26.02.1924
Efri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1963 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

29. mál, hæstiréttur

Jónas Jónsson:

Jeg skal strax lýsa því yfir, að mjer er það mikil ánægja, að frv. þetta er fram komið, og er það af skiljanlegum ástæðum, því að í fyrra eyddi jeg miklum tíma og mikilli vinnu til þess að reyna að sannfæra hv. þingdeild um nauðsyn flestra þeirra breytinga, er frv. þetta fer fram á. Mun jeg því styðja það nú, þó að það komi annarsstaðar frá. Jeg skal aðeins taka það fram, af því að sagt var í fyrra, að jeg væri með margar varhugaverðar nýungar, þá sje jeg nú, eins og jeg vissi fyrir, að hvert slíkt átak flýtir fyrir endanlegum framgangi málanna. Væntanlega verður þetta frv. nú samþykt, og má þá þakka það hreyfingu þeirri, sem á málið kom í fyrra. Jeg gleðst sömuleiðis yfir líkunum fyrir bættum skilningi deildarinnar á þessu máli, og væri vel farið, ef svo væri um fleiri.

Jeg get ekki látið vera að minnast á nokkrar breytingar á hæstarjettarlögunum, sem jeg tel, að gætu verið betri en frv. þetta fer fram á. Er þá fyrst, að mjer finst það skaða frv., að ekki er gert ráð fyrir, að breytingarnar að því er snertir fækkun dómaranna eigi sjer strax stað, því að jeg tel enga ástæðu til annars. Því að ef menn eru sannfærðir um, að eitthvert starf sje með öllu óþarft, á vitanlega að leggja það niður strax. Í sambandi við þetta er ekki úr vegi að minnast á tvær skoðanir, sem alment ríkja um þetta. Önnur er sú, að ef þjóðfjelagið hefir einu sinni ráðið til sín mann í þjónustu sína, þá sje því skylt að hafa hann altaf, jafnvel þótt hann standi illa í stöðu sinni og starf hans verði með öllu óþarft. Þetta er alveg gagnstætt þeirri venju, sem tíðkast hjá öðrum atvinnurekendum, hvort heldur þeir eru einstaklingar eða fjelög, því að þeir fækka mönnum jafnóðum og þeirra er ekki þörf lengur. Eru þannig dæmi til þess, að sumir atvinnurekendur hafa fækkað starfsmönnum sínum um meira en helming síðan kreppan kom. Hin stefnan, einmitt sú, sem jeg hallast að, er, að eins og það er regla einstaklingsins að láta hvern þann starfsmann fara, sem ekkert er með að gera, eins eigi það líka að vera regla þjóðfjelagsins að láta hvern starfsmann fara, þegar ekki er þörf fyrir hann lengur. En landið hefir ekki gert þetta, og nægir þar að minna á viðtökur þær, er tillögur fjárveitinga- nefndar fengu í fyrra, er hún lagði til, að lækkuð væru laun læknis eins á Vesturlandi, sem landið hafði ekkert með að gera. Nei, þingið hefir ekki kjark ennþá til að losa sig við þá starfsmenn sína, þó það hafi ekkert með þá að gera.

Jeg vil nú halda, að einmitt þessi kjarkleysisskoðun gægist fram í frv. á þskj. 29, og jeg leyfi mjer að mótmæla því, að aðrar reglur gildi fyrir starfsmenn þjóðfjelagsins en starfsmenn annara atvinnurekenda yfirleitt, auk þess, sem landið ætti að hafa óbundnari hendur við starfsmenn sína en aðrir atvinnurekendur, þegar litið er á það, hvernig starfsmenn þessir hafa fengið sjermentun sína, fyrst með ókeypis kenslu í hinum almenna mentaskóla í 6 ár, og síðan með ýmsum styrkjum af hálfu hins opinbera. Menn þessir standa því í þakklætisskuld við ríkið. Ætti landið því að standa vel að vígi gagnvart starfsmönnum sínum, þó aldrei nema það þurfi að kasta þeim á klakann, sem kallað er, því þeir hafa þó altaf þessa dýrmætu gjöf, sem þeir hafa aflað sjer á kostnað þjóðfjelagsins. Þetta, sem jeg hefi nú sagt, er að mestu almenns efnis, og fyrir því hefi jeg talað um það við þessa umr.

Þá vil jeg minnast á það atriði frv., að hafa ritara áfram við hæstarjett. Jeg er vitanlega samþykkur háttv. flm. (JM) um það, að það ætti ekki að þurfa að kosta mjög mikið. En merkur lögfræðingur, sem nákunnugur er hæstarjetti, hefir sagt mjer, að vel mætti komast af án ritara, ef málafærslan væri skrifleg. Eins og hv. flm. tók fram, að þingið, en ekki dómurinn, ætti að ráða því, hvort dómendurnir væru 3 eða 5, eins á það vitanlega að ráða því, hvort málaflutningurinn er munnlegur eða skriflegur. Um hinn munnlega málaflutning er það að segja, að hann er mjög dýr; já, svo dýr, að almennar kvartanir hafa heyrst um það. Og jeg veit t. d. um ekki allfáa menn, sem beinlínis hafa ekki getað skotið málum sínum til hæstarjettar, einungis fyrir þá sök, hve dýr málaflutningurinn er. En slíkt fyrirkomulag á dómstóli verður að teljast óhafandi, því að það er alveg eins skylda vor að líta á hag borgaranna eins og þjóðfjelagsins.

Jeg mun nú, þrátt fyrir það, þó frv. þetta sje ekki alveg eins og jeg hefði kosið, greiða atkvæði með því.