landsins, þá ber þess að gæta, að þar eru hús og lóðir virtar miklu lægra en í höfuðstaðnum. Þess vegna er ekki hægt að fara beint eftir því, sem á sjer stað annarsstaðar í kaupstöðum landsins.

Jeg álít rjettast að fara varlega á stað inn á þessa braut og hafa skattinn sem allra lægstan að menn sjá sjer fært. Ef þessi breyting gefst vel, þá er altaf innan handar að auka skattinn. En að fara geyst af stað getur haft mikið tjón í för með sjer, með því að mjög erfitt er að snúa við aftur. Jeg vildi því með fyrirvaranum tryggja mjer rjett til að geta greitt atkvæði með brtt., ef þær kæmu fram. Jeg viðurkenni, að ákvæðið um það, að menn, sem hafa atvinnu í bænum, en búsetja sig fyrir utan hann, skuli samt sem áður greiða gjald til bæjarþarfa, er mjög nauðsynlegt. Hinsvegar er það varhugavert að leggja útsvar á menn, sem koma hingað til að leita sjer atvinnu. Jeg veit um bláfátæka menn eða syni fátækra foreldra, sem verið hafa hjer nokkra mánuði til þess að leita sjer atvinnu, þá hefir verið á þá skelt 60–70 kr. útsvari, enda þótt þeir teldust ekki heima fyrir færir um neitt útsvar. Slíkir menn eru oft hin eina stoð fátækra foreldra, og tel jeg það ekki rjettláta meðferð að íþyngja þeim með svona gjöldum, þó þeir skreppi hingað sjer eða þeim til bjargar um fáeinar vikur.

Jeg býst ekki við að koma sjálfur með brtt. við frv., en ef einhverjum sýndist rjett að lækka gjöldin frá því, sem nú er í frv., þá mun jeg greiða þeirri brtt. atkv. Með fyrirvara mínum vildi jeg vera við því búinn.