30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Jakob Möller:

Í raun og veru er ágreiningurinn minni en gera mætti ráð fyrir, að hann væri, eftir umræðum um málið að dæma, og er rangt að gera það að því deilumáli, sem reynt hefir verið, einkum utan þings. Það er rjett, sem hv. samþm. minn (JBald) segir, að málið hefir verið lengi á döfinni og ekki vakið neinar deilur, svo teljandi sje, fyrri en nú síðustu dagana, sem málið hefir verið fyrir þinginu. En það mun síðar koma í ljós, hversu afarástæðulausar þær deilur eru. Málið er í sjálfu sjer smámál og þetta lóðargjald nemur svo litlu, að engan mann munar um þá upphæð. Jeg skal taka til dæmis, að jeg er í dýru húsi, en samkv. þessu greiði jeg í lóðargjald aðeins 24 kr. Má víst flesta húseigendur gilda einu, hvorumegin hryggjar slíkt gjald liggur. Helst ætti þetta þá að koma niður á mönnum, sem liggja með mikið af óbygðum lóðum í því skyni að braska með þær. Mál þetta hefir heldur aldrei orðið „principielt“ að deilumáli hjer í þinginu, og ekki heldur í bæjarstjórninni. Frv. hefir verið tvisvar sinnum samþykt þar með öllum atkvæðum gegn einu, og kosningar til bæjarstjórnar hafa farið svo fram, að ekki hefir verið á það minst. Spurningin er um það, hvernig löggjafinn skuli standa gagnvart bæjarstjórninni. Fyrir aðra bæi er lóðargjaldið ákveðið ekki minna en 1% og ekki meira en 2%. í frv. bæjarstjórnar var það upphaflega sett 2% af byggingarlóðum, en við flm. frv. breyttum því svo, að það skyldi vera ákveðið alt að 2%. Bæjarstjórn mætti þá ákveða það nánara. Væri þá hægt að fara varlega af stað í fyrstu og lækka það aftur, ef skatturinn þætti of þungbær.

En hvaða ástæða er fyrir því að binda hendur bæjarstjórnar Reykjavíkur í þessu efni fremur en bæjarstjórnir annara kaupstaða! Ef lóðamatið er rjett alstaðar — og út frá því verður að ganga — þá á lóðargjaldið að vera eins í þeim öllum. Eins og frv. hefir verið breytt, tekur þingið í sínar hendur, hvað gjaldið skuli vera á hverjum tíma. En það er ekki rjett. Bæjarstjórnin á að hafa þar sitt svigrúm, og er þá sama sem að bæjarbúar sjálfir ákveði gjaldið, því þeir hafa áhrif á bæjarstjórnina gegnum kosningarnar.

Til þess að vekja andúð gegn þessu gjaldi hafa einkum verið notaðir kálgarðar og stakkstæði og því um líkt, sem er allmikið að ummáli. En einmitt vegna þessara lóða er lægra gjaldið sett. Undir það falla þær lóðir, sem samið er um, að ekki skuli vera byggingarlóðir. Annars vil jeg ekki verða til þess að stofna til deilu um þetta mál; hefi jeg stuðlað að því, að ekki yrði komið fram með neinar brtt., og vil því mælast til, að það fái góðan byr í hv. deild.