30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1956 í B-deild Alþingistíðinda. (1415)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Það mun vera rjett hjá hv. samþm. mínum (MJ), að engin brtt. um lóðargjaldið hefir komið fram, en jeg get þó ekki stilt mig um að láta í ljós, að jeg er alls ekki ánægður með málið eins og það er nú. Það lítur annars út fyrir, að Reykjavík eigi ekki upp á pallborðið hjá þinginu, að minsta kosti ekki hjá hv. Ed., og þá ekki heldur bæjarstjórn Reykjavíkur, því hún hefir jafnan verið sammála um það og má því ætla, að hún hafi bæjarbúa að baki sjer. Hafa, eins og hv. þm. er kunnugt, farið fram kosningar til bæjarstjórnar meðan málið var á döfinni, en það hefir í engu breytt afstöðu hennar til þess.

Mál þetta kom til allshn. í hv. Ed. og lagði nefndin til, að frv. yrði samþykt óbreytt. Einn af hv. nefndarmönnum skrifaði raunar undir með fyrirvara, en kom annars ekki með neinar brtt. Þannig fór málið til 3. umr. Leit svo út, að frv. ætlaði að ganga í gegn breytingarlaust. Raunar var það á allra vitorði, að ekki allfáum útsendurum lóðaeigenda hjer í bæ var tíðförult til þm. úr hv. Ed. til að reyna að hafa áhrif á málið. Enda fór svo, að á síðustu stundu reis einn þm. upp til að fá málinu frestað, svo hægt væri að sinna kröfum þeim, sem íhaldinu höfðu borist frá bröskurum þessa bæjar. Síðan var frv. breytt eftir þeirra óskum og kröfum, og þá auðvitað til hins verra. Er það því ranglátara, sem Alþingi hefir áður veitt kaupstöðum og kauptúnum heimild til að leggja jafnhátt lóðargjald á eins og það, sem ákveðið var í upphaflega frv. frá bæjarstjórn Reykjavíkur. En þeim fáu stóreignamönnum, sem þetta gat skift máli, hefir samt tekist að vera svo áhrifaríkir í þinginu, að sá hluti Íhaldsflokksins, sem sæti á í hv. Ed., gerði málið að flokksmáli. Jeg heyri, að hv. Íhaldsmenn hjer í deildinni mótmæla, að málið hafi verið gert að flokksmáli hjá þeim, en það hefi jeg ekki sagt, heldur hitt, sem kunnugt er hjer í þinginu, að Íhaldsliðið í Ed. skaut á fundi til að gera það að flokksmáli að lækka lóðargjaldið í frv. Og voru þó sumir Íhaldsmenn, eins og form. allshn. Ed. (JóhJóh), sem er mestur virðingamaður Íhaldsins á Alþingi, búinn áður að leggja til, að frv. yrði samþ. óbreytt. En flokkurinn í Ed. neyddi hann til að hverfa frá því. Svo var kappið mikið. Skylt er að geta þess, að ýmsir hinir frjálslyndari Ed.-þm. stóðu fast með málinu. En einna merkilegastar voru þó ástæður þær, sem fram voru fluttar fyrir lækkun eignagjaldsins. Lækkunin á lóðargjaldinu var gerð fyrir fátæklingana í Reykjavík! Fátæklinga, sem eiga stórar lóðir og lönd í bænum!! Var það vel samboðið þeim þm., sem bar þetta fram, þar sem hann er löngu orðinn þingviðurkendur öreigi. Svona voru nú ástæðurnar, og getur hver tekið þær gildar, sem vill. En jeg hefi viljað segja frá gangi þessa máls til að sýna, hver áhrif stóreignamennirnir hafa á Íhaldið. Þau hafa í þessu tilfelli verið svo augljós og áberandi, að ekki verður um vilst.