30.04.1924
Neðri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

61. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Frsm meiri hl. (Magnús Jónsson):

Jeg hefi fáu að svara. Það má vel vera, að það sje satt, að nokkur hiti hafi orðið í hv. Ed. við síðustu umræðu þessa máls þar. En í þessari háttv. deild hefir það vakið lítinn óróa. Það væri þá helst, að það hafi kveikt lítilsháttar í hv. samþm. mínum (JBald), og hefir honum sjálfsagt komið það vel að fá tækifæri til að hella úr reiðiskálum sínum yfir Íhaldsflokkinn. Er gott til þess að vita, ef það fróar honum í bili. — Annars er mál þetta frá mínu sjónarmiði harla smávægilegt. Það hefir ekki verið barist svo mjög gegn þessu lóðargjaldi yfirleitt, heldur hefir ágreiningurinn snúist um hundraðsgjaldið, hve hátt það skyldi vera. Jeg get ekki sjeð neitt undarlegt við það, þótt Alþingi ákveði upphæð gjaldsins eftir því, sem það álítur rjettast. Það stafar eingöngu af því, að ýmsir hv. þingmenn telja 2% gjald of hátt, og búast við því, ef það er langt á vald bæjarstjórnar að ákveða það „alt að 2%“, þá sje það í raun og veru sama og að það sje fastsett 2%. Og jeg sje ekkert á móti því, að Alþingi setji gjaldinu það mark, sem það telur hæfilegt.

Annars þýðir ekki að ræða um frv. nú, þar sem engar brtt. hafa verið gerðar við það, og liggur því ekki annað fyrir en að samþykkja það eða fella eins og það er. Jeg tel litlu varða fyrir bæjarsjóðinn, hvort lóðargjaldið er sett 0,8% eða 0,6%. Hann hefir jafnar tekjur eftir sem áður, aðeins af öðrum liðum. En í frv. eru önnur ákvæði, sem eru mikilsverð fyrir bæinn. Og jeg vona því, að þó einstöku hv. þdm. sjeu ekki hæstánægðir með lóðargjaldsupphæðina, þá lofi þeir því þó fram að ganga, vegna annara ákvæða þess, og láti ekki brtt. hv. Ed. verða því að fótakefli.