26.03.1924
Neðri deild: 33. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í B-deild Alþingistíðinda. (139)

1. mál, fjárlög 1925

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg get verið mjög stuttorður. Ummæli hv. frsm. gefa ekki mikið tilefni til andsvara. Hann lagðist að vísu móti till. minni, eins og jeg hafði hálfvegis búist við, og færði nokkrar ástæður. Jeg gat þess þegar jeg talaði í dag, af hvaða ástæðum jeg hefði borið till. fram. Andmæli hv. frsm. hrekja ekkert rjettmæti óska þeirra, sem jeg hefi borið fram fyrir hönd bænda í Hrunamannahreppi. Hv. frsm. gat þess, að Alþingi bæri ekki skylda til að sjá um það viðvíkjandi þessu fyrirtæki, að löggjöfin yrði hlutaðeigandi bændum ekki til óhagræðis. Jeg viðurkenni þetta, en álít, að löggjafarvaldið eigi að hafa það hugfast að ganga ekki feti lengra í þessum efnum en nauðsyn krefur. Hygg jeg það mundi hafa verið ofurauðvelt að undanþiggja um nokkra stund þetta fyrirtæki frá laga ákvæðum síðasta þings. Smjörlíkisgerðin var sett á stofn í sambandi við rjómabúið með fjársparnaðinn fyrir augum. Tilætlunin var að fullnægja þörf þessarar sveitar og nágrannasveita. Það var alls ekki tilgangurinn að framleiða miklar vörur til að flytja á fjarlæga markaðsstaði. Enda var rjómabúið stækkað í því augnamiði að hafa smjörlíkisframleiðsluna heldur litla. Byggingunni, sem rjómabúið var starfrækt í, var dálítið breytt, og þingið brást vel við að styrkja smjörlíkisgerðina, og það mun hafa orðið þess valdandi, að í þetta var ráðist; annars hefði ekki verið lagt út í þennan kostnað. Hjer er um merkilega nýung að ræða á sviði löggjafarvaldsins. Það hefir stutt fyrirtækið á stofn, en þegar það er komið í gang, setur það lög, sem bannar því að starfa. Eigi hið háa Alþingi ámæli skilið út af þessu máli, þá á það ámæli skilið fyrir að hafa nokkurntíma veitt styrk til fyrirtækis, sem það hafði ekki gleggri þekkingu á en raun ber vitni um.

Jeg drap á það í dag, að menn væru fúsir til að skila áhöldunum aftur. Það yrði alt of kostnaðarsamt fyrir hjeraðið að byrja fyrirtækið á öðrum stað. Jeg þarf ekki að fjölyrða frekar um þetta mál en jeg vil geta þess, að Alþingi hefir gefið eftir fjárupphæðir til fyrirtækja, sem komu því miklu minna við en þetta fyrirtæki.

Jeg vil leyfa mjer að gera fyrirspurn til hv. fjvn. um það, hvort hún hafi tekið ákvörðun um endurveiting á upphæðum, sem voru í fjárlögum síðasta þings. Vænti jeg eftir glöggu svari frá hv. frsm.

Þá vil jeg minnast örfáum orðum á ummæti út af till. á þskj. 207, sem jeg flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv. Þau ummæli, sem jeg hafði um styrklækkun til Þórðar Flóventssonar, bar ekki að skilja sem ámæli til hæstv. fyrv. stjórnar. Það var öðru nær. En mjer fanst sjálfsagt að greiða meira fje en hún hefir gert ráð fyrir.

Jeg vil ekki lengja umr. frekar. Þykist jeg sjá, að hv. þingmenn sjeu búnir að fá nóg af ræðuhöldum í dag.