29.04.1924
Efri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1952 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Björn Kristjánsson:

Hv. 1. landsk. (SE) hjelt því fram, að hjer væri ekki um tekjuhækkun að ræða, þar sem þau gjöld falli í burtu, er borgast eiga með 0,6%.

Jeg hefi sýnt fram á það með dæmum mínum, að hækkunin kemur fram alstaðar nema í einu tilfelli, og getur því ekki komið til mála, að ekki sje um hækkun að ræða, þó að till. sje samþykt. Hv. þm. hjelt því fram, að málið væri vel rannsakað, en jeg hefi sýnt fram á það, að svo er ekki. Hvað það snertir, að öll bæjarstjórnin hafi samþykt frv., þá skal jeg taka það fram, að jeg átti tal við Jón Ólafsson bæjarfulltrúa eftir að grein mín um málið kom í Morgunblaðinu, og kvaðst hann hafa verið á móti frv. af sömu ástæðu og jeg, en að hann hafi verið borinn ofurliði í málinu af sósíalistum. Ennfremur hefir Pjetur Halldórsson, sem er einn af mætustu mönnum í bæjarstjórninni, skrifað á móti málinu, og er því ekki rjett að segja, að öll bæjarstjórnin hafi verið með frv. Aðrir hv. þm. hafa minst á það, að framgangi málsins sje ekki hætta búin, þó brtt. mínar sjeu samþyktar, og vænti jeg því, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja þær.