26.02.1924
Efri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

29. mál, hæstiréttur

Flm. (Jón Magnússon):

Jeg minnist þess frá eldri tímum, þegar þrengt hefir að um fjárhag, hvort heldur hefir verið ríkissjóðs eða einstakra manna, að þá hefir jafnan verið kvartað um laun embættismanna, hve þau væru há, o. s. frv. Og fyrir nokkrum árum hljómaði það um landið, að embættismennirnir væru hálaunaðir landsómagar. Þessar raddir gátu verið skiljanlegar á einu tímabili, nefnilega fyrst eftir að landið fjekk fjárforræði, því að þá voru laun sumra embættismanna nokkuð há, samanborið við það, sem nú er, að minsta kosti. En eftir 1889 voru laun þeirra lækkuð svo mjög, að síðan hafa íslenskir embættismenn verið verst launaðir allra embættismanna, sem jeg þekki til. En nú er svo komið, að kjör þeirra eru jafnvel ennþá verri en þau voru fyrir stríð; þannig eru nú hæstu laun, sem telja má um 8000 krónur, lægri að verðgildi en lág meðallaun fyrir stríð. Svo mjög hefir verðgildi peninganna fallið. T. d. er krónan móti dollar ekki nema um 40 aura virði. En þó er hið raunverulega notagildi hennar enn minna, og hefir verið reiknað út, að það væri ekki nema 36 aurar. Með öðrum orðum, hæstu laun nú jafngilda ekki nema um 3000 krónum fyrir stríð.

Jeg býst því við, að um það verði ekki deilt, að eigi að draga úr embættismannakostnaðinum, þá sje ekki leiðin að lækka launin, heldur sje frekar reynandi að fækka embættismönnunum, og er jeg fyrir mitt leyti á þeirri skoðun. Þó má enginn skilja það svo, að jeg telji það eitt nóg til þess að rjetta við fjárhaginn. Nei, til þess þarf miklu, miklu meira.

Það mun láta nærri að áætla, að þau embættislaun, er ríkissjóður greiðir nú, sjeu um 2 milj. króna. Ef það er borið saman við laun embættismanna áður, þá er það ekki full ein miljón, reiknað til rjetts verðs. Það má vel búast við, að sumir vilji bæta við þessa upphæð ýmsum öðrum kostnaði, eins og t. d. kostnaði við skrifstofuhald embættismanna, sem þó er tæplega rjett. En þó að bætt sje nú við öllum mögulegum kostnaði, sem tök eru á að telja megi til embættisrekstrar, verður upphæðin þó ekki meiri en um 2½ milj. króna. Og er þar með talin upphæð sú, sem gengur til starfsmanna Búnaðarfjelags Íslands og Fiskifjelagsins. Upphæð þessi hefir hækkað á síðari árum, aðallega að því er snertir presta og læknastjettina. Hitt hefir nokkurnveginn haldið jafnvægi.

Af því að jeg lít svo á, að spara þurfi á öllum sviðum, hefi jeg komið fram með þetta frv. Þessu lík frv. komu fram á þingunum 1921 og 1922, en í þeim var farið fram á að gera lögfræðisprófessorana við háskólann að hæstarjettardómurum. En þessa leið álít jeg, að ekki megi fara, heldur sje hitt rjettara, eins og hv. 5. landsk. þm. (JJ) fór fram á í fyrra, að fækka dómendunum. Jeg var þá á móti því fyrir þá sök, að jeg taldi óviðeigandi að gera það eitt til sparnaðar á þinginu að klípa af hæstarjetti. Var málinu því vísað þá til stjórnarinnar. Jeg hefði að vísu talið rjettara, að þetta frv. hefði komið frá stjórninni. En hæstv. forsrh. (SE) gaf engan ádrátt um það í fyrra að leggja frv. þessu líkt fyrir þingið. Verður hann því ekkert sakaður um það.

Eins og jeg hefi tekið fram í greinargerðinni, tel jeg hægt að fækka dómendum í hæstarjetti. En jeg veit vel, að rjetturinn er því ekki samþykkur, og margir eru þeir, sem vilja koma á fót miðdómstóli, ef hæstarjettardómendum er fækkað; en það tel jeg ekki gerlegt að svo stöddu, af því að þá yrði enginn sparnaður við fækkun dómaranna. Gæti það komið til greina síðar, ef fært þætti aðra hluta vegna.

Í frv. hv. 5. landsk. þm. (JJ) í fyrra var stungið upp á því að breyta málaflutningnum við hæstarjett þannig, að hann yrði skriflegur í stað munnlegs málaflutnings, sem nú er. Þetta atriði gæti komið til athugunar í nefnd. En rjett teldi jeg samt að spyrja hæstarjett sjálfan um þetta, því að það hefi jeg fyrir satt, að dómendurnir og málafærslumennirnir óska ekki eftir neinni verulegri breytingu í þá átt.

Þá er eitt atriði enn í frv. þessu, sem gengur í sparnaðaráttina. Það að fella niður hæstarjettarritaraembættið, en í stað þess að fela rjettinum sjálfum að ráða sjer ritara, sem ekki sje því fastur embættismaður, en hafi að þóknun 2–3 þús. krónur. Jeg hefi talið rjett, að dómurinn væri sem sjálfstæðastur, og kysi sjer því forseta sjálfur.

Þá er dálítið nýmæli í 5. gr. frv. þessa, að birt sje ágreiningsatkvæði, ef dómari óskar.

Legg jeg svo til, að máli þessu verði að umræðunni lokinni vísað til allsherjarnefndar.