29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1934 í B-deild Alþingistíðinda. (1400)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jónas Jónsson:

Mjer finst það mjög óheppilegt, að háttv. 2. þm. G.-K. skyldi koma fram með brtt. við 3. umr. þessa frv., og gera það svo seint, að forseti varð að taka málið af dagskrá vegna þeirra, því eins og kunnugt er, er svo áliðið þingtímans, og það þarf því að flýta þessu máli svo sem unt er, ef það á að ná fram að ganga á þessu þingi. Og þegar þess er gætt, að þessi hv. þm. er mjög vel kunnugur hjer í bæ og hefir skrifað um þetta mál í eitt af dagblöðum bæjarins, og hlýtur því að hafa sett sig mjög vel inn í það — þá virðist það mjög einkennilegt, að hann skuli þurfa að taka sjerstakan frest til þess að koma með brtt. En það tefur fyrir málinu um einn dag, og það gæti vel orðið til þess, að málið dagaði uppi á þinginu, og þá yrði bæjarsjóður af þeim tekjuauka, sem þetta á að veita honum.

Jeg vil taka það fram, eins og hv. 1. landsk. þm., að það var ósamræmi í forsendum og niðurstöðu hv. 2. þm. G.-K. og mjer finst alt benda til þess, að hann komi fram með brtt. aðeins til þess að tefja fyrir málinu, svo það nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Mjer finst það alveg óhugsandi, að maður, sem hefir jafngóða aðstöðu til þess að setja sig inn í þetta mál og hv. 2. þm. G.-K., þurfi að fá sólarhrings frest til þess að gera lítilfjörlegar brtt. við frumvarpið, og mjer finst hann gera alt of lítið úr hæfileikum sínum með því, enda þótt tekið sje tillit til þess álits, sem aðrir hafa alment á hæfileikum hans. Jeg skal taka það fram, að þegar mentmn. hafði frv. um ljósmæðraskóla til meðferðar, þá benti hæstv. forseti okkur nefndarmönnunum á það, að við mættum helst ekki gera lítilfjörlegar breytingar á því, sökum þess að þá væri hætt við, að það dagaði uppi í hv. Nd. Það var þó aðeins smámál, en þetta er þýðingarmikið mál, og því hættulegra að tefja fyrir því.

Jeg vil benda á það, að þetta mál er mjög vel undirbúið. Það munu vera um 10 ár síðan 2 merkir borgarar þessa bæjar, þeir Halldór sálugi Jónsson banka gjaldkeri og Sighvatur Bjarnason bankastjóri, lögðu til, að afgjaldinu af lóðum og húsum væri breytt í fastan skatt. Síðar var málið tekið upp af þeim Sveini Björnssyni, núverandi sendiherra, og Jóni Þorlákssyni, núverandi fjrh., sem er aðalmaðurinn í flokki hv. 2. þm. G.-K., og síðan hefir því verið haldið fram af góðum samherja hv. 2. þm. G.-K., Sigurði Jónssyni barnaskólastjóra, og bæjarstjórnin hefir öll verið að reyna að koma þessu á síðustu 10 árin. Hún hefir hvað eftir annað samþykt frv. þetta, og það í ennþá harðari mynd en það er nú. Það hefir jafnvel verið gert ráð fyrir því, að lóðargjaldið mætti verða alt að því 2%. Og nú hefir bæjarstjórnin öll samþykt þetta frv. Þar hafa allir flokkar verið sammála um að koma því fram. Íhaldsmennirnir í bæjarstjórninni hafa allir samþykt það, að undanteknum einum, og miðflokksmennirnir 2 voru báðir með því, og sömuleiðis allir jafnaðarmennirnir. Það er því auðsætt, að málið er vel undirbúið, og af því hve allir flokkar í bæjarstjórn hafa verið sammála um það, bæði fyrr og síðar, virðist mega draga þá ályktun, að hjer sje um sjálfsagt rjettlætismál að ræða.

Mjer finst því, að það væri gerræði að þinginu að neita bæjarstjórninni um að samþykkja þetta mál, sem hún er svo einhuga um að fá framgengt. Og hvaða líkur eru til þess, að þingmenn, sem eru fremur ókunnugir málavöxtum, muni breyta frv. til batnaðar? Til þess að undirstrika enn betur, að hjer er ekki um neina samábyrgðarpólitík að ræða, vil jeg benda á það, að borgarstjóri er ekki flæktur í neinni samábyrgð og stendur mikið nær hv. 2. þm. G.-K. en mjer í slíkum málum. Jeg skal geta þess, að borgarstjóri kom á fund með allshn. og mælti mjög eindregið með frv. þessu. Og mjer finst það undarlegt, ef hv. 2. þm. G.-K. þarf að hafa vit fyrir mönnum eins og Halldóri Jónssyni, Sighvati Bjarnasyni, Sveini Björnssyni og Jóni Þorlákssyni í málum eins og þessum. Það væri líka undarlegt, ef þessi hv. deild teldi sjer fært að eyðileggja mál, sem bæjarstjórnin hefir þrábeðið um og sem raunar allir hafa beðið um, nema fjelag húseigenda. Það fjelag skrifaði þinginu brjef og mótmælti þessu, en þau brjef liggja nú öll í pappírskörfunum undir borðum þingmanna, enda eiga þau ekki annarsstaðar heima, því röksemdir þeirra voru ekki svo veigamiklar.

Ef þingið eyðilegði þetta mál, þá væri það hart fyrir það sama þing að horfa á, að sumir efnuðustu menn bæjarins geti flúið út fyrir bæinn og bygt sjer þar „villur“ til þess að komast undan rjettmætum gjöldum til bæjarins. Eða máske er það til þess, að bærinn tapi 6000 kr. útsvari, sökum þess að maður, sem hefir 40 þús. kr. árslaun, flytur út úr bænum, að það á að tefja fyrir málinu. Eða er það vegna ríku togaraskipstjóranna, sem hafa flutt sig fram á Nes, að hjer er verið að tala máli þeirra fátæku?

Menn tala um að hækka skatta, en það er hlægilegt vegna þess, að nú er mikið af þessum sköttum lagt á húseignir eftir verði, sem er miklu hærra, brunabótaverði. Húseign, sem er að brunabótamati 47 þús. kr., er eftir fasteignamati 30 þús. Húsaskatturinn myndi mestallur renna til þarfa húseigenda, eða vegna þeirra, til hreinsunargjalds, sótaragjalds o. s. frv. Er nokkurt vit í því, að þingið hindri bæjarstjórnina í að leggja skatta á húseignir svo að nægi fyrir þessum útgjöldum? Það hljóta menn þó að telja ekki ónauðsynlegt að hreinsa skorsteina og verja húsin fyrir bruna. Húseigendum er það aðeins til ógagns, að till. bæjarstjórnar verði feldar. Ef nokkrum yrði það til hagsmuna, væru það helst þeir ríku menn, sem flýja spöl út úr bænum, t. d. suður að Skerjafirði, til þess að komast hjá að borga af hálaunum sínum til bæjarins. Hvers vegna eru lóðirnar í Reykjavík 10 milj. kr. virði? Af því að bærinn er búinn að verja hundruðum þúsunda, og jafnvel miljónum, í strætagerð. Þess vegna eru húsin dýr og lóðirnar svo dýrmætar. Jeg býst við, að hv. 2. þm. G.-K. sje svo kunnugur í bænum, að hann viti, hvað feikimiklu fje var varið til að steinleggja Hverfisgötuna. (BK: Þetta kemur ekkert málinu við). Það kemur því við að því leyti, að einhversstaðar hefir orðið að taka þetta fje, en göturnar eru gerðar vegna húseignanna. 60 faðmar af Hverfisgötu kostuðu 60 þús. kr. Þó bærinn verji 100 þús. kr. á ári til götulagninga, myndi það þó taka heilan mannsaldur að gera þær sem í borgum erlendis. Vegna peningaleysis er þetta ekki framkvæmt. Og þegar á að meina bænum rjettmætar tekjur, er ómögulegt að ætlast til stórra framkvæmda. Ef einhver hagnaður yrði af lóðargjöldunum, veitti ekki af því til götuaðgerða.

Jeg vil nefna nokkur dæmi, til þess að sýna, hvað lítið er hæft í því, að fasteignamatið sje óábyggilegur skattstofn. Húseign Blöndahls kaupmanns hjer í bæ er metin til brunabóta á 67 þús. kr., en til fasteignamats á 30 þús. Húseign N. N. er metin til brunabóta 84 þús., en fasteignamatið er 45 þús. Hús eins af helstu mönnum í Fasteignafjelaginu er metið til brunabóta 48 þús., til fasteignamats 40 þús. Kvennaskólinn í Reykjavík var metinn tugum þúsunda hærra til brunabóta en fasteignamats. Þá er ljóst, að með því að færa gjöldin frá hærra mati yfir á það lægra er í raun og veru verið að hjálpa húseigendum. Það er hlægileg fjarstæða, að fasteignamatið sje ógætilegt, þegar það er alt að helmingi lægra en brunabótamatið, sem gjöld til bæjarins eru nú miðuð við.

Hv. flm. brtt. talaði um óeðlilega háa skatta. Húsaskatturinn er nákvæmlega það, sem þarf til að halda húsunum við; lóðarskatturinn hverfur eins og dropi í botnlausa hít vegna götulagninga og viðgerða á þeim.

Hv. 2. þm. G.-K. sagði, að þessir skattar kæmu harðast niður á fátæklingunum. En athugum, hvernig þeir skattar eru, sem hv. 2. þm. G.-K. vill leggja á þjóðina. Hvað skyldi matvöru- og fatatollarnir koma hart niður á miljónera, sem hefði t. d. þrjá menn í heimili? Þetta er eins og fylliraftur færi að prjedika bindindi, þegar stórauðugir menn, eins og þessi hv. þm., sem hafa lægstu skattabyrðarnar að bera, vilja ljetta á sjer undir því yfirskyni að bjarga fátæklingum. Og þetta er sami maðurinn, sem hefir komið neysluskattinum á þjóðina, á hin mörgu bök fátæklinganna. — Nýlega hefir hæstv. atvrh. skýrt frá í ræðu, að árleg gjöld á hvern mann í landinu — barnið í vöggu og gamalmennið í kör — sje um 100 kr. En lóðarskattur á heilu húsi má ekki hækka um 100 kr., — húsi, sem fjöldi fólks býr í. Þessi sami hv. þm. er fyrir fáum dögum búinn að leggja blessun sína yfir 20% verðtoll vegna ríkissjóðsins. Hefðum við verið nú undir stjórn Dana og þeir bannað þennan toll, myndi okkur hafa þótt súrt í broti. En slíku valdi vilja sumir beita við Reykjavík, — banna henni nauðsynlega tekjuauka, sem hún vill leggja á sjálfa sig.

Þá var dálítill útúrdúr hjá hv. þm. um kaupfjelag Reykjavíkur. Kom ekki skýrt í ljós hjá hv. þm., hvernig samábyrgðin gæti hækkað húsaskattinn og lóðarskattinn. Þarf jeg ekki miklu að svara, af því að við háttv. þm erum svo sammála um samábyrgðina, og hann hefir lagt blessun sína yfir hana hjer í hv. deild, þegar samvinnulögin voru samþykt hjer. Annars finst mjer framkoma hv. þm. í þessu máli sýna það, að hann er að komast í barndóm aftur. Hv. þm. álítur ófært, að málið gangi stórtafalaust gegnum þingið, og treystir ekki hv. deild til að bera ábyrgð á frv. Ef tafið verður fyrir frv. svo dögum skiftir, getur það ekki orðið að lögum á þessu þingi. Annars er þetta mál svo þrautundirbúið af bæjarstjórn Reykjavíkur, að þingið þarf þar engu við að bæta.

Þessi dæmi háttv. þm., sem áttu að vera rothögg á frv., voru svo lítilfjörleg, að þó þau væru rjett, mundu þau vega nauðalítið, þegar tillit er tekið til þess, að gjöld að jafnaði á hvern sem er — hvert barn í vöggu — er 100 kr. Hverju skiftir það þá, þótt gjöld af stóreignum hækki um 100 kr.? Háttv. þm. má ekki halda, að í hv. Ed. sjeu tóm börn og hann geti spilað refinn fyrirhafnarlaust. Hverjir skyldu borga 20% tollinn á nauðsynjum? Eru fátækar fjölskyldur hjer í Reykjavík þar undanþegnar?

Jeg hygg, að þær athugasemdir, sem hv. 1. landsk. (SE) og jeg höfum gert um málið, sanni, að þeir, sem greiða atkvæði með brtt., sjeu aðeins með því að gera tilraun til að svifta bæinn tekjustofni, sem gæti rjett við fjárhaginn.

Frv. gengur í þá átt að hlífa þeim, sem hafa dýrari lóðirnar, en íþyngja hinum. Þess ber að gæta, að Nýja Bíó, sem hv. þm. mintist á, stendur á baklóð, sem ekki er verðmæt, en það fyrirtæki borgar gífurlega hátt útsvar. Ætti nú að fara að leggja lóðarskatt á slík fyrirtæki eftir gróða, yrði úr því tóm vitleysa.

Svo að jeg nefni öreigana, — sem hv. þm. taldi sig til áður hjer á þingi, — vil jeg mótmæla, að þetta frv. komi hart við þá. En verði frumvarpið felt, leiðir það til þess, að ekki verður hægt að leggja í kostnað til viðhalds mannvirkjum í bænum. Það er ekki hægt að pína óendanlega þau gjöld út úr fátæklingunum eins og hingað til.

Jeg hefi sýnt fram á, að þessi brtt. er óforsvaranleg. Mótstaða gegn frv. er komin fram undir því yfirskyni að verja fátæklingana fyrir órjetti, en það er sannanlegt, að hún er beint runnin frá húsabröskurunum. Þeir eru svo áhrifalausir hjer í bæ, að þeir hafa engum manni komið að í bæjarstjórn. En svo reyna þeir að dansa með hálfa efri deild eða meira, og ef til vill tekst þeim það í dag. En þá er sæmdin ósmá fyrir þá, sem svo eru leiddir.